Allskyns orðrómur sem næstum hefur orðið að Siglfirskum nútíma þjóðsögum, hafa gengið manna á milli í áratugi, heima á Sigló um þennan merkilega káta félagsskap.

Reyndar var þetta ekki beinlínis neitt „leyni skemmtanafélag“, en sumu var haldið leyndu til þess eins að geta verið í friði frá augum og eyrum Siglfirskra yfirvalda, sem og lífsstílsreglugerðum, hins fullorðna heims sem réði ríkjum í fögrum, þá samgöngulega einangruðum firði í lok sjöunda áratug síðustu aldar.

Fullorðið fólk, t.d. í Hjóna og paraklúbbi bæjarins, höfðu ekki skilning á öðruvísi skemmtanaþörf ungmenna, í litlu bæjarfélagi á norðurhjara veraldar. Eins og að þurfa endilega að dansa eins og róbótar við tónlist frá þýsku raftónlistarbandi sem hét Kraftverk.

Tíðarandinn

… einkennist af tískufatnaði og hljómplötum sem runnu eins og heitar lummur út um dyrnar á tískuvöru og hljómplötu-verzluninni Álfhól við Aðalgötuna. Sem og af gríðarlega margþættum tónlistaráhrifum samtímans, í lok 1970 og í  byrjun 1980.

En þetta er ógleymanlegt tímabil í mínum huga og örugglega í margra annarra táningaminningum …
… Virðulegra fullorðna Siglfirðinga, sem nú gegna ábyrgðarstöðum í Íslensku samfélagi.

Þess vegna verða ekki birt nein nöfn, eða ljósmyndir af meðlimum í þessari frásögn og hún byggir alfarið á eigin minningum höfundar um þetta dásamlega tímabil og samveru með yndislegu, þá 15-25 ára fólki, í Siglfirska skemmtanafélaginu „KÁTT FÓLK“

Mér var boðið að gerast meðlimur í Kátu fólki veturinn „77/78.“
Ég verð 16 ára og þar með komin á löggiltan flöskuballsaldur 20. janúar 1978.

Á þessum merkilega tónlistartímabili, renna saman tísku og tónlistaáhrif úr öllum áttum:
Popp, rokk, diskó, raggie, ska, pönk, raftónlist, rokkóperur og guð má vita hvað, allt í belg og biðu.
Það er allt í gangi samtímis og þessu tjáningarformi fylgdu einnig, nýjar og eflaust fyrir marga mjög svo ögrandi danshreyfingar.

Við vorum flest öll vel dansmenntuð úr farands- Dansskóla Heiðars Ástvalds sem kom reglulega og kenndi okkur ný dansspor, annars vorum við líka dugleg við að hreinlega finna upp eigin danshreyfingar munstur.  

Akkúrat á þessum tíma, var ég svakalegur, músík og danselskandi tískutöffari, með hár og alles. Undir sterkum og langvarandi áhrifum frá hinum kynlausa „androgynous Ziggy Stardust“ ( David Bowie).
Eftir á að hyggja, hef ég vissan skilning á að móðir mín elskuleg hafi haft miklar áhyggjur af klæðaburði og útliti gelgjuára unglingsins, þegar hann fór að stelast í maskara og eyeliner úr snyrtibuddu hennar og eldri systur.

Annars vorum við öll alætur á góða tónlist og mínar uppáhalds íslensku hljómsveitir, á þessum tíma voru: Stuðmenn, Þursaflokkurinn og Spilverk þjóðanna, Utangarðsmenn (Bubbi Morthens) og okkar þá, mikið misskilda stórskáld, meistari Megas. Sem reyndar bjó heima á Sigló á einmitt þessum tíma.

Sumt var góð dansmúsík og annað meira svona… gott fyrir byltingarsinnuð táningaeyru að hlusta á flott lög og ögrandi texta með ádeilu á samtímann.

Hér er dásamlegur texti um af hverju textar og lög Megasar talaði til svo margar táninga. Hann sagði svo mikið sem mátti ekki segja… Greinina er hægt að lesa í heild sinni á timarit.is. Fimmtán ár með Megasi / Dagblaðið- Vísir 242 tölublað 2001. Þórunn Hrefna skrifar.

Pabbi bað mig oft að slökkva á þessum helv… kattarmorðum, þegar t.d. Megas eða Þursaflokkurinn létu heyra of hátt í sér í stofunni heima á Hafnartúni 6. Þegar ég hlustaði á pönk hljómsveitir eins og t.d. Purrkur Pillnikk eða Tappa Tíkarass (1981) var mér skipað að nota heyrnartól.

