Dómsmálaráðuneytið hefur gefið út upplýsingaefni um vísbendingar um mansal á þremur tungumálum. Efnið gagnast ekki síst þeim sem starfa í þeim atvinnugreinum þar sem líkurnar eru miklar að beri á mansali. Leiðbeiningunum er ætlað að aðstoða þá sem gætu þurft að bera kennsl á hugsanlega þolendur mansals, en nýtist einnig öllum almenning sem vill hafa augun hjá sér í þessum efnum. Í leiðbeiningunum eru jafnframt upplýsingar fyrir þolendur og aðra um úrræði og bjargráð við mansali.
Í bæklingnum er farið yfir vísbendingar um mansal sem geta birst í hegðun, viðmóti og ásýnd en ekki síður í vinnu- eða lífskjörum viðkomandi. Sérstaklega er farið yfir einkenni sem gætu komið fram þegar um er að ræða barn yngra en 18 ára. Einnig eru nefnd þau úrræði sem standa til boða en þar er fyrsta verkefnið að hafa samband við 112. Að lokum er svo listi yfir þau félagasamtök og stofnanir sem veitt geta þolendum mansals aðstoð og ráðgjöf.
Nú þegar stríð geysar í Evrópu er hættan mikil á að úkraínskir flóttamenn verði þolendur mansals þar sem gerendur hagnýta sér oft neyð og örvæntingu fórnarlamba sinna. Það er því mikilvægt að allir hafi augun opin og kynni sér vísbendingar um mansal og tilkynni strax ef grunur kemur upp um að einstaklingur sé þolandi mansals.
Mansal er ein arðbærasta grein í skipulagðri glæpastarfsemi í heiminum í dag en jafnframt ein alvarlegasta birtingarmynd ofbeldis og brota á mannréttindum sem fyrir finnst. Mansal getur átt sér stað hvar og hvenær sem er og hver sem er getur orðið þolandi mansals. Fólk í viðkvæmri stöðu á þó alltaf frekar á hættu á að verða þolendur mansals, þar sem gerendur hagnýta sér viðkvæma stöðu þeirra og neyð. Gerendur hagnýta sér þolendur mansals í kynferðislegum tilgangi bæði í vændi og í eigin þágu, sem og í fjárhagslegum tilgangi, í nauðungarvinnu, nauðungarþjónustu og svo framvegis.
Árið 2019 kynnti dómsmálaráðherra áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Aðgerðirnar eru 10 talsins, en ein af aðgerðunum er greining á þolendum mansals og annars konar hagnýtingu. Útgáfa leiðbeininganna er einn liður í þeim aðgerðum. Dómsmálaráðuneyti tekur virkan þátt í viðurkenndu alþjóðlegu samstarfi gegn mansali.
Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins.