Í gærkvöldi kom saman fjöldi manns á einsöngstónleika í Tjarnaborg Ólafsfirði. Tónleikarnir voru í boði Jóns Þorsteinssonar óperusöngvara og söngkennara sem búsettur er í Ólafsfirði, tónleikarnir eru hans framlag til Markaðsstofu Ólafsfjarðar og verða þeir árlegur viðburður héðan í frá þann 13. janúar.
Maurice Rommers flutti ítölsk lög, Schubert, skandinavísk lög, þar á meðal Sibelius, og íslensk lög við undirleik Tamir Chasson.
Maurice Rommers sem er af hollenskum uppruna lærði hjá Jóni frá unga aldri og hefur hann komið sjö sinnum til Íslands á undanförnum árum. Hann flutti í fyrsta sinn íslensk lög við mikinn fögnuð áheyrenda og í fyrsta laginu Lítill fugl eftir Sigfús Halldórsson spilaði Ave Kara Sillaots organisti í Ólafsfjarðarkirkju undir á harmonikku.
Megi Jón Þorsteinsson hafa þökk fyrir sitt framlag til menningar í Fjallabyggð.
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir