Við hjónin búum hluta úr ári á Gran Canaria í helli sem við festum kaup á 2019. Bóndinn ólst upp í Glaumbæ á Hvammstanga og fannst okkur því tilvalið að nefna hellinn Syðri-Glaumbæ. Þar er yndislegt að vera, erum þar fjarri mannabyggð með stórkostlegt og stórbrotið útsýni.

Hellisbúarnir Kristín og Gunnar Smári

Lífríkið í fjöllunum er ansi ólíkt því sem við höfum átt að venjast og þegar ég varð vör við stórar og bústnar rottur í eldhúsinu heyrðist svo hátt í mér að það glumdi um allt Angostura gljúfrið.

Þegar ég sagði frá þessum sambúðarraunum í góðra vina hópi var okkur ráðlagt að fá okkur kött, þeir héldu þessum ófögnuði í skefjum. Eftir nánari umhugsun ákváðum við að slá til og höfðum samband við dýraathvarf á Kanarí.

Í dýraathvarfinu Albergue Insular de Animales eru bæði hundar og kettir og ákváðum við að taka að okkur tvo ketti frekar en einn, til að þeir hefðu félagsskap hvor af öðrum. Var okkur vel tekið og þá hófst ættleiðingarferli sem tók um þrjár vikur. Það varð að gelda þá, örmerkja og ganga úr skugga um að enginn gerði tilkall til þeirra. Eftir þennan tíma náðum við í kappana, en ekki tókst betur til þegar átti að ná þeim í útibúrunum að veiða þurfti þá með háfi til að koma þeim í búrin.

Ég hef verið að dunda við að setja inn myndir af köttunum á Instagram undir nafninu cave.cats, endilega skoðið og fylgið ferfættu fjölskyldunni 🐾🐾
Sjá hér: https://www.instagram.com/cave.cats/

Það var gripið til allskonar vopna til að veiða óvelkomna gesti í eldhúsinu en allt kom fyrir ekki, þar til Tommi og Jenni komu til sögunnar

Annar þeirra var gamall gulur fress og hinn svartur og hvítur fress, sennilega um tveggja ára. Við nefndum þá félaga Tomma og Jenna eftir teiknimyndafígúrunum sem skemmt hafa börnum á öllum aldri um langt skeið, en þó fór það svo að minni og sprækari kötturinn fékk nafnið Tommi (Sir Tómas) en sá stærri og hæglátari heitir Jenni.

Tommi var algjör villiköttur og fengum við aldrei að nálgast hann, hann hvarf oft dögum saman og svo alfarið eftir 6 mánuði hjá okkur

Við vorum með þá um tíu daga í aðlögun í stórum búrum, aðskilda eftir ráðleggingum frá dýraathvarfinu. Það gekk vel, annar þeirra var algjör villiköttur en hinn mun mannelskari. Villikötturinn Tómas hvarf svo frá okkur eftir um 6 mánuði og var þá oft búinn að hverfa dögum saman.


Jenni

Hinn, Jenni gamli unir hag sínum vel hjá okkur, er enginn gælukisi en ljúfur, rólegur fress sem vaktar óðalið sitt og umber þessa unglinga umhverfis sig. Ef það kemur óboðinn köttur á hans yfirráðasvæði ver hann það með kjafti og klóm – í bókstaflegri merkingu. Stundum er hann með klór á nefinu og þá vitum við að einhver flækingsköttur hefur komið við í heimsókn.

Við vitum ekki hvað hann er gamall, en hann er sennilega háaldraður og hefur lifað tímana tvenna. Hann elskar harðfisk og er honum gaukað óspart að honum.

Við eigum alloft gott spjall saman og svarar hann mér alltaf þegar ég kem upp í helli og fylgir mér að bílnum þegar ég bregð mér af bæ. Þegar við eigum þetta spjall kemur alltaf sami tónn í mjálmið, sem enginn annar fær.


Franco

Myndin sem varð til þess að ég bráðnaði og við fengum Franco, Deisy systir hans er til hliðar. Mynd/Kiddý

Don Franco kom í fjölskylduna eftir að ég rak augun í mynd af honum á facebook, þá hafði ég verið í útgöngubanni vegna COVID-19 á Kanarí í um 60 daga án þess að sjá aðra mannveru en eiginmanninn. Þessi bláu augu skelltu mér gjörsamlega kylliflatri og hafði ég samband við eigandann eftir að hafa rætt við Gunnar Smára.

þegar ég komst að því að hann var ekki genginn út varð hann okkar með það sama. Fengum hann um leið og útgöngubanninu lauk og þvílíkur karakter sem þessi töffari er. Hann er forustukisinn, stríðinn með eindæmum og þiggur endalaust knús frá okkur.

Hann er sjálfstæðastur af köttunum og lætur sig ekkert varða nema það sem hann hefur áhuga á.


Bella Jones

Haft var samband við okkur í janúar 2021 og við beðin um að taka að okkur læðu sem var á vergangi í sundlaugargarði í Maspalomas. Hún hafði verið yfirgefin af eiganda sínum þegar COVID-19 skall á, eins og svo mörg dýr urðu fyrir. Hún hafðist ekki vel við þarna og ákváðum við að taka hana til okkar.

