Í dag kl 15:00, strax á eftir þættinum Tíu dropar, rennur úr hlaði glænýr þáttur á FM Trölla og trolli.is.

Um er að ræða þátt sem ber nafnið Tónlistin. Það er Palli úr Gestaherberginu sem stjórnar þættinum.

Í þættinum ætlar Palli að kíkja á það nýjasta í tónlistarbransanum og spila mikið af nýjum og nýlegum lögum.
Að sjálfsögðu verða spiluð eldri lög og gæti fólk þá spurt sig: er þetta ekki bara einn þátturinn sem spilar allskonar tónlist?

Svarið við því er: jú. Svo sannarlega en auk þess að spila tónlist ætlar Palli að reyna að ná sambandi við ýmsa höfunda og fá þá til að segja frá hvernig lög þeirra urðu til.

Það er allavega hugmyndin. Svo verður tíminn að leiða í ljós hvernig og hvort það gengur eftir.

Að öðru leyti verður þátturinn afar “heimilislegur” og vonandi pínulítið skemmtilegur!” segir þáttarstjórnandinn.

Magnús Ásgeir Elíasson, ferðaþjónustubóndi í Víðdal í Húnaþingi vestra er sá fyrsti sem segir frá lögum sínum á plötunni Senn kemur vor, sem kom út seint í fyrra.

Þátturinn verður á dagskrá á sunnudögum klukkan 15 til 17 á FM Trölla og á trolli.is

Á síðu FM Trölla er hægt að hlusta á upptökur af öllum þáttum sem eru á dagskrá stöðvarinnar um þessar mundir.

Hægt er að hlusta á þáttinn út um allan heim með því að smella á hlusta á síðunni eða hér: Hlusta

Minnum sjómenn á hafi úti og aðra með takmörkuð netsambönd á skip.trolli.is