Kraftlyftingafélag Ólafsfjarðar Fjallabyggð greindi frá að Hilmar Símonarson keppti um helgina á sínu fyrsta alþjóðlega móti í kraftlyftingum á RIG leikunum.

Mótið var haldið í Sporthúsinu í Kópavogi og var umgjörð öll til fyrirmyndar. Gífurlegur kuldi var því miður á keppnis og upphitunarstað vegna bilunar í hitakerfi og var mótið því mjög krefjandi fyrir keppendur.

Hilmar þurfti margoft að fara á hlaupabretti til að stífna ekki upp en þrátt fyrir þetta féllu mörg met. Hann keppti í 66 kg flokki og vigtaðist 64,85kg. Hnébeygja var opnuð með 175 kg léttri og öruggri lyfti, í annarri 185,5 kg sem var bæting um 0,5 kg og þriðju 190 kg bæting um 5 kg á íslandsmeti. Fyrstu grein lokið með glæsilegum árangri. Bekkpressa. 117,5 og 125 kg í annarri lyftu, í þriðju reyndi Hilmar við 130,5 kg sem var tilraun við nýtt íslandsmet, sem hafðist ekki að þessu sinni.

Réttstaða: Hilmar opnaði á 207,5 sem var létt lyfta og tryggði nýtt íslandsmet í samanlögðum árangri. Þegar hér var komið við sögu var kuldi og stífleiki farinn að segja til sín. Hilmar reyndi tvisvar við 215 sem naumlega mistókust.

Niðurstaðan var í samanlögðu 522,5 kg sem er feykigóður árangur (og er 17,5kg bæting á samanlögðum árangri), ekki síst ef tekið er mið af líkamsþunga Hilmars.

Trölli.is óskar Hilmari til hamingju með árangurinn.

Forsíðumynd/Guðný Ágústsdóttir