Bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti á 591. fundi sínum þann 5. febrúar s.l. samkomulag milli Hljóðsmárans ehf og Fjallabyggðar um að Trölli sendi út bæjarstjórnarfundina beint.
Mál þetta hefur átt sér nokkurn aðdraganda (sjá eldri frétt hér) en ætti nú að vera í höfn í bili amk. Nokkur andstaða var í Bæjarráði við að Trölli sendi út mynd frá fundunum, svo samkomulagið hljóðar upp á beina hljóðútsendingu og möguleika á endurflutningi að kvöldi fundardags, en ekki verða upptökur aðgengilegar eftirá.
Svo er bara að sjá hvernig málin þróast og hvort myndútsending verður líka síðar meir, og jafnvel hægt að hlusta og horfa hvenær sem er.
Allmörg sveitarfélög á Íslandi eru að senda sína bæjarstjórnarfundi út beint með hljóði og mynd, sem einnig er hægt að nálgast hvenær sem er að fundi loknum.
Fundir Bæjarstjórnar Fjallabyggðar eru yfirleitt mánaðarlega og er reiknað með að fyrsta útsendingin verði í apríl 2019.
Hljóðsmárinn ehf er rekstraraðili Trölla. Samkomulagið er eftirfarandi:
Samkomulag um hljóðútsendingu á bæjarstjórnarfundum Fjallabyggðar 2019
Fjallabyggð, kt.: 580706-0880 og Hljóðsmárinn ehf , kt.: 601299-4539 gera með sér svohljóðandi samkomulag vegna hljóðútsendinga frá bæjarstjórnarfundum Fjallabyggðar 2019
- Hljóðsmárinn ehf sendir út reglulega bæjarstjórnarfundi Fjallabyggðar beint. Aðeins er um hljóðútsendingu að ræða