Í morgun fór fram prestsvígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, vígði mag. theol., Siglfirðinginn Snævar Jón Andrjesson, til prestsþjónustu í Dalaprestakalli segir á vefsíðu þjóðkirkjunnar.

Vígsluvottar voru auk sr. Elínborgar Sturludóttur, sem þjónaði fyrir altari, þau sr. Arnór Bjarki Blomsterberg, sr. Henning Emil Magnússon, og sr. Sigrún Óskarsdóttir. Sr. Hans Guðberg Alfreðsson lýsti vígslu. 

Kári Þormar lék á orgel og Dómkórinn söng.

Athöfnin var hátíðleg og falleg.

Nýi presturinn
Snævar Jón Andrjesson er fæddur 22. janúar 1985 á Siglufirði og ólst þar upp. Að loknu grunnskólanámi í heimabyggð fór hann í Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi þaðan 2005.

Síðan hóf hann nám í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði í háskólanum á Bifröst og lauk því árið 2012. Snævar Jón útskrifaðist í júní 2020 með mag. theol.- gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands.

Meðfram námi hefur Snævar Jón unnið við sunnudagaskóla Langholtskirkju, starfað á Útfararstofu kirkjugarðanna og nú síðast var hann kirkjuhaldari í Garðasókn.

Kona hans er Sólrún Ýr Guðbjartsdóttir, kennari, og eiga þau þrjár dætur.

Prestakallið
Í Dalaprestakalli eru sjö sóknir: Hjarðarholtssókn, Hvammsókn, Staðarfellssókn (nýsameinuð Staðarfellssókn og Dagverðarnessókn), Skarðssókn, Kvennabrekkusókn, Stóra-Vatnshornssókn og Snóksdalssókn.

Þann 1. desember 2019 var heildarfjöldi íbúa í prestakallinu 564 manns.

Dalaprestakall er í Vesturlandsprófastsdæmi. Starfinu fylgja þjónustuskyldur við Breiðafjarðar- og Strandaprestakall, en prestaköllin tvö eru einskonar samstarfssvæði.

Prestsetur er í Búðardal og þar með er búsetuskylda þar.

Prestakallið var auglýst með þeim fyrirvara að vera mætti að biskupafundur legði tillögur fyrir kirkjuþing er snertu m.a. Dalaprestakall og sem kynnu að leiða til breytinga á skipan prestakalla í prófastsdæminu, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Myndir / aðsend og kirkjan.is