Samtökin Það er von kynntu verkefnið Gefðu von um jólin í byrjun nóvember og hófu að safna styrkjum, en verkefnið fólst í að safna jólagjöfum fyrir einstaklinga sem dvelja á áfangaheimilum landsins yfir jólin.

Þess má geta að Siglfirðingurinn Inga Margrét Benediktsdóttir er í stjórn þessara samtaka ásamt 6 öðrum aðilum víðs vegar um landið.

Fylgjendur Það er von síðunnar á Facebook ásamt öðrum, auk fyrirtækja tóku vel í verkefnið og söfnuðust 100 gjafir. Í fyrra voru gefna 20 gjafir og því er ljóst að verkefnið er mun stærra í ár, bæði í fjölda gjafa og verðmæti þeirra.

„Við höfum nú lagt lokahönd á að kaupa í pakkana, setja í þá, redda kössum, pakka inn, opna og yfirfara gjafir frá lesendum það er von og jafna og pakka upp á nýtt,“ segir á Facebook-síðu Það er von.

Heildarverðmæti gjafa um 1,5 milljón

„Við hófum undirbúning snemma í nóvember og kynntum verkefnið Gefðu Von um jólin auk þess að óska eftir styrkjum. Lesendahópur það er von brást við kallinu og söfnuðust 90.000 kr fyrstu fjórum vikunum. Á lokadegi söfnuninar tóku fjölmiðlar eftir framtakinu okkar og fjölluðu um það á MBL og DV, við bættust 100.000 kr í söfnunina. Peningarnir fóru alfarið í kostnað á gjöfum sem voru settar í pakkana. Við vorum einnig gríðarlega heppin með nokkkra stóra styrki í verkefnið og er heildarverðmæti gjafa þetta árið 1,5 milljón.“

Verkefnið var unnið í kærleika og einnig var verkaskipting skýr, sérstaklega vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. Ragna Kristinsdóttir gjaldkeri Það er von sá um að pakka inn gjöfum, á meðan sonur hennar, Hlynur Kristinn Rúnarsson, stofnandi samtakanna og Tinna Barkardóttir stóðu í röðum í verslunum við að sækja gjafir, versla og græja það sem þurfti. Aðrir stjórnarmeðlimir búsettir víða um landið veittu síðan andlegan stuðning.

„Við erum svo ótrúlega þakklát öllum sem komu að þessu verkefni með okkur. Við teljum okkur eiga talsvert í þessari viðhorfsbreytingu sem hefur átt sér stað í samfélaginu gagnvart fólki með fíknisjúkdóma. Hér erum við í sameiningu að safna saman til að geta gefið fólki sem er í bata frá fíknisjúkdómi gjafir, það er talsvert langt frá því að gefa þeim skömm og dæma það!

Við trúum því að þetta framtak okkar skili sér til þeirra einstaklinga sem gjafirnar þiggja, að þau skipti màli, að samfélagið styðji þau til edrúmennsku. Við trúum því að hugurinn og samstaðan á bakvið þessar gjafir muni gefa fólki von um jólin.“