Sem pistlahöfundi hér á trölli.is líður mér oft eins og að ég sé í “ólaunuðu línuvarðastarfi” Ég stend á hliðarlínunni og fylgist vel með hinum ýmsu málefnum í minni undurfögru Fjallabyggð úr fjarlægð. Sumt segi ég bara vegna þess að ég er Siglfirðingur og þar af leiðandi kann ég ekki að halda KJ… líkt og Jónas heitin Ásgeirs, KS kappi, þegar hann þakkaði fyrir “ólseigt ókeypis lambakjöt” á hótel KEA:

Við erum búnir með mæðuveikisrolluna, nú getið þið komið með girðinguna.

Ég er vissulega brottfluttur fyrir löngu síðan, og hættur að spila fótbolta, en ég get ekki hætt að vera KS-ingur eða SIGLFIRÐINGUR.

Segi sjaldan við fólk að ég sé fæddur og uppalinn í FJALLABYGGÐ, það er vissulega fallegt samheiti sem er notað yfir þrjár sameinaða fagra firði í eitt bæjarfélag. Sigló á mig allan með húð og hári, en ég á vissulega hlut í landi inní Héðinsfirði og einnig marga góða vini og ættingja í austurbænum inná Ólafsfirði.
En orðið “Fjallabyggð” gefur mér t.d. enga tengingu í hjartanu við dásamlegar uppeldislegar minningar eða vekur uppí mér stolt og að segja öðrum að ég sé Fjallabyggðingur verður mér “Svíanum” bara óþjált og erfitt í munni. Það er ekki ósvipað því að neyðast til að kalla okkar sögufræga Nýja Bíó… ALLINN.

Orðunum í þessu pistli er ætlað að fylgja eftir innihaldi greinar með ádeiluorðum sem birtist síðasta sunnudag, en þau orð vöktu margar Siglfirskar sálir til umhugsunar um víðan VÖLL. En sumt af því sem ég segi hér og nú segi ég ekki bara sem Siglfirðingur heldur líka sem menntaður Frístundafræðingur, þegar kemur að ýmsu sem mér finnst hafa farið miður í sameiningarferlinu síðustu 10 árinn eða svo.

Margt og mikið í þessum pistli fjallar líka um hluti sem sjaldan eða aldrei eru sagðir upphátt eða opinberlega en þessar hugsanir búa ekki bara í mér einum heldur líka í mörgum öðrum Siglfirðingum nær og fjær.

Sjá meira hér ásamt tilvísunum í fleiri greinar um sama þema:

ER KS OG HÓLS-SAGAN TÝND?… EÐA TRÖLLUM GEFIN?

UM ALLT MÖGULEGT SEM SAMEININGIN GAF OKKUR og GAF OKKUR EKKI

Sameiningarferlið byrjaði nokkrum árum fyrir göng, eftirvæntingarnar voru stórar og miklar vonir voru bundnar við að að bættar samgöngur myndu stefja fólksfækkun og efla og skapa gott mannlíf í áður einangruðum fjörðum. Margt og mikið hefur vissulega orðið betra en sumt alls ekki, en þetta sameiningaræði sem réði ríkjum og átti að vera lausnin á öllum okkar vandamálum var frekar vanhugsað ferli og skapaði fljótlega óánægju og setningar eins og þessar:

PASSI NÚ HVER SITT!
Eða ádeiluorð um stefnu- og skilningsleysi með setningum eins og t.d.:
TVENNT AF ÖLLU EÐA EITT AF ENGU ?

En hagræðingin í sameiningu bæjarfélaga og félags- og frístundaþjónustu felst, því miður, of oft í því að þjónusta er flutt úr einum bæjarkjarna yfir í annan og það ferli skapar oft óréttlætis tilfinningu um einhver hefur misst eitthvað og aðrir hafa grætt á sama ferli.

Græna súl­an tákn­ar opn­un gang­anna en eft­ir þau virðist mann­fjöldi standa í stað. Fram að því var fólks­fækk­un­in hröð og mik­il.” Mynd lánuð úr greininni “Göngin halda fólki á svæðinu” sem byggir á ýtarlegri rannsókn frá 2013 sem Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskóla Íslands á Akureyri stýrði um áhrif Héðinsfjarðargagna á mannlífið í Fjallabyggð.

