„Það er eng­um blöðum um það að fletta að heimsviðskipt­in eru far­in að opn­ast á ný og markaðinn þyrst­ir í nýj­ar vör­ur. Íslensk­ar hágæðavör­ur eru eft­ir­sótt­ar og vin­sæld­ir lands­ins eru áber­andi hérna,“ seg­ir Sig­ríður V. Vig­fús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Pri­mex á Sigluf­irði, sem sótti ný­verið heilsu­vöru­sýn­ing­una Vita Foods í Genf, þeirri stærstu í Evr­ópu, ásamt fleiri ís­lensk­um snyrti- og heilsu­vöru­fram­leiðend­um.

Pri­mex kynnti þar nýj­ar sára­vör­ur, und­ir merk­inu ChitoCare Medical. Að sögn Sig­ríðar hafa þær fengið skrán­ingu sem lækn­inga­tæki í flokki III, sem þýðir að fyr­ir­tækið get­ur full­yrt í kynn­ing­um að nota megi kremið á opin sár og aðra húðkvilla. Einnig kynnti Pri­mex aðra fram­leiðslu, eins og LipoS­an-trefjarn­ar og ChitoCare beauty-húðvör­urn­ar.

Náðu stór­um samn­ing­um

„All­ir þess­ir vöru­flokk­ar hafa hlotið mikla at­hygli og erum við nú þegar í viðræðum við vænt­an­lega dreif­ing­araðila víða um heim,“ seg­ir Sig­ríður og eru það helst markaðir í Evr­ópu, Asíu og Mið-Aust­ur­lönd­um. Hún seg­ir fyr­ir­tækið hafa náð þarna stór­um samn­ing­um.

„Markaður­inn er að kalla eft­ir nýj­um hágæðavör­um með mikla virkni. Að baki ChitoCare-vör­un­um liggja klín­ísk­ar rann­sókn­ir á syk­ur­sýk­is­ár­um og gegn nýj­um og göml­um örum,“ seg­ir Sig­ríður enn frem­ur.

Pri­mex hef­ur tekið þátt og sýnt á þess­ari sýn­ingu í 18 ár en þetta var fyrsta sýn­ing­in sem fyr­ir­tækið tók þátt í eft­ir að kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn skall á. Líkt og und­an­far­in ár á þess­ari sýn­ingu voru Pri­mex og Lýsi sam­an á bás. Einnig kynnti Al­ga­líf sína fram­leiðslu í Genf og á kynn­ing­ar­bás Íslands­stofu voru fyr­ir­tæk­in Geosilica, Dropi og Saga Natura með aðstöðu.

Íslensku fyr­ir­tæk­in fengu heim­sókn á sýn­ing­una einn morg­un­inn, þegar Har­ald Asp­e­lund, fasta­full­trúi Íslands hjá Alþjóðaviðskipta­stofn­un­inni í Genf, kynnti sér vör­ur þeirra og fram­leiðslu.

„Þetta var skemmti­leg heim­sókn en þessi flottu ís­lensku ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tæki eiga það sam­eig­in­legt að efla okk­ar út­flutn­ing og hag­vöxt,“ sagði Sig­ríður hjá Pri­mex.

Forsíðumynd: Frá heilsuvörusýningunni í Genf, f.v. Vigfús Rúnarsson, dr. Helene Lauzon, Sigríður V. Vigfúsdóttir, Harald Aspelund og Erna Björnsdóttir frá Íslandsstofu.

Aðsent