Ekki var hún nú kát með vistaskiptin, lá undir sæng í tvo daga. Aldrei hef ég heyrt önnur eins hljóð frá ketti, hún hvæsir ekki, heldur urrar eins og bolabítur og geltir ef henni mislíkar eitthvað, sem er ansi margt. Við fórum með hana til dýralæknis í geldingu og bólusetningu. Reyndist hún vera kettlingafull og afar illa á sig komin. Dýralæknirinn mælti með að taka kettlingana sem voru stutt gengnir og varð það úr.

Hún hefur greinilega átt mjög erfitt líf en er öll að braggast, en má lítið út af bregða svo hún urri á allt og alla. Ég dekra hana sérstaklega, enda vill hún helst bara skinku og mjólk, komandi frá sundlaugarbakkanum og sólstólunum. Við köllum hana Bellu Jones og hæfir nafnið henni vel.


Carmen

Þá er það ljúflingurinn og sólskinskötturinn hún Carmen. Hana sá ég á facebooksíðu sjálfboðaliða Stray cats in Puerto Rico and surrounding areas, Gran Canaria sem hugsar um flækingsketti í Puerto Rico og nágrenni hér á suðurhluta Kanarí. Þar sá ég mynd af Carmen sem var á vergangi og fékk aðhlynningu hjá sjálfboðaliðanum.

Við hjónin ákváðum að bjarga einum ketti til og fórum og náðum í hana. Hún var róleg og ljúf þegar við náðum í hana en óskaplega lítil. Greinilega ekki nema 6-7 mánaða kettlingur, sí-malandi svo heyrðist um alla íbúð.

Ekki var hátt risið á Carmen eftir sjúkrahúsdvölina

Við byrjuðum á að fara með hana í skoðun og geldingu til dýralæknisins okkar, hennar Katyar. Þegar búið var að svæfa hana kom í ljós að hún var kettlingafull og var ákveðið að láta hana ganga með kettlingana, enda meðgangan rétt tæplega hálfnuð.

Tveimur dögum eftir svæfinguna fór hún að æla og var ósköp lasin og var hún lögð inn á dýrasjúkrahús eftir nokkra daga. Endaði þetta með tveimur innlögnum í samtals rúma viku. Hún var nær dauða en lífi, varð að gefa henni vökva í æð og næringu í gegnum slöngu. Hún missti 4 kettlinga í þessum ósköpum og kom heim ósköp drusluleg. En þjónustan hjá dýralæknunum var til fyrirmyndar, fengum við skýrslu um gang mála 2 svar á dag og gátum fylgst með öllum rannsóknum. Kostaði þetta rúmlega 1.000 evrur og vorum við alsæl með að fá hana heila heilsu aftur í hellinn.

Carmen límir kattasamfélagið saman, alltaf jafn ljúf, semur vel við alla og er ekkert sem haggar henni.


Deisy

Síðan var að haft var samband við okkur um að taka Deisy systur Francos úr sama goti að okkur og sagði ég já með það sama.

Ástæða þess var að fjölskyldan sem átti hana var að flytja frá eyjunni upp til Evrópu og gat ekki tekið hana með. Við náðum í hana til Las Palmas og höfðum hana hjá okkur í íbúðinni í nokkra daga til aðlögunar áður en við fórum með hana í hellinn til hinna kattanna.

Var hún ansi feimin fyrstu tvo daganna og faldi sig hér og þar í íbúðinni. Ég fór síðan að taka hana upp og klappa og tók hún því ágætlega. Fengum við síðan Carmen til byggða til að kynna þær, þegar hún sá Carmen var ég með Deisy í fanginu. Ekki vildi betur til en að hún beit mig svo hressilega að ég varð að leita læknis daginn eftir. Þar var ég sprautuð fyrir stífkrampa, fór á hörku sýklalyfjakúr og með höndina í fatla.

Deisy líður óskaplega vel hjá okkur og elskar frelsið, klifrar upp um allt og með ríkt veiðieðli. Þeim Síams-systkinunum semur vel og taka oft á sprett saman.


Þar sem við erum stundum í byggð þá skiljum við þá eina eftir í hellinum. Það gengur mjög vel, enda hafa þeir aðgang að öllu sem þarf, sjálfrennandi vatni og mataskammtara sem Gunnar Smári hannaði og bjó til. Ef við erum á Íslandi fer vinur okkar og fyllir á mat og sér til að allt gangi vel. Einnig fylgjumst við með þeim í gegnum eftirlitsmyndavélar.

Ég hefði aldrei trúað því að óreyndu hvað það er gaman að þessari ferfættu fjölskyldu okkar Gunnars Smára, hvað kettirnir eru ólíkir persónuleikar og sérlundaðir. Það er gott að geta búið þeim gott heimili þar sem þeir eru algjörlega frjálsir, hafa nægt land og nóg að bíta og brenna. Á móti veita þeir okkur skemmtilegan félagskap og ómælda ánægju.

Það er aldrei að vita nema að við björgum einum ketti til, enda mikil neyð eftir að fjölmörg dýr voru yfirgefin þegar eigendurnir fóru til sinna heimalanda eftir að Covid-19 skall á. Einnig að styðja við bakið á góðgerðasamtökum sem sinna umkomulausum dýrum með því að fæða þau, gelda, hjúkra þeim eða finna þeim fósturheimili til frambúðar.

Angostura gljúfur á Gran Canaria