Það væri æskilegt Þóroddur minn, að fylgja þessari rannsókn eftir, því ég og margir aðrir viljum meina að margt og mikið af því sem var sagt 2013, standist alls ekki lengur.

Sumir myndu kannski vilja segja eftir lestur hingað til:
Já, já… það er alltaf svo auðvelt að vera gáfaður eftir á

… en það er reyndar alls ekki rétt, því það hafa margar raddir reynt að færa fram rök sem töluðu á móti því að þetta “sameiningar æði” væri besta lausnin á öllu mögulegu, en það hlustaði engin á þessa reynslubolta og þá er ég að tala um jafnt karla sem konur sem kunnu sína sögu. En þeim var bara ýtt til hliðar og margir af þessum eilífðar sjálfboðaliðum góðra málefna voru kallaðir afturhaldsseggir og annað miður fallegt.

Margt og mikið var hreinlega aldrei þjónustulega ekki raunhæft, því eins og undirritaður benti á í öðrum pistli:

Það eru ekki fjöll og firðir á milli hverfa í Reykjavík og þar á flatlendinu geta bæði börn og eldri borgarar gengið eða hjólað í þá þjónustu sem þau vilja taka þátt í þegar þeim dettur það í hug. Án þess að þurfa að panta sér loftmeingandi keyrslu í tíma og ótíma og það er óþolandi óraunhæft að sífellt vera bera saman þjónustu aðstæður á suðvestur horninu við restina af dreifbýli Íslands eða hefða að þarna fyrir sunna sé samansöfnuð þjónusta fyrir alla landsmenn.”

Það er t.d. sárt að heyra að frændfólk mitt þurfi að keyra alla leið inná Dalvík til þess eins að dætur þeirra getið æft og spilað fótbolta.

Aðstæður úti á landsbyggðinni eru oft þannig að sumt verður hreinlega að fá að kosta meira, í Noregi er þetta svo augljóst að einangruð fámenn sveitarfélög fá ríkisstyrki til að halda uppi þjónustu sem annars myndi leggjast niður og þar með ýta undir fólksflótta úr byggðarlaginu.

En út úr rándýrum nýjum göngunum sem samkvæmt “sumum” voru byggð sem ölmusa fyrir örfáar hræður í þegar dauðadæmdum byggðarkjörnum, streymdu miklu fleiri bílar en áætlað var fyrir 2011, en EKKERT annað af viti kom til viðbótar frá ríkinu.
Fullt af túristum kom nú keyrandi og fyrstu árinn stoppaði engin af þeim inná Ólafsfirði, og ef þeir sem gerðu þau mistök, flúðu þeir í ofboði aftur inní bílana vegna frægrar ólyktar sem hertók lyktarskyn ferðamanna sem og alsaklausa íbúana og sumum af ferðamönnunum fannst ekki heldur vera mikið að sjá eða gera í þessum undurfagra firði sem Ólafur Bekkur fann fyrir langa löngu…

… þar af leiðandi voru ALLIR á leiðinni á Sigló.

Síldarminjasafn Íslands. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Því við Siglfirðingar vorum svo heppnir að sumir höfðu byrjað að safna gömlu síldardrasli inní glæsilegasta safn Íslands. Fornminjadrasli sem aðrir vildu kveikja í fyrir löngu síðan og svo kom hann Robbi okkar skömmu síðar með alla sína aura og framsæknar og góðar uppbyggingar hugmyndir.

Við á Sigló vorum að springa úr stolti yfir öllum breytingunum í firðinum fagra en samt þurftum við sjálf ekki að lyfta litlaputta eða gera neitt annað en að njóta góðs af framkvæmdavilja Róbert Guðfinnssonar og bæjarstjórn passaði strax uppá að skapa nýja ómerkilega “biðstöðupólitík” sem snýst mest um:

Við berum ekki ábyrgð á neinu og gerum ekki neitt og bíðum bara eftir því að..

ROBBI OG EINHVERJIR AÐRIR REDDI ÞESSU.

Róbert hefur þrátt fyrir allt það góða sem hann hefur gert fyrir sína heimabyggð aftur og aftur verið stungin í bakið með ósýnilegum “huldufólks hnífum” eins og sænski leikarinn í Eurovison kvikmyndinni frægu, mest af dularfullu huldufólki sem virðist sitja á aðeins of mörgum hagsmunastofustólum samtímis og í því vel falda stofuherbergi ræður gamall og rótgróinn Íslenskur spillingarandi ríkjum, sem snýst bara um:

“ég styð að sjálfsögðu í laumi við bakið á þér og þínum og þínir óvinir eru að sjálfsögðu mínir óvinir líka.”

Á þessu tímabili fannst Ólafsfirðingum, sem virðast ekki eiga neinn svona góðan Robba strák, þá með réttu, að þeirra sameininga-ávinningshlutur væri frekar magur og að stuðningur og skilningur á t.d. uppbyggingu á ferða- og menningar málum í austurbænum frá þáverandi sameiginlegri Markaðs og menningarnefnd Fjallabyggðar væri sama sem enginn.

En fólkið inná Óló er svo líkt okkur á Sigó, svo þeir stofnuðu sín eigin Ferðamálasamtök og gerðu þetta bara sjálfir og tóku svo yfir þessa leiðinda nefnd og bæjarstjórn líka.

Við Siglfirðingar þurftum líka að líða fyrir skilningsleysi ráðamanna sem vegna ókunnáttu og hræðslu við að missa atkvæði öðru hvoru megin…. drógu úr t.d.styrkveitingum og stuðningi við gömlu rótgrónu Síldarævintýra bæjarhátíðina, sem árlega lyfti fram heimsfrægri síldarsögu úr vesturbæjarhverfinu í Fjallabyggð.
En nú mátti skyndilega ekki lengur gera einni sögu meira undir höfði en annarri, það verður styrkja allt jafn illa og ætlast bara til að sjálfboðaliðar, fyrirtæki og helst Robbi líka, bjargi þessu bara eins og vanalega.
Síldarævintýrið dó, en lifnaði við aftur með hjartastuðtækjum og sjálfboðaliða vinnu einstakra einstaklinga.

Þarna fór samt aldrei af stað raunhæf umræða um hvað sé sameiginleg fjarðarsaga og hvað ekki.

Síldarsagan er gríðarlega stór hluti af sögu Siglfirðinga og Íslands líka. Saga austurbæinga er alveg jafn merkileg en hún snýst um annað.

Síld, þorskur, hákal og hörkuduglegt fólk byggðu okkar fögru Fjallabyggð. Við gerðum þetta mest einir og sér, í sitt hvorum firðinum, en stundum saman… þegar veðurfar og bæjarpólitík leyfir.

ÞAÐ ER GREINILEGA VERULEGUR MUNUR Á VÖLLUM OG VÖLLUM

Elías bæjarstjóri hlýtur að hafa orðið hissa daginn eftir að hann flutti í þennan einkennilega Kardemommubæ, þegar hann fékk að vita að hann væri líka FLUGVALLARSTJÓRI. Það hlutverk fékk hann óspurður í arf frá fyrirrennara sýnum.

Það fannst mörgum það vera einkennilegt að skyndilega var hægt að galdra fram nokkra millur upp úr bæjarsjóðskistum á sínum tíma í að endurlífga gamla ónýta flugvöllinn samtímis sem að annar völlur var bæði ÓNÝTUR OG ÓNÝTTUR framá sama firði við Íþróttamiðstöðina á Hóli. Þetta þrátt fyrir að bæjaryfirvöld hefðu veitt KF styrki í bæði áburð og mannafla til að sinna þessum eina óvökvaða sinugrasvelli í vesturbænum og þarna kom ábyrgðar-og stefnuleysi fræðslu- og frístundanefndar Fjallabyggðar enn og aftur í ljós.

Þetta með að blása nýtt líf í flugvöllinn var víst mjög mikilvægt öryggisatriði varðandi sjúkraflug var okkur sagt á sínum tíma. En mér vitanlega hefur enginn sjúkraflugvél þurft að lenda þarna enn þá, sem betur fer og þær geta ekki lent á vetrartíma, því völlurinn er ekki mokaður um vetur. Þar fyrir utan fara sjúkrabílar yfirleitt með sjúklinga gegnum göng til Akureyrar og ef sjúklingar fara með flugi þá er það líklegast ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar sem sækir þá og mér vitanlega þurfa þyrlur ekkert endilega að lenda á flugvöllum.

Skiljanlega getur fólki sem hefur fengið neitun um styrkveitingar til mikilvægra málefna með orðum um að aurarnir séu ekki til í kassanum, fundist það skrítið, þegar þeir allt í einu sjá peninginn sem var ekki til, fljúga svo upp í loftið á eina sveitarfélagsrekna FLUGVELLI ÍSLANDS.

En nú er nóg komið af svona útúrsnúningum og hann elsku Elías okkar verður örugglega góður flugvallarstjóri líka.

Áfram með smjörið…

Stofnanir sem heyra undir fræðslu- og frístundanefnd
Grunnskóli Fjallabyggðar
Leikskóli Fjallabyggðar
Tónlistarskólinn á Tröllaskaga
Vinnuskólinn í Fjallabyggð
Félagsmiðstöðin Neon
Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar

og
Íþróttasvæði Fjallabyggðar

En í “Erindisbréfi fyrir nefndina” stendur einnig:

“Fræðslu- og frístundanefnd hefur yfirumsjón með styrkveitingum og samskiptum bæjarfélagsins við einstaklinga og félög vegna frístundamála.”

Og eftirlitsskyldan í að styrkir fari í það sem þeim er veitt til, hlýtur að liggja þarna líka:

Eftirfylgni:
Deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmáladeildar fylgir eftir staðfestum samþykktum og ákvörðunum fræðslu- og frístundanefndar.”

Það sem ég er að reyna að segja nefndinni er að það getur ekki hafa farið fram hjá neinum að bara nokkrum árum eftir sameiningu KS og Leifturs er þessum velli sem og svæðinu í heild sinni ekki sinnt, en samt eru veittir árlegir styrkir sem gefa EKKERT til baka í knattspyrnuiðkun í vesturbæ Fjallabyggðar.

Ég legg svo til og mæli að við hættum að haga okkur eins og strútar sem stinga hausnum í sandinn og halda að þeir séu ósýnilegir og opna augun og sjá það augljósa sem hefur gerst, en það er að:

KNATTSPYRNUIÐKUN BARNA OG UNGLINGA STENDUR VARLA UNDIR NAFNI Á SIGLUFIRÐI LENGUR...
… og stóra spurningin er.

Er þetta virkilega réttlætanlegt eða einhver sjálfsögð afleiðing sameiningar knattspyrnufélagana?

Var ekki hægt að gera þetta öðruvísi, gegnum betri samvinnu, auknum skilningi, metnaði og kröfum frá bæjaryfirvöldum í Fjallabyggð?

Ég vil persónulega meina að með styrkveitingum bæjarins eigi að koma miklu ýtarlegri útskýrðar kröfur um að jafnræði ríki í aðgengi að æfingaaðstöðu fyrir bæði stelpur og stráka í báðum fjörðunum, sérstaklega ef að félagið segist heita “Fjallabyggð eitthvað” og þar með gefur sig út fyrir að geta sinnt þessum þörfum í tveimur fjörðum.

Ef ekki, þá er óþarfi að setja styrki í hluti sem augljóslega fara í eitthvað annað.

Árið 2014, tveimur vikum fyrir Pæjumót benti undirritaður á ástandið á Hólsvellinum, en það var of seint í rassinn gripið og þetta varð ekkert fallegt Pæjumót og það síðasta minnir mig, því miður og samtímis fór orðrómur af stað á bæjarlínunni að það ætti í rauninni að færa okkar Siglfirska KS skapaða Pæjumót inná Ólafsfjörð.

Forsíðumyndin sem Guðmundur Skarphéðins tók í ágúst 2011 sýnir okkur gleði og fjör suður á Íþróttamiðstöð Siglfirðinga á Hólssvæðinu og það er dásamlegt að sjá í sömu grein á sigló.is fullt af öðrum myndum af stoltum, brosandi og ánægðum stelpum, en samtímis finnum við öll fyrir sorg og söknuð yfir því að Pæjumótið er líka týnt og tröllum gefið og Siglfirðingum finnst enn og aftur að þeir hafi misst mikið eftir sameiningu félagana.

Sorgleg saga í sorgarbúningi. Ljósmyndari: Jón Ólafur Björgvinsson.

Sjá fleiri myndir hér:

Pæjumót stúlkna á Siglufirði
sksiglo.is | Almennt | 09.08.2011| Guðmundur Skarphéðinsson.

UM STEFNULEYSI OG SAMKEPPNI UM STYRKI, AÐSTÖÐU, BÖRN, UNGLINGA OG SJÁLFBOÐALIÐA

Í dag eru 12 eða 13 starfandi íþróttafélög í Fjallabyggð minnir mig. Þau er sum hver bæði í samvinnu og samkeppni.
Samvinnan kemur í gegnum aðild að UÍF.

Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar var stofnað 25. maí 2009 fram á Hóli með sameiningu ÍBS (Íþróttabandalags Siglufjarðar) og UÍÓ (Ungmenna- og íþróttasambands Ólafsfjarðar)

ÍBS kom með eigið húsnæði í pottinn en það er húseignin, Íþróttamiðstöðin Hóll.
Það skal skýrt tekið fram að bæjarfélagið á landið en frjáls afnot af svæðinu fylgdu með rausnarlegri gjöf Siglufjarðarkaupstaðar til sinna bæjarbúa á sínum tíma.

Engar aðrar eignir komu með frá hinum aðilanum. Hlutverk sambandsins er t.d. að sjá um allskyns sameiginleg fræðslumálefni sem koma gegnum aðild að ÍSÍ (Íþróttasamband Íslands), deila út styrkjum frá bæjarfélaginu og úr getraunasjóði og fl.

Í bæjarfélögum þar sem börnum og unglingum fer fækkandi, myndast að sjálfsögðu samkeppni í að lokka þau til sín, því styrkjakerfið er mest miðað við fjölda notenda úr þessum markhópi. Aðrar tekjur koma hjá flestum íþróttafélögum gegnum félagsgjöld og síðan með fjáröflun gegnum sjálfboðavinnu barna, foreldra og eldsála félagsins.

Að selja öðrum aðgang að aðstöðu félagsins og hafa af því tekjur er ekki öllum gefið, en t.d. skíða og golf aðstaða er kannski besta dæmið um að hér getur íþróttaiðkun og ferðamennska farið saman og gefið dágóðar félagstekjur.

Tími hins sjálfsagða sjálfboða í allskyns frítímastarfsemi virðist mér vera löngu liðinn tími.
Öll stærri félagssamtök út um allan heim sjá fækkun meðlima sem og vilja félagsmanna til að standa í sjálfboða vinnu.

Fólk vill frekar borga fyrir allskyns “drop in” þátttöku, bæði fyrir sjálfan sig og sín eigin börn, einfaldlega kaupa þjónustu þegar það passar þeim. Það eru líka til stressuð börn sem er hálfþvinguð af metnaðarfullum foreldrum að taka þátt og verða góð í hinu og þessu. Elítismi og atvinnumanna drauma vakna of snemma og oftast endar þetta með því að margir unglingar hætta þátttöku í íþróttum við 15 árs aldurinn.
Það sem var svo gaman er allt í einum orðin ánauð og leiðinlegt.

Mismunur í aðstöðu og möguleikum til fjáröflunar er mjög svo misskipt í Fjallabyggð og að sjálfsögðu getur það bæði vakið öfund og önnur leiðindi þegar “bissnis hugmyndir” eiga samleið í einu bæjarhverfi og í sumum íþróttum og öðrum ekki.
Ferðamennska getur átt sér samleið í svo mörgu með uppbyggingu sem samtímis gagnast góðri heilsu og útivistarmöguleikum íbúa.

En hver á að gera hvað? Íþróttafélögin, einkageirinn eða bæjarfélagið?

Hér segir íþrótta og frístundasagna Fjallabyggðar síðustu 10 ára mér, að það virðist allt vera í steik og stefnuleysi heima í Fjallabyggð.

Í hvaða átt viljum við að framtíðin heima á Sigló beri okkur inní… ??? Ljósmyndari: Ingvar Erlingsson

Því stundum virðast sjálfboðaliða hendurnar vinna hvor á móti annarri og jafnvel sjálfum sér sem bæjarbúa, bæði meðvitað og ómeðvitað.