Ekki má heldur gleyma áhrifum frá „Freddie Mercury í Queen“ , eða stríðsmáluðum glitter- og glamrokk töffurum, eins og t.d. Kiss.
Hvað þá ABBA dansmúsík, sem við strákarnir gátum ekki viðurkennt opinberlega fyrir hvor öðrum að okkur þætti gaman að syngja þau lög í laumi. Kannski höfðu Siglfirðingar enga tiltrú á ágæti ABBA, margir tengdu þetta nafn, meira við sænska síldarkaupendur, sem keyptu mikið magn af saltaðri síld á Sigló í denn.

Svo verðum við auðvitað minna okkur á danstískuna, sem fylgdi falsettu diskólögum Bee Gee‘s og danssporaáhrifum frá kvikmyndum eins og „Saturday Night Fever“ (1977) og Grease (1978) sem við sáum oftar en einu sinni í Nýja Bíó heima á Sigló.

Samtímis, komu fram á sjónarsviðið: „Adam and the Ants“, Spandau Ballet, Duran Duran og fleir góðir „ New Wave“ fyrirmyndar tískutöffarar inn í myndina og ekki má gleyma Bob Marley, Madness, Bad Manners , eða The Specials sem voru í miklu persónulegu uppáhaldi hjá greinarhöfundi.

Stærstir af öllum voru auðvitað, The Clash.

KÁTT FÓLK! Sköpunarsaga og reglugerðir félagsins

Þetta byrjaði líklega nokkurn veginn svona:
Nokkur Siglfirsk ungmenni komu saman og fannst dauði og djöfull ráða ríkjum þegar kom að útboði á áhugaverðum skemmtunum fyrir ungt fólk á Sigló.

Í Siglfirskum anda var hrópað hátt:
Ók! Þá gerum við þetta bara sjálf í sönnu hippalegum “anarkistískum” anda.

·  Enginn stjórn, eða formaður/kona stjórnar hópnum og það á bara að framkvæma og gera hvað sem er, sem meðlimir álíta skemmtilegt. Allt og ekkert er mögulegt.

·   Sem meðlimur máttu ALLS EKKI vera á föstu og ef svo skyldi óvart verða, verður sá aðili samstundis að yfirgefa Kátt fólk. En velkomin tilbaka þegar þú ert aftur á lausu.

·  Meðlimir eru kosnir inn í félagsskapinn með samþykki allra og krafan er að hún/hann sé til í að skemmta sér mikið og með litlum fyrirvara. Helst um hverja helgi. Samt er enginn skyldumæting heldur. Allir koma og fara eins og þeim hentar.

Þessi regla um „á föstu/lausu“ vann svolítið á móti ungu Kátu Fólki, því auðvitað mynduðust oft lengri sambönd en bara einnar nætur gaman gegnum skemmtanir félagsins. Félagatalið var því mjög svo breytilegt á milli ára.
Oftast vorum við, minnir mig, kannski á  milli 20 – 30 ungmenni á aldrinum 15 til næstum 30 ára. Samheldnin í hópnum var gríðarlega góð, þrátt fyrir oft á tíðum stóran aldursmun og hér ríkti algjört jafnræði á milli kynja.

Við vorum öll á þessum tíma undir miklum áhrifum frá jafnréttisbaráttu kvenna og við kusum líklega öll Vigdísi Finnbogar sem forseta 1980. Réttlætis hugmyndir komu líka frá baráttu Samtakana ´78 varðandi formdómavarnir og sjálfsögð réttindi Hinsegin fólks á Íslandi.
Minnist þess að Hörður Torfason kom á Sigló og hélt tónleika á hótel Höfn við góðar undirtektir frá heimafólki, á þeim tíma sem fordómar og áróður dundu yfir hann úr öllum áttum.

Kátt Fólk var fordómalaust, framsækið og algjörlega ópólitískt félag og allir velkomnir og öllum var sama um hvern þú vildir elska eða eyða nótt með. Hér mynduðust líka mörg ævilöng vináttubönd og það er mikið hlegið af allskyns ótrúlega fáránlegum sameiginlegum minningum frá þessum tíma þegar við hittumst.

En svo enduðu flest allir félagar í Kátu fólki í sambúð og neyddust til að verða einmitt það sem við ætluðum ALDREI að verða.
Leiðinlegt fullorðið fólk, sem neyðast til að fara á Hjóna og paraböll með mömmu og pabba og dansa skottís með ömmu og afa.

