Ný hljómsveit, Fjöll, gefur nú út fyrsta lagið sitt á öllum helstu dreifiveitum.

Lagið heitir Festar, ljúfsár og seigfljótandi óður til horfinna tíma og rofinna tengsla, og veitir það forsmekkinn að fleiri lögum sem hljómsveitin vinnur að þessa dagana.

Þótt Fjöll séu ný hljómsveit byggir hún á gömlum grunni, því þrír meðlimir sveitarinnar, Guðmundur Annas Árnason söngvari, Snorri Gunnarsson gítarleikari og Kristinn Jón Arnarson bassaleikari hófu samstarf í hljómsveitinni Soma sem gerði garðinn frægan fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þeir hafa síðan unnið saman í hinum ýmsu hljómsveitum gegnum tíðina og er Fjöll nýjasta afsprengi þess samstarfs.

Fjórði meðlimurinn, Ragnar Þór Ingólfsson, slæst nú í hópinn á trommum, en hann hefur verið í fríi frá spilamennsku um margra ára skeið en gert þess í stað garðinn frægan í verkalýðsbaráttu. Ragnar var á sínum tíma í hljómsveitunum Guði gleymdir og Los, sem voru upp á sitt besta á tíunda áratug síðustu aldar.

Festar var tekið upp í Hljóðrita og sá Kristinn Sturluson um upptöku og mix. Þá fengu Fjöll Jón Ólafsson til að sjá um píanóleik í laginu.

Hægt er að hlusta á Festar á eftirfarandi streymisveitum:

Spotify: https://open.spotify.com/album/5KOqpM25vHMZidB6yNQYt4

Apple Music: https://music.apple.com/us/album/festar/1674988612?i=1674988613

Tidal: https://tidal.com/browse/track/279333193