Árlegir smástyrkir gera ekki mikið meira en að spakkla upp í gamla sprungur og erfitt er fyrir félögin að setja sér langtímamarkmið eða sjá möguleika í að leggja undan pening í að bæta æfingaaðstöðu sína. Hér væri æskilegt að aðildarfélög UÍF og bæjaryfirvöld að komi sér saman um t.d. 10 ára plön þar sem sum félög sem standa vel að vígi stíga til hliðar og liggja lágt með að þiggja styrki og aðrir fá um tíma meira af kökunni. Þetta er hljómar kannski sem óraunhæf lausn í Íslenskum eyrum en staðreyndin er að víða um heim er þetta gert svona og ávinningur bæjarins er að geta sett fram kröfur um að notendur aðstöðunnar verði ekki eingöngu meðlimir félagana, heldur allir íbúar í nærsamfélaginu.
Þetta er einnig gert til þess að hindra að frístundaútboð sé ekki eingöngu til sölu gegnum eignarhaldsfélög þar sem kostnaður og gróðahugsjón skapar augljóst óréttlæti milli barna, þar sem sumir eiga foreldra sem hafa efni á að kaupa aðild að frístundastarfsemi og aðrir ekki.

ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐIN HÓLL ER NÚ SELD…

… og hver keypti og til hvers, veit ég ekki og nei, það er ekki búið að ákveða hvernig söluágóðinn á að skiptast á milli aðildarfélaganna og þetta er allt saman gert á löglegan máta með samþykktum frá aðalfundi og fl.

ATH: Það skal skýrt tekið fram að þessi orð eru ALLS EKKI ádeila á það frábæra fólk sem hefur gert meira en sitt besta og lagt niður óteljandi þúsundir af klukkutímum af sínum eigin frítíma í stjórnarstörf og í að sinna bæði útleigu, þjónustu og viðhaldi í áratugi.

Nú hefði maður getað haldið í einfeldni sinni að við samruna íþróttafélaganna í Fjallabyggð í UÍF gætu félögin séð að möguleiki til að afla eigin tekna væri til staðar í þessari húseign og í frjálsum afnotum af stærðarinnar náttúruperlu rétt við bæjardyrnar.

En fuss og svei, svo varð aldrei.

Íþróttamiðstöð Siglufjarðar varð aldrei ÍÞRÓTTAMIÐSTÖÐ FJALLABYGGÐAR.

En á svæðinu býr kannski of mikil íþróttasaga vesturbæinga og kannski er það þannig líka að sum aðildarfélögin sjái UÍF sem hefur sínar aðalstöðvar í húseign á gamla kúabúinu á Hóli meira sem mjólkurkú sem gefur þeim peninga en bandalagshús með möguleika sem stendur á sögufrægu Íþróttamiðstöðvar svæði.

Hóll á Siglufirði (Hólsbúið) Þar var lengi vel starfrækt kúabú fyrir bæjarfélagið, svo að blessuð börnin í bænum gætu fengið ferska og holla mjólk allt árið um kring. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Félagsstarfsemi í húsinu sem og á staðnum byrjar strax að dragast saman skömmu eftir sameiningu og með hverju árinu sem líður verður húsið sem þá þegar var gamalt og slitið, fljótlega meiri og meiri baggi á herðum aðildarfélaganna. Brunaskemmdir á húsinu 2013 hjálpuðu ekki til heldur.

UÍF biður um aðstoð frá bæjarfélaginu aftur og aftur og er þeim beðnum jafnóðum hafnað.

UFÍ vil þá fá að skila gömlu góðu gjöfinni frá Siglufjarðarkaupstað. Gjöfinni sem nú dregur bara að sér kostnað og gefur litlar sem engar leigutekjur og í með að öllum hjálparbeðnum var hafnað neyðist bandalagið til að halda eftir styrkjapeningum sem eiga að fara til aðildarfélaga og setja þá í viðhald á húseigninni.

Rætt er um bæði í gríni og alvöru að brenna niður húsið, en okkur Siglfirðingum fannst vera búið að brenna nóg af sögufrægum húsum okkar megin.

Þessa sögu hefur pistlahöfundur lesið á milli raða úr fundargerðum frá formannafundum og ársþingum sem hægt er að finna á heimasíðu UÍF frá 2010 fram til 2016 sem og úr samtölum við gamla og góða sjálfboðaliða, og þeir sem neita þessari sögu hljóta hreinlega að vera illilega sjóndaprir. Eftir 2015 eru fundargerðir ekki sýnilegar lengur á heimasíðu UÍF.

