Íbúar og ferðamenn á Borðeyri við Hrútafjörð hafa þurft að sjóða allt neysluvatn síðan í byrjun júní. Yfirborðsvatn blandaðist neysluvatni í leysingum í vor og mælast saurgerlar, eða e.coli- og kólígerlar, í vatninu. Borðeyri er hluti af sveitarfélaginu Húnaþingi vestra og segir sveitarstjórinn að allt kapp sé lagt á að koma vatnsmálunum í samt horf.

Vatnsveitan á svæðinu er á vegum sveitarfélagsins. Vatnsveitukerfið á Borðeyri var endurnýjað árið 2010 og ekki hafa verið vandræði með neysluvatn síðan þá. 4. júní síðastliðinn barst svo kvörtun því að óvenjulegur litur var á vatninu. Næsta dag var sýni tekið og leiddu niðurstöður í ljós að það væri ekki drykkjarhæft. „Málið var tekið mjög alvarlega og strax farið í lagfæringar. Við fundum stað þar sem talið var að yfirborðsvatnið hafi blandast neysluvatninu,“ segir Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Fólk var þó beðið að sjóða allt neysluvatn þar til sýni yrði tekið næst. Nú er komið í ljós að enn eru kólígerlar í vatninu. Guðný Hrund segir því ljóst að yfirborðsvatn hafi komist í neysluvatnið víðar en talið hafi verið fyrr í sumar. Reynt sé að komast sem fyrst fyrir vandræðin en þangað til þurfi fólk að sjóða allt neysluvatn.

Að jafnaði eru 15 til 20 manns á Borðeyri, íbúar og ferðamenn. Þess má geta að um 200 manns voru á Borðeyri á laugardagskvöld á fjölskyldurokksamkomu. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi veikst.

 

Frétt: Ruv.is
Sjá eldri frétt á Trölla.is: Sjóða ber neysluvatnið á Borðeyri