Líkt og undanfarin ár mun Þórarinn Hannesson og fjölskylda standa fyrir söfnun síðustu dagana fyrir jól. Markmiðið með þessari söfnun er að styðja við bakið á ungum fjölskyldum í bæjarfélaginu þar sem alvarleg veikindi barna eða foreldra eða önnur óvænt áföll hafa sett strik í reikninginn.

Á síðustu fjórum árum hefur verið veitt um 500.000 kr. úr þessum sjóði og hafa þær krónur farið á góða staði þar sem þær hafa nýst vel.

Hugmyndin að verkefninu kviknaði þegar Þórarinn stóð frammi fyrir því að ná 50 ára aldri og langaði að fagna þeim áfanga, því hann er ekki alveg sjálfsagður.

Í tilkynningu segir Þórarinn “þar sem ég er svo lánsamur að eiga nóg fyrir mig og mína afþakkaði ég gjafir og óskaði eftir fjárframlögum til góðs málefnis. Þeir peningar sem söfnuðust þá fóru í að styðja við skólastarf ABC samtakanna í Pakistan.

Þegar ég og fjölskylda mín ákváðum að halda verkefninu áfram langaði okkur að styðja við málstað sem stóð okkur, og okkur hér á Siglufirði, nær og völdum að styðja við bakið á ungum fjölskyldum í nærsamfélaginu þar sem alvarleg veikindi hafa bankað upp á”.

Í dag, laugardag 22. des, og á Þorláksmessu mun Þórarinn Hannesson verða með söfnunarbauk í Ljóðasetrinu fyrir þá sem vilja styðja við þetta málefni. Opið verður frá kl. 13.00 – 16.00 og aftur kl. 20.00 og fram eftir kvöldi. Boðið verður upp á lifandi dagskrá, kaffi og kræsingar.

“Fyrir þá sem vilja styrkja verkefnið bendi ég líka á reikning í Arion banka á Siglufirði: 0348 – 03 – 403016 Kt: 211264-5359” segir Þórarinn.

Í tengslum við söfnunina mun Þórarinn einnig ljúka tónleikahrinunni 40 ár – 40 tónleikar sem hann hefur haldið í ár í tilefni af 40 ára tónlistaferli sínum.

 

Mynd: pixabay