Það væri reyndar mjög athyglisvert að fá að sjá fundargerðir sem sýna hvort að ÖLL aðildarfélögin hafi samþykkt söluferlið þegjandi og hljóðlaust og einnig skjöl með rökum fyrir höfnun á tilboði Róbert Guðfinns sem vildi fá að leigja Hólshúsið.
Sjá nánari frásögn um það ferli hér neðar.

HANN ER SKRÝTIN FARFUGL ÞESSI TÚRISMI…

Getur verið að ástæðan fyrir vilja- og stefnuleysi frá bæjaryfirvöldum, ofan á samkeppni á milli bæði bæjarhluta og félaga, snúist um að útleiga á Hólssvæðinu sé í samkeppni við uppbyggingu einkaaðila í ferðamannabransanum í Fjallabyggð?

En eru þeir markhópar sem hafa leigt Hólshúsið athyglisverðir fyrir þann bransa?
Þetta hefur hingað til verið mest hópar frá íþróttafélögum og fólk sem vill vera á góðum stað með sín ættarmót og fl.

Hvað er að því að UÍF hafi þessa tekjumöguleika?

En ef það sitja ónefndir aðilar á tveimur og þremur áhrifavaldastólum í litlu bæjarfélagi sem hafa félagshagsmuni eða skyldmenni í bransanum þá er hætta á að unnið sé á bak tjöldin í að hindra þessa möguleika og því harðlega mótmælt að bæjaryfirvöld séu að styrkja starfsemi sem sé í samkeppni við þennan ört vaxandi ferðamannabransa..

Hmm.. þetta eru skrítnir tímar sem við lifum í, þar sem hugsjónir og samstaða um að byggja saman gott nærsamfélag eru foknar út á ballarhaf í samkeppni samtímans. Allt er hægt að kaupa og selja… en engin getur í rauninni keypt okkar gömlu góðu hugsjónir og minningar um sjálfboðavinnu við uppbyggingu á Íþróttamiðstöð á Siglufirði.
En það er búið að selja sjálfboða vinnuna og söguna okkar sem er þarna í öllum veggjum og þar fyrir utan var búið að eyðileggja með vanrækslu fyrsta og eina grasvöllinn okkar Siglfirðinga.

Að skíðaáhugafólkið flutti uppi Skarð og golfararnir yfir Hólsá er einfalt að skilja…

en allt hitt er það EKKI.

TILBOÐ UM LAUSN Á HÓLSHÚSVANDAMÁLINU SEM EKKI VAR TEKIÐ

Það hefur borist mér til eyrna að í hitteðfyrra hafi UÍF fengið tilboð frá Róbert Guðfinns um að hann fengi að leiga Hólshúsið í fimm ár.
Fyrir um 60 millur, minnir mig. Góður aur myndi þannig renna í vasa aðildarfélagana. Róbert vildi þá halda áfram að byggja upp og bjóða upp á fjölbreyttari útvistar möguleika í Hóls og Skarðsdal. Gönguskíðamennsku og fl.

Við nánari athugun á ástandi hússins kom í ljós að það myndi kosta minnst sömu summu að gera það útleiguhæft og þá fékk UÍF nýtt tilboð um að hann myndi gera upp húsið gegn því að hafa aðgang að eigninni leigulaust þessi fimm ár. Allt saman yrði síðan að sjálfsögðu í framhaldinu eign bandalagsins og góðir möguleikar á áframhaldandi leigutekjum.

Þessu tilboði var ekki tekið og mér og mörgum öðrum finnst þetta einkennilegt með stöðu mála á svæðinu í huga og þar fyrir utan getur ENGIN af okkur sagt að við treystum ekki Róbert og hans starfsemi. Halló, hann hefur svo sannarlega og meira til staðið við allt og framkvæmt allt sem hann hefur sagst ætla að gera. Oftast verða hlutirnir mun flottari en búist var við í upphafi. Þessu til sönnunar þarf maður bara að kíkja í kringum sig heima á Sigó. Handverk Róbert sjást úr öllum áttum.

Með þessa einkennilegu, “takk, en nei takk sögu” í huga verður þessi sala á Hólshúsinu okkar Siglfirðinga enn þá sárari og spurningar vakna um hvort að eitthvað annað miklu betra hafi verið í boði samtímis? Eða hvað?

