Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með því hve hvirfillinn yfir Norðurheimskautinu hefur náð að rétta fljótt úr kútnum, eftir að hafa verið frekar slakur meira og minna í desember og beinlínis veiklaður nú framan af janúar segir á vefsíðunni Bliku.is.
Þá er verið að tala um hvirfilinn í heiðhvolfinu (e. polar vortex).
Styrkur V-áttarinnar nær meðaltali árstímans á aðeins nokkrum dögum. Spákort ECMWF í 10 hPa þrýstifletinum, er frá því á laugardag til að sýna það hvað ferillinn er brattur. Nánast eins og fárveikur einstaklingur sem verður stálsleginn að nýju á aðeins örfáum dögum! Það eru aðstæður á miðbaugssvæðum Kyrrahafs sem einkum ýta undir þessa umbreytingu. Madden-Julian sveiflan er á þeim stað þar sem uppstreymi er eindregið og kröftugt nærri Indónesíu. Á veturna er samhengi á milli þess og aukins styrks heimskautahvirfilsins.
Hefur áhrif neðar í lofthjúpnum og sjáum að NAO vísirinn hefur síðustu daga farið hrátt frá neikvæðum ham (allan janúar) í markvert jákvæðan. Um leið eykst styrkur V-áttarinnar í háloftunum á milli 40-60°N. Heimskautaröstin verður öflugri og skotvindar þar með.
Sjáum í spá fyrir 500 hPa flötinn í dag, þriðjudag kl. 12 að háloftlægð með köldu lofti er nú á kunnuglegum slóðum vestan Grænlands og á móti óvenju öflug háloftahæð með hlýju lofti yfir S-Spáni og Marrakó. Kjörstaða fyrir myndun djúpra lægða suður af Nova-Skotia og Nýfundnalandi sem berast síðan til austurs og norðausturs.
Sú fyrsta sem eitthvað kveður að fór yfir Írland og Skotland í nótt og olli þar og reyndar mun víða umtalsverðu tjóni.
Nú er upprunninn sá árstími, það er síðari hlutann í janúar og fram yfir miðjan febrúar, þegar vetrarstormarnir verða hvað öflugastir og lægðirnar hvað dýpstar.
Spárnar reikna með því að Bretlandseyjar og Færeyjar verði frekar í skotlínunni og að við sleppum betur. Spá ríkjandi SV-átt við Ísland með útsynningsveðráttu og éljum um vestanvert landið flesta daga.
Við sleppum þó ekki alveg því spáð er skammvinnu sunnan hvassviðri með blota og rigningu seint á miðvikudag og sumar langtímaspár reikna með mjög djúpri lægð hér við land eftir næstu helgi. Um hana er reyndar talsvert mikil óvissa.
Óvissan er ekki minni um mánaðarmótin, þar sem nýjustu framlengdu langtímaspár ECMWF gera ráð fyrir að bylgjugangurinn í V-vindabeltinu taki aftur breytingum fljótlega í febrúar og hægi heldur á, eins og síðustu dagar í NAO-spánni gefa líka til kynna.
Heimild/Blika.is