Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra má nú finna starfsskýrslu eftirlitsins fyrir árið 2017. Hlutverk Heilbrigðiseftirlitsins felst annars vegar einkum í því að sinna eftirliti með starfsleyfisskyldri starfsemi og hins vegar stjórnsýsla sem felur í sér lögbundnar umsagnir, m.a. um leyfisveitingar sýslumanna og skipulagsyfirvalda.

Starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra nær frá Fjallabyggð í austri til Húnaþings vestra í vestri og allt suður til Hveravalla.

Heilbrigðisnefnd svæðisins er skipuð skv. 11. grein laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 þar sem segir að í hverri nefnd skulu eiga sæti sex menn, fimm kosnir af hlutaðeigandi sveitarstjórnum, þar af skal einn vera formaður, og einn tilnefndur af samtökum atvinnurekenda á eftirlitssvæðinu.

Árið 2017 voru haldnir átta stjórnarfundir í Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra. Samþykkt voru 70 starfsleyfi til fyrirtækja á Norðurlandi vestra.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra skipuðu árið 2017:

Sigríður Magnúsdóttir, Skagafirði, formaður.
Ína Ársælsdóttir, Húnaþingi vestra, varaformaður.
Haraldur Þór Jóhannsson, Skagafirði, ritari.
Brynja I. Hafsteinsdóttir, Fjallabyggð.
Anna Margrét Sigurðardóttir, Blönduósi.
Guðný Helga Kristjánsdóttir, fulltrúi atvinnurekenda.

Heilbrigðisfulltrúarnir Sigurjón Þórðarson, Sigríður Hjaltadóttir og Steinunn Hjartardóttir voru í sömu starfshlutföllum hjá eftirlitinu og á síðustu árum. Sú breyting varð á starfsmannamálum Heilbrigðiseftirlitsins að Gígja Sigurðardóttir kom til skrifstofustarfa í 40% starf og heilbrigðisfulltrúinn Þorsteinn Þorvarðason var ráðinn í tímabundið verkefni.

Í skýrslunni kemur fram að niðurstaða rekstrar Heilbrigðiseftirlitsins var jákvæður á árinu 2017.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.

Frétt: Feykir.is