Sögusagnir um ástæðuna” fyrir því að þessu tilboði var hafnað snúast enn og aftur um hagsmunaöfl og samkeppnishugsun og lágkúrulega öfundsýki sem liggur í laumi á bak við þessa furðulegu höfnun á tilboði Róberts sem svo sannarlega í mínum huga er rausnarlegt og góð lausn og samtímis myndi þetta framtak gagnast bæjarbúum í allri Fjallabyggð.

Hér er mest talað um að ónefnd öfl í austurbænum höfðu þá þegar lagt svo mikið í uppbyggingu gönguskíðamenningu sín megin í Fjallabyggð og að það væri algjör óþarfi að taka af þeim tekjumöguleikana og færa þá inní Hólsdal, það væri alveg nóg að þar væri nú þegar, flottur gólfvöllur og svo er Róbert líka með puttana í skíðalífinu í Skarðsdal. Hmm… 🤔

Þannig að margt og mikið virðist vera rotið í Fjallabyggð, þegar kemur að samstöðu og stefnumörkun í uppbyggingu og afnotum af mannvirkjum sem eiga að sjálfsögðu að gagnast öllum bæjarbúum. Það er kannski ekki svo skrítið að Róbert verði leiður á þessu mótlæti og sé nú að snúa bakinu frá öllum þessum “huldufólks hnífum” sem tilheyra ferðamannabransanum og setja allan sinn kraft í Genís í staðin.

Engin veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur!

AÐ LOKUM..

… STUTT UM KS SÖGUNA, TÝND EÐA EKKI?

Fljótlega eftir birtingu á fyrri grein bárust mér skilaboð um að ekki væri ólíklegt að margt af okkar ástkæru KS-sögu hafi því miður farið óvart á haugana í stórtiltekt í KF húsinu inná Ólafsfirði. En ég ekki get selt þessar upplýsingar dýrara en ég keypti…
Það er einungis hægt að komast að hinu rétta með góðri samvinnu og heiðarleika frá núverandi stjórn KF.

Það er líka sagt að til sé ýmislegt skemmtilegt KS-sögudót sem var á afmælissýningu á sínum tíma og að það dót sé geymt í einhverri geymslu heima á Sigló, hvar eða hjá hverjum veit eingin enn. Á skjalasafni Fjallabyggðar er ýmislegt bitastætt geymt og á barnum hjá Hrólfi er ýmislegt skemmtilegt uppá vegg sem og líklega heima hjá hinum og þessum gömlum góðum KS-ingum.

Það þarf augljóslega að safna þessu saman, skoða og skrá og þar er ekki skortur á áhuga eða sjálfboðaliðum sem betur fer.
Það eru einnig komnar af stað hugmyndir um að halda minningarsýningu næsta sumar, en þá á KS sagan 90 ára afmæli.

Reyndar bárust mér líka upplýsingar um að gamlar heimildir gefi reyndar í skyn að KS sé mögulega “óformlega” stofnað 1928 en fundargerðabækur og fl. frá tímabilinu 1928 til formlegrar stofnunarfundar 1932 eru týndar.

Það væri gaman ef að mér fróðari aðilar væru til í að grúska í þessu dularfulla máli, því ef þetta er rétt þá eru einungis 7 ár í 100 ára afmæli Knattspyrnufélags Siglufjarðar.

Þessa skemmtilegu KS minninga mynd tók hann Steingrímur okkar Kristinsson. Myndin er tekin á sameiginlegi æfingu hjá þriðja og öðrum flokki í lok 1970. Svona leit malarvöllurinn oft út á voræfingum þegar búið var að taka gólfið af sundlauginni og við hættir að geta æft inni. Völlurinn grafinn upp, við gengum með haka og járnkarla og brutum ís í fleiri daga. Síðan bráðnaði allt saman og vatnið komst ekki neitt og úr þessu varð snjóblandaður drullugrautur sem við æfðum okkur í fleiri vikur.
Áður en það varð fótboltavöllur úr þessu.
En eingin var svo sem að klaga og kvarta.
Þetta var bara svona og við þekktum þá ekkert annað.

Bestu Siglósaknaðar og Fjallabyggðarkveðjur til ykkar allra.

Jón Ólafur Björgvinsson
(Nonni Björgvins)

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON