Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur átt afar gott samstarf við Lögreglan á Suðurlandi í sumar um eftirlit á hálendinu.

Eins og flestum er kunnugt um ná umdæmi þessi saman frá norðri til suðurs og um umdæmin liggur Kjalvegur, mikið ekinn vegur. Hafa lögreglumenn sinnt eftirliti á þessum svæðum reglulega í sumar. Nú síðast var haft sérstakt eftirlit með skotveiðimönnum en veiði á gæsum hófst þann 20.ágúst sl. Ræddu lögreglumenn við á fjórða tug veiðimanna hvar farið var yfir reglur um skotveiðar, kannað með skotvopnaréttindi, veiðikort og að endingu skotvopn skoðuð.

Það er skemmst frá því að segja að nánast allir þessir veiðimenn voru til fyrirmyndar. Einum veiðimanni sem að var að gera sig kláran til veiða við tjörn nokkra, var gert að hætta við þá fyrirætlan þar sem að hann gat ekki sýnt fram á gilt veiðikort.
Eða eins og segir í Reglugerð um veiðikort „Einungis handhafar veiðikorta mega stunda skotveiðar, enda hafi þeir skotvopnaleyfi hér á landi. Veiðikort skal veiðimaður bera á sér á veiðum, ásamt fullnægjandi persónuskilríkjum.”

Það var samdóma álit þeirra veiðimanna sem að rætt var við að þeir fögnuðu þessu framtaki lögreglunnar og voru hæstánægðir með samskiptin.

 

Mynd: Kristín Sigurjónsdóttir
Frétt: Lögreglan á norðurlandi vestra