BERJADAGAR 2023, Tónleikar í Litlu-Sveit, Ólafsfirði
Föstudagur 4. ágúst kl 13:15
Fyrri tónleikar í Litlu-Sveit
Sólveig Thoroddsen söngur og harpa. Sólótónleikar.
Sýningaropnun: Alklæddur kofi og könnur, opið til kl 17:00
Helga Pálína Brynjólfsdóttir textíllistakona og
Margrét Jónsdóttir leirlistarkona
Allir velkomnir!
Litla-Sveit er sumarbústaður, byggður 1935 og endurgerður 1987-2001. Eigendur eru listakonurnar og frænkurnar Helga Pálína Brynjólfsdóttir og Margrét Jónsdóttir, sem bjóða til sýningar á Berjadögum 2023, dagana 4.-6. ágúst frá kl 13:15 til 17:00.
Píramídaþök kofans stingast eins og nornahattar upp úr umhverfinu þegar ekið er eftir vegi 802 milli Auðna og Þóroddsstaða, vestan megin í Ólafsfirði. Litla-Sveit er 5 km frá Ólafsfjarðarbæ, eystri byggðakjarna Fjallabyggðar, milli Auðna og Þóroddsstaða. Kvíabekkarkirkja er nokkru sunnar sömu megin.
Myndlistarsýningin Alklæddur kofi og könnur er hluti Berjadaga 2023 og vísa könnurnar í nafni sýningarinnar til þjóðsögunnar um Sýrstein, sem stendur við veginn neðan Litlu-Sveitar. Þar segir frá ferðamanni sem sofnaði við steininn, þreyttur og þyrstur mjög. Þegar hann vaknaði stóð hjá honum drykkjarkanna full með ákjósanlegasta sýrudrykk, sem ferðamaðurinn gerði sér gott af,
þó honum væri fullkomlega hulið hvaðan slíkur óskadrykkur gæti kominn verið. Nafnið fékk steinninn af þessu atviki.