Mennta- og barnamálaráðuneytið vekur athygli á auglýsingu þar sem óskað er eftir þátttöku leik- og grunnskóla í þróunarverkefni um fræðslu og ráðgjöf við foreldra um uppeldi barna.
Þróunarverkefnið var sett af stað í febrúar af mennta- og barnamálaráðherra í samstarfi við Háskóla Íslands. Um er að ræða tveggja ára verkefni um þróun námskeiða um uppeldi barna fyrir foreldra, sem haldin verða í leik- og grunnskólum. Markmiðið er styrkja samstarf milli skólasamfélagsins og foreldra um uppeldi barna.
„Með þessu þróunarverkefni viljum við brúa bilið milli skóla og foreldra og efla foreldrastarf. Með samþættingu þjónustu erum við ekki eingöngu að horfa til samlegðaráhrifa milli skólastofnana og annarra stofnana eða samtaka. Foreldrastarf gegnir lykilhlutverki í uppeldi barna og viljum við efla það og tengja við skólastarf með farsæld þeirra að leiðarljósi.“
Á þróunartímanum verða áhrif námskeiðsins metin m.a. út frá reynslu foreldra, barna, skólasamfélagsins og mögulegum hagrænum ávinningi verkefnisins.
Umsóknarfrestur er til og með 15. maí 2023. Sótt er um með því að senda tölvupóst á amh@hi.is. Hægt er að fá nánari upplýsingar um verkefnið hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu á netfanginu mrn@mrn.is og hjá Önnu Magneu Hreinsdóttur, aðjúnkt í síma 840 1522 og á netfanginu amh@hi.is.
Mynd/aðsend