Tómas Welding gaf út nýtt lag á föstudaginn og fékk viðurkenningu fyrir 10.000.000 streymi

Nýja lagið, “Here They Come” verður leikið á FM Trölla í dag milli klukkan 13 og 15 í þættinum Tíu Dropar.

Tónlistarfólkið Tómas Welding og ELVA (Elva Bjartey Aðalsteinsdóttir) fengu á föstudaginn afhenda platínuplötu frá útgáfufélaginu Öldu Music fyrir 10 milljón streymi á Spotify á laginu Lifeline.

„Áður hefur tónlistarfólk fengið gull- og platínuplötur sem Félag hljómplötuframleiðanda gefur sem virðingarvott fyrir framúrskarandi sölu á plötum. Nú þegar neysla á tónlist hefur tekið breytingum undanfarin ár þótti Öldu Music viðeigandi að aðlaga þetta með tilliti til streymisveitna“.

Nú þegar hefur lagið verið spilað ríflega 12 milljón sinnum á Spotify. 

Lagið sjálft sömdu þau Tómas og Elva saman ásamt Pálma Ragnari Ásgeirssyni, sem einnig stýrði upptökum lagsins. 

Elva Bjartey Aðalsteinsdóttir, Tómas Welding og Sölvi Blöndal framkvæmdastjóri Öldu Music með platínuplöturnar. Ljósmynd: Valgerður Árnadóttir

Á föstudaginn gaf Tómas út sína nýjustu smáskífu sem ber heitið “Here They Come” sem hann vann í samstarfi með Pálma Ragnari.

Tómas Welding og Pálmi Ragnar Ásgeirsson halda samstarfi sínu áfram en þeir hafa unnið saman að síðustu lögum Tómasar, Cop Car, Go The Distance og Lifeline.

Um höfundinn

Tómas Welding er ungur leikstjóri sem dvaldi löngum stundum bakvið myndavélina og tók upp tónlistarmyndbönd þangað til hann ákvað sjálfur að prófa að stíga inn í rammann og fara að semja tónlist. Hann hefur nú þegar gefið út nokkur lög sem hafa verið vinsæl á streymisveitum, má þar nefna Goodbye sem hann gerði ásamt September og eins og áður kom fram, Cop Car, Go The Distance og Lifeline sem hann vann með Pálma Ragnari Ásgeirssyni úr StopWaitGo.