September var hlýr framan af, sérstaklega norðan- og norðaustanlands. Síðustu tíu dagar mánaðarins voru aftur á móti kaldir. Það snjóaði víða í byggð í lok mánaðar og var jörð alhvít á mörgum stöðum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Úrkoma mældist víðast hvar vel yfir meðallagi í mánuðinum. Óvenju þungbúið var suðvestanlands og hafa ekki mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í septembermánuði síðan 1943. Mánuðurinn var fremur illviðrasamur.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í september var 8,3 stig og er það -0,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en -0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 8,6 stig, 0,6 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 8,2 stig og 8,6 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöðmeðalhiti °Cvik 1991-2020 °Cröðafvik 2011-2020 °C
Reykjavík8,3-0,252 til 53151-0,1
Stykkishólmur8,20,1461760,0
Bolungarvík7,60,3421240,3
Grímsey7,60,7201480,5
Akureyri8,60,6271410,5
Egilsstaðir8,50,712670,5
Dalatangi9,11,17840,8
Teigarhorn8,60,426 til 271490,2
Höfn í Hornaf.8,6-0,1
Stórhöfði8,40,0421440,0
Hveravellir3,8-0,120570,1
Árnes7,7-0,356 til 57142-0,1

Meðalhiti og vik (°C) í september 2021

September var hlýr framan af, sérstaklega norðan- og norðaustanlands þar sem óvenjuleg hlýindi sumarsins héldu að einhverju leyti áfram. Síðustu tíu dagar mánaðarins voru aftur á móti kaldir. Þegar allur mánuðurinn er skoðaður var að tiltölu hlýjast á Ströndum og á Norðausturlandi en að tiltölu kaldast suðvestanlands. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 1,5 stig á Gjögurflugvelli en neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -0,6 stig í Þúfuveri.

Hitavik sjálfvirkra stöðva í september miðað við síðustu tíu ár (2011-2020)Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey 9,5 stig en lægstur 1,8 stig á Þverfjalli. Í byggð var meðalhitinn lægstur 5,6 stig í Möðrudal.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 24,0 stig á Egilsstaðaflugvelli þ. 1. Mest frost í mánuðinum mældist -7,6 stig á Kárahnjúkum þ. 27. Mest frost í byggð mældist -6,6 stig í Möðrudal þ. 27.

Úrkoma

September var úrkomusamur og mældist úrkoma víðast hvar vel yfir meðallagi. Fyrri hluti mánaðarins var þó tiltölulega þurr á austanverðu landinu en síðari hlutinn úrkomusamur.

Úrkoma í Reykjavík mældist 124,4 mm sem er um 40% umfram meðallag áranna 1991 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 117,2 mm sem er meira en tvöföld meðalúrkoma áranna 1991 til 1990. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 136,7 mm og 172,5 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 19, fjórir fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 15 daga sem er sex fleiri en í meðalári.

Það snjóaði víða í byggð í lok mánaðar og var jörð alhvít á mörgum stöðum á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Jörð var flekkótt tvo daga á Akureyri, en alauð alla aðra daga. Í Reykjavík var alautt allan mánuðinn.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 52,7 sem er 65,6 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í septembermánuði síðan 1943. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 76,7 sem er 13,8 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Vindur

Mánuðurinn var fremur illviðrasamur. Vindur á landsvísu var 0,4 m/s yfir meðallagi. Óvenjulegt norðvestan hvassviðri gekk yfir landið þ. 28. Einnig var mjög hvasst þ. 21. (norðvestanátt).

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1002,1 hPa og er það 2,9 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hæstur mældist loftþrýstingurinn 1035,9 hPa á Önundarhorni þ. 1. Lægsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 959,5 hPa á Húsafelli þ. 21.

Sumarið (júní til september)

Sumarið var óvenjulega hlýtt og sólríkt á Norðaustur- og Austurlandi. Það byrjaði þó í kaldara lagi. Óvenju kalt var á landinu um miðjan júní og það frysti og snjóaði víða í byggð. Gróður tók hægt við sér eftir kalt og þurrt vor. Í lok júní hlýnaði til muna og við tóku óvenjuleg hlýindi á Norður- og Austurlandi sem héldu áfram nánast óslitið fram í byrjun september. Ágústmánuður var óvenjuhlýr á landinu öllu.

Meðalhiti í Reykjavík var 10,3 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en jafn meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti sumarsins er í 28. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,7 stig, 1,9 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 1,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Sumarið er, ásamt árinu 1933, hlýjasta sumar frá upphafi mælinga á Akureyri.

Sumarið var einnig það hlýjasta frá upphafi mælinga á Egilsstöðum, Dalatanga og á Grímsstöðum á Fjöllum.

Sumarið var þurrt framan af, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. En september var mjög úrkomusamur þannig að heildarúrkoma sumarsins endar í kringum meðallag. Úrkoma í Reykjavík mældist 246,0 mm sem er jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 149,1 mm sem er einnig jafnt meðallagi áranna 1991 til 2020. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 3 fleiri en í meðalári í Reykjavík en 1 degi færri en í meðalári á Akureyri.

Óvenju þungbúið var suðvestanlands í sumar. Sólskinsstundir mældust 415,2 í Reykjavík sem er 240,6 stundum færri en að meðaltali 1991 til 2020. Sumarið hefur ekki verið eins sólarlítið í Reykjavík síðan 1983 (þá mældust stundirnar jafn margar og nú), og þar með það sólarminnsta í 100 ár. Sumarið var aftur á móti mjög sólríkt á Akureyri, sólskinsstundirnar mældust 706,2 og er það 135,3 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020. Sumarið er það fjórða sólríkasta frá upphafi mælinga á Akureyri.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu níu mánuði ársins var 6,1 stig sem er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 27. sæti á lista 151 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna níu 6,0 stig. Það er 0,7 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 7.sæti á lista 141 ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 478,4 mm sem er 78% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 364,9 mm sem er jafnmikið og meðalúrkoma áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2021 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.