En það var nú reyndar gaman líka, verður maður að viðurkenna. Það eru ekki margir sem geta sagt að þeir hafi dansað við mömmu sína og ömmu á sama ballinu… og Gunnu Finna, 🥰 hún kenndi mér að tjútta og hún var skemmtilegasta kona Siglufjarðar.

Skemmtanahald KF

Ekki get ég sagt ykkur frá öllu sem okkur datt í hug að gera… What happens in Vegas, stays in Vegas. En sumt er prenthæft og gefur lesendum ágætis innsýn og slær kannski eitthvað á nú þegar slæmar orðrómsþjóðsögur um Kátt Fólk frá fyrri öld.

Diskókúla á vel við instrumental “Disco- jazz-funk fusion” Garden party lag Mezzoforte frá 1982.

Flestar skemmtanir snérust um að finna húsnæði og hittast í þeim tilgangi að hita upp fyrir böll með drykkju, söng og dansi, ásamt allskyns fyrir stundina og á staðnum skálduðum skemmtiatriðum. Ekkert ósvipað skipulag og við þekktum úr “fyrir ball partýum” í húsi Knattspyrnufélags Siglufjarðar við Suðurgötuna.

Það var sko sannarlega til mikið af samkomusölum sem hægt var að leigja og lána fyrir lítinn pening heima á Sigló. Ágætis leið til að villa um fyrir yfirvöldum var að vera sjaldan á sama staðnum tvisvar i röð. Skemmtanir og jafnvel eigin böll og diskó voru haldin í t.d. Sjálfstæðishúsinu, Alþýðuhúsinu, Borgarkaffi, Kommahöllinni.

Við vorum alltaf dugleg við að þrífa vel eftir okkur og skapa góðan orðróm um skemmtanir KF. Man þó einu sinni eftir því að staðarhaldari Alþýðuhússins kvartaði sáran undan sóðaskap, rétt áður en virðulegur kökubazar átti að koma inn í húsið og fórum við þá nokkur slefþunn á laugardagsmorgni og þrifum eftir okkur gleði gærdagsins.

Kátu Fólki fylgdi mikill hávaði og var það vegna þess að við lánuðum oft góðar og kraftmiklar diskógræjur sem Ungir sjálfstæðismenn áttu.
Eða svo tókum við með góðan GhettoBlaster og segulbandsspólur með blandari dansmúsík. Við ræddum mikið saman um músík og sungum og dönsuðum og það skipti engu máli hvaða kyni var boðið upp í dans.

Við vorum líka nokkuð mörg í Kátu Fólki sem sýndu dans og tískufatnað á skemmtunum víðs vegar um Norðurland Vestra.
Kátt Fólk var oft í góðri samvinnu við Álfhól og við Siglfirsku hljómsveitina Miðaldamenn og þeirra söngkonur þessi árin.

Siglfirski sögu- og tónlistarmaðurinn Leó Óla, langvarandi meðlimur í hljómsveitinni Miðaldamenn, minnist á þetta tímabil í spjalli við pistlahöfund:

Miðaldamenn og söngkonur, 1980. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Ég man alltaf vel eftir fyrsta ballinu sem við spiluðum á eftir að Miðaldamenn voru stokkaðir upp um áramótin 77/78 og þá vorum við með 15 ára söngkonu í bandinu. Hún þurfti að fá undanþágu frá yfirvöldum og mamma hennar var með á ballinu sem stuðningsaðili.

Þetta var eitt það skemmtilegasta tímabil í allri minni spilamennsku. Okkur fannst það pínu lítið skondið að ”gamli maðurinn í bandinu” sem stóð þá á þrítugu var helmingi eldri en 15 ára gömul söngkonan.

En á þetta fyrsta ball okkar á hótel Höfn, mætti á undan öðrum dansgestum hópur af Kátu fólki, sem sat til að byrja með í sætum sínum og hlustaði á þetta nýendurnýjaða band sem hljómaði svo gjörólíkt því sem það hafði gert fyrir breytingu.

Eftir nokkra stund gekk ein reffileg ung KF dama fram á gólfið og hrópaði: “Krakkar eigum við ekkert að dansa”?
Við það fylltist gólfið og var fullt það sem eftir var að ballinu.”

Höfundur þessara samantektar um unglingsár, dansmenningu og tónlistaráhrif samtímans kringum 1980, minnist þess að á þessum tíma var hörð samkeppni milli þriggja starfandi hljómsveita á Sigló og mig minnir að hljómsveitin Gautar hafi “stolið” þessari ofannefndri ungu efnilegu söngkonu frá Miðaldamönnum og þeir síðan fyllt í skarðið með tveimur nýjum í staðinn.

Hljómsveitir voru að aðlagast nýjum tíma, skipta um tónlistarstíl og reyna að tala til breiðs hóps af ungu dansandi fólki, en samtímis hafa samt lagaúrval sem gat passað Hjóna og paraböllum líka. Miðaldamenn voru t.d. stofnaðir sérstaklega til að spila á skemmtunum Hjóna og paraklúbbs Siglufjarðar, sem var stofnaður kringum 1970.

Hér undir er slóð á skemmtilega samantekt með ljósmyndum og blaðaviðtali við Miðaldamenn frá 1980. Takið eftir litunum og tískunni hjá söngkonunum í „Heinz baked beans“ bolunum.

Miðaldamenn, Erla & Kristín

Dans var oftast aðalatriðið hjá KF og við dönsuðum okkur oft edrú, þegar við komum loksins á ballið á Hótel Höfn/ Allann um kvöldið… og svo byrjuðum við aftur í eftirpartý einhvers staðar á ónefndum stað á eyrinni og svo má ekki gleyma óteljandi sætaferðum á sveitaböll í nágrenni Siglufjarðar á sumrin.

Það hurfu oft heilu helgarnar í þessar skemmtanir, svona á milli þess sem við fórum í t.d. kvöld og helgarvinnu í frystihúsinu, helgarútskipun á loðnumjöli, saltfiski og síldardósum í Siglósíld.

Til þess að eiga aur fyrir böllum, tískufatnaði, vínilskífum og góðum hljómflutnings-samstæðum úr Álfhól.
Ekkert mál að ná sér í monny heima á Sigló. Það fór reyndar líka gomma og glás í áskrift af samlokum og gosdrykkjum á Billanum og í tapaða snóker og karambúl leiki.

Minningabrot: Fyrir ball partý á Hótel Hvanneyri

Hótel Hvanneyri – Byggt árið 1936, af Karli Sturlaugssyni, fyrir Sparisjóð Siglufjarðar. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Myndin er lánuð úr myndasyrpusögunni “100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir

 Þetta var svakalegt fyrir ball partý í glæsilegum samkomusal í þessu sögufræga hótel Hvanneyri. Já, við fengum lánað heilt hótel þetta kvöld.

Okkur var heitt í hamsi og allir gluggar opnaðir upp á gátt og það heyrðist örugglega í okkur upp í Hvanneyrarskál.

Klukkan er eitthvað rétt yfir 22.00 á laugardagskvöldi og ég og ónefndur æskuvinur erum í miðju fyndnu skemmtiatriði.
Við erum að leika sexý Chippendale karlastrippur fyrir stelpurnar og akkúrat þá birtast allt í einu þrír lögregluþjónar í dyragættinni.
Sá elsti öskrar skipandi: Viljið gera svo vel að slökkva á þessum andskotans hávaða…
… í sama andartaki sem að dauðaþögninni skellur á partýið, æpir ein svakalega sæt stelpa

Nonni, Nonni, það er kviknað í skyrtunni þinni… What!

Mikið rétt, ég hafði víst hent frá mér rándýrri, splunkunýrri töffaraskyrtu yfir öskubakka.
Mér tókst að slökkva með því að trampa hálfnakinn á skyrtunni fyrir framan forviða löggur, sem síðan skipuðu okkur að drulla okkur út.

Ég fór á ball með stórt skyrtubrunagat á bakinu, sem ég nennti ekki að útskýra fyrir mömmu daginn eftir.

Mjög svo litríkur hópur af allt of Kátu Fólki, kemur á ball á Höfninni!

Svona svo að lesendur átti sig á því hvers vegna allskyns slúður skapaðist á bæjarlínunni um þennan hóp, get ég nefnt nokkur atriði.

Eitt árið voru einlit föt mjög svo í tísku og jafnt stelpur sem strákar í Kátu Fólki keyptu þetta í miklu magni í Álfhól. Sem var umboðsaðili fyrir tískuvörudeild Karnabæjar í Reykjavík.
Skærir litir: Blátt, rautt, grænt og t.d. eins og ég átti, skærgular buxur og skyrtu í sama lit, svart belti og svart leður lakkrísbindi.
Viðeigandi New Wave klipping með langan topp hangandi fyrir augun.  Svakalega töff!

Haustið eftir, þegar ég var í heimavistarskóla á Íþróttabraut á Laugarvatni og skelli mér á ball í þessum galla, þá gláptu sumir á mig hissa og spurðu: Af hverju kemurðu á ball í gulum náttfötum?…

… Íþróttahálfvitar, allir með tölu, sem skilja ekki flotta Sigló-flöskuballstísku.

Kátt Fólk átti alltaf nokkur borð pöntuð hjá Steinari hótelstjóra og ég get lofa ykkur að enginn gat misst af því, að núna gat ballið byrjað, þegar þessi káti, fríði og litríki hópur mætti og tók yfir dansgólfið.  

Hótel Höfn og Billinn. Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson.

Þennan vetur vorum við strákarnir mikið að berjast fyrir kynjajafnrétti og okkur fannst það sjálfsagt að bjóða hvor öðrum upp í dans, kyssa og faðma hvern annan í þakklætisskyni út á miðju dansgólfi og gera allt sem fólki fannst sjálfsagt að stelpur gerðu.
Við spurðum meira að segja hvorn annan, hvort einhver vildi koma með inn á salerni og svo pissuðum við bræðralega í kross og löguðum saman svitarennandi maskara og eyeliner.

Bændur og annað skrítið fólk úr nágrannasveitum Siglufjarðar, bökkuðu út úr dyragættinni á hótelsalerninu og pissuðu frekar í góðu skjóli bak við hús.
Innfæddir Siglfirðingar, vissu hins vegar flestir, hvaða skemmtana vitleysingar þessir kátu strákar voru og hlógu í hljóði.

Einn húmoristi, sem var lengi vel dyravörður á hótel Höfn, kallaði okkur Káta Fólkið alltaf “Káfandi Fólk”

Við dansandi strákarnir í Kátu Fólki á hótel Höfn, gerðum mikið í því að ögra öðrum og þetta var löngu áður en Bubbi gerði sitt flotta lag um:
Strákana á Borginni” 1984.

Kátt Fólk og íþróttahelgi framá Hóli!

Hóll á Siglufirði (Hólsbúið) Þar var lengi vel starfrækt kúabú fyrir bæjarfélagið, svo að blessuð börnin í bænum gætu fengið ferska og holla mjólk allt árið um kring. “Seinna Íþróttamiðstöð Siglufjarðar“. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

 Íþróttadeild KF skipulagði eitt sinn heila helgi í Íþróttamiðstöðinni framá Hóli og lagði hálfan dag í að moka saman risastórum snjóþotu stökkpalli. Ég var ekki með í þessari íþróttaútilegu og tók ekki þátt í þessari stórhættulegu keppni. Var líklega að æfa miklu minna áhættusamt alvöru skíðastökk einhvers staðar annars staðar þennan dag.

En ég kom á laugardagskvöldinu, í fyrir ball partý og voru margir meðlimir KF aumir í rassinum eftir þessa fræknu snjóþotukeppni.
Það var til nóg af fljótandi deyfilyfjum á staðnum og danssýningin á Höfninni tókst bara nokkuð vel.

Man ekki svo mikið meira eftir þessari helgi, annað en að bæði töffaraklæddur ég og léttklædd danskennaranemi, sem Heiðar Ástvalds vinur minn gleymi á Sigló eftir velheppnað dansnámskeið, urðum bæði næstum um úti um miðja nótt á leiðinni í bæinn, eftir gott eftir ball partý framá Hóli.

Frægðarför með leiguflugi hjá Siglfirsku Kátu Fólki… „með hlutverk“ til Norðfjarðar!

Þetta er með eindæmum góð dæmisaga um hvað okkur gat dottið í hug að gera.
Man ekki hver tók að sér að undirbúa og skipuleggja þessa mögnuðu helgarflugferð austur til Norðfjarðar um miðjan vetur.
Eða hvort að það kom einhver fyrirspurn til okkar KF félags, um að þiggja heimboð til Neskaupstaðar.

En það var augljóst, strax þegar við lentum að einhver misskilningur var hér á ferðinni hjá kristilegri mótökunefnd ungliða hér í Norðfirði, sem bauð Siglfirsku Kátu Fólki ókeypis gistingu í æskuliðsheimili staðarins, þessa páskahelgi… minnir mig.

Eitthvað, þessa tíma nafnarugl, varðandi muninn á „Ungu fólki með kristilegt hlutverk“ og skemmtanaóðu ókristilegu Kátu Fólki frá Sigló.

