Hver sá sem verður var við illa meðferð á dýrum eða að umráðamann búfjár skorti öryggi, skjól, hús, fóður eða beit fyrir búfé sitt ber að tilkynna það án tafar til Matvælastofnunnar eða til lögreglu. Lögreglu ber að tilkynna áfram til Matvælastofnunnar. Tilkynningar til Matvælastofnunnar er æskilegast að senda í gegnum Ábendingakerfi Matvælastofnunar, en einnig er mögulegt að tilkynna símleiðis eða í tölvupósti til viðkomandi umdæmisskrifstofu Matvælastofnunnar (héraðdýralækna hennar).
(Héraðsdýralæknum eða fulltrúum) Matvælastofnunar er skylt að kanna hvort ábendingar um illa meðferð á dýrum eigi við rök að styðjast. Þeir kalla lögreglu til aðstoðar ef með þarf. Sé um minni háttar brot á lögum eða reglugerðum að ræða, er eigendum eða umsjónarmönnum gefinn frestur til að bæta úr innan tiltekins tíma. Ef fyrirmælum um úrbætur er ekki sinnt er Matvælastofnun heimilt að beita þvingunaraðgerðum eða svipta umráðamann dýra vörslu þeirra.
Telji Matvælastofnun að úrbætur þoli enga bið er starfsmönnum heimilt að taka dýr fyrirvaralaust úr vörslu umráðarmanna eða láta aflífa dýr sem hafa orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Slíkt er þó ávallt gert í samráði við lögreglu. Matvælastofnun er ekki skylt að veita andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögum þegar úrbætur þola enga bið.
Matvælastofnun er einnig heimilt að leggja hald á tæki, tól og hverskonar útbúnað varðandi dýrahald sem er talinn andstætt velferð dýra.