Júní var fremur kaldur kemur fram á vefsíðu Veðurstofu Íslands. Mjög kalt var á landinu dagana 11. til 20. Það frysti og snjóaði víða í byggð og gróðri fór hægt fram. Í lok mánaðar var aftur á móti mjög hlýtt, sérstaklega á Austur- og Norðausturlandi og fór hitinn þar víða vel yfir 20 stig nokkra daga í röð. Hlýindunum fylgdu miklar leysingar eftir kalt vor með tilheyrandi vatnavöxtum í ám og lækjum.
Hiti
Meðalhiti í Reykjavík í júní var 8,6 stig og er það -1,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -1,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Júní hefur ekki verið eins kaldur í Reykavík síðan 1997. Á Akureyri var meðalhitinn 9,9 stig, 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,3 stig og 8,6 stig á Höfn í Hornafirði.
Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.
stöð | meðalhiti °C | vik 1991-2020 °C | röð | af | vik 2011-2020 °C |
Reykjavík | 8,6 | -1,2 | 121 til 123 | 151 | -1,4 |
Stykkishólmur | 8,3 | -0,6 | 84 | 176 | -0,9 |
Bolungarvík | 8,1 | -0,1 | 50 til 51 | 124 | -0,4 |
Grímsey | 6,9 | 0,3 | 41 | 148 | -0,3 |
Akureyri | 9,9 | 0,3 | 45 til 46 | 141 | -0,1 |
Egilsstaðir | 9,2 | 0,3 | 23 | 67 | 0,1 |
Dalatangi | 6,9 | 0,2 | 26 | 83 | -0,1 |
Teigarhorn | 7,9 | 0,2 | 37 til 40 | 149 | -0,1 |
Höfn í Hornaf. | 8,6 | -0,6 | |||
Stórhöfði | 7,6 | -1,0 | 126 | 145 | -1,0 |
Hveravellir | 4,5 | -1,7 | 45 | 57 | -2,1 |
Árnes | 8,6 | -1,4 | 107 | 142 | -1,5 |
Meðalhiti og vik (°C) í júní 2021
Júní var fremur kaldur. Mjög kalt var á landinu um miðjan mánuðinn (dagana 11. til 20.). Það frysti og snjóaði víða í byggð. Í lok mánaðar var aftur á móti mjög hlýtt á Austur- og Norðausturlandi og fór hitinn þar víða vel yfir 20 stig nokkra daga í röð. Mánuðurinn var að tiltölu kaldastur suðvestanlands og á sunnanverðu hálendinu, á meðan hlýrra var norðan- og austanlands. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -2,3 stig í Þúfuveri en jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,0 stig á Gjögurflugvelli.
Hitavik sjálfvirkra stöðva í júní miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)
Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Öræfum 9,8 stig en lægstur 2,3 stig á Gagnheiði og á Þverfjalli. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 5,7 stig í Seley við Reyðarfjörð.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 30. Það var líka mjög hlýtt þann 29. og þá mældist hitinn hæstur á Hallormsstað, 26,4 stig. Hæsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Skjaldþingstöðum 25,9 stig þ. 30.
Mest frost í mánuðinum mældist -6,7 stig á Gagnheiði þ. 15. Mest frost í byggð mældist -5,0 stig í Reykjum í Fnjóskadal þ. 15. Það er mesta frost sem mælst hefur í byggð svo seint í júní.
Úrkoma
Úrkoma í Reykjavík mældist 39,1 mm sem er 90% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 12,9 mm sem er um 60% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 29,3 mm og 117,3 mm á Höfn í Hornafirði.
Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 11, tveimur fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 5 daga mánaðarins, einum fleiri en í meðalári.
Sólskinsstundafjöldi
Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 152,0 sem er 37,5 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 204,1, sem er 21 stund yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Vindur
Vindur á landsvísu var 0,6 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Loftþrýstingur
Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1008,7 hPa og er það -3,9 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.
Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1029,6 hPa í Surtsey þ. 24. Lægstur mældist þrýstingurinn 978,7 hPa í Surtsey þ. 10.
Fyrstu sex mánuðir ársins
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu sex mánuði ársins var 3,7 stig sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 39. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sex 2,8 stig. Það er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 41. sæti á lista 141 ára.
Það hefur verið þurrt í Reykjavík það sem af er ári, úrkoman hefur verið um 65% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri er heildarúrkoma mánaðanna sex jöfn meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.
Skjöl fyrir júní
Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júní 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.
Mynd/ úr vefmyndavél Trölla