Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur undanfarnar vikur afgreitt fjölmargar umsóknir um lóðir í Fjallabyggð.

Á fundi nefndarinnar miðvikudaginn 5.október voru teknar fyrir 6 lóðaumsóknir um alls 10 lóðir fyrir allt að 32 íbúðir. Má þar nefna meðal annars að öllum lóðum á gamla malarvellinum á Siglufirði og þeim einbýlishúsalóðum sem eftir voru í Bakkabyggð meðfram Ólafsfjarðarvatni.

Við Óskarsbryggju á Siglufirði var svo nýlega úthlutað lóð undir allt að 1600fm atvinnuhúsnæði. Má því segja að í pípunum sé uppbygging í sveitafélaginu sem eftir verður tekið, enda mikil eftirspurn eftir nýju húsnæði sem og starfsfólki í öllum geirum.

Sveitafélagið hefur síðustu mánuði reynt að greiða fyrir uppbyggingu húsnæðis til dæmis með því að klára gatnagerð við skipulagða reiti, bæði til byggingar á íbúahúsnæði sem og á svæðum ætluðum atvinnustarfsemi. Sett hefur verið af stað vinna við jarðvegsrannsóknir á stærri byggingarreitum til að auka fyrirsjáanleika fyrirhugaðra framkvæmda.

Að lokum hefur nú nýtt skipulag við hafnarsvæðið á Ólafsfirði nú verið samþykkt og það einfaldar til muna alla nýbyggingu á því svæði. Sveitafélagið mun á næstu mánuðum hefja deiliskipulagsvinnu á nýjum svæðum í báðum byggðarkjörnum til að tryggja nægt framboð af lausum lóðum – bæði til atvinnuuppbyggingar og til byggingar á íbúðarhúsnæði.