Það var akkúrat ekkert í gangi á Neskaupstað á föstudagskvöldinu, svo við slóum upp eigin blautu diskóballi með risastórum Sharp GhettóBlaster í Æskulýðsheimili Norðfjarðar.

Sharp Boom Box / Ghettoblaster. Mynd lánuð frá Wikipedia.

Sumir innfæddir kristilegir Norðfjarðarbúar forðuðu sér heim, en aðrir urðu eftir og fylgdust agndofa með dansi og drykkju úr hæfilegri fjarlægð. Ég var svo veluppalinn að ég dansaði mikið við prúða og fallega prestsdóttur og fylgdi henni heim um nóttina, en fékk bara kurteislegan koss á kinnina fyrir það.

Síðan man ég að ég var í mestu vandræðum með að komst aftur inn í harðlæst Æskulýðsheimilið, það heyrði enginn í mér skjálfandi og köldum, bankandi á hurðir og glugga. Þvílíkur var hávaðinn og lætin í þessum kátu Siglfirðingum.

Daginn eftir er okkur formlega boðið á Árshátíð Iðnaðarmanna, matur og ball og alles.
Þeir áttu nú aldeilis eftir að sjá eftir þessum miklu mistökum, því við tókum algjörlega yfir stjórnvöldin á þessari virðulegu samkomu með danssýningum og fíflagangi og einkennilegum skemmtiatriðum.

Káta borðið í salnum, með sætum Sigló stelpum og strákum dró til sín, jafnt ógifta sem gifta staðarbúa og svo fór fljótlega að myndast biðröð, hjá jafnt körlum og konum sem vildu berja okkur í spað. En Guði sé lof, þá var okkur hent út, áður en gripið var til ofbeldis…
… Enda sögðum við dansstrákarnir allir í kór með væmins Michael Jackson rödd:

I´am a Lover, not a fighter… svo var Ghettoblasterball í Æskó það sem eftir lifði nætur.

 Tókum vel til eftir okkur á sunnudagsmorgni og kvöddum ráðvillt kristilegt ungt fólk með hlutverk, með þakklætistárum og tókum leiguflugið okkar heim til Sigló.

Á leiðinn heim voru sumir kátir strákar komnir með „Deleríum Búbónis“ heilkenni og sáu silunga á lágflugi út um flugvélagluggann.

 Það voru víst skrifaðar kvörtunar og nöldurs greinar í Nesfirsk bæjarblöð um þessa Siglfirðinga sem máluðu allan bæinn rauðan með dansi og vitleysu á einni helgi. Sem er náttúrulega helv.. lygi, það voru aðrir löngu búnir að mála þennan fjörð rauðan. Norðfjörður var mun rauðari en Sigló og miklu fleiri Kommúnistar og Allaballar þar en heima í firðinum fagra.

Glæsileg og kát, Siglfirsk dansspor í rauðum Norðfirði. Myndin er tekin á Árshátíð Iðnararmanna á Neskaupsstað veturinn 1979/80.

 Gott ef við náðum ekki líka að fara á gott Páskaball á Hótel Höfn sem byrjaði á miðnætti þennan heilaga páskasunnudag.
En engin af okkur, man eftir því balli… minnir mig.

Annars renna allar þessar ótrúlegu skemmtanahelgar með Kátu Fólki saman í belg og biðu og það er algjörlega ómögulegt að segja fyrir um hvort sumt hafi gerst um sumar, vetur, páska, jól eða áramót.

Kátt Fólk var líka einmitt stofnað í mótmælaskyni við þeim fáránleika að Þjóðkirkja Íslands fengi að ráða því hvenær ungt fólk fékk að skemmta sér.

Í samskonar mótmælaskyni vegna lélegs tónlistarsmekks og einokrunarstefnu radíó RÚV, voru sumir Kátir krakka heima á Sigló með sjóræningjaútvarpstöðvar út um allan bæ og löggan fann okkur aldrei.

Þetta voru dásamlegir og þroskandi umbrotatímar þar sem ungmenni fengu að gera mistök og vitleysu sem ekki má endurtaka eða vera stoltur af þegar maður er orðinn fullorðin.

Maður bíður þess ekki bætur, fyrir að hafa alist upp í frjálsræðinu heima á Sigló!

Að lokum:
Finnish guy teaches how to disco

Finnsk diskódanskennsla! Mynd lánuð frá Youtube.com

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmyndin og aðrar ljósmyndir eru lánaðar úr opnu myndasafni Microsoft Word.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vitnað er í ýmsar heimildir gegnum slóðir í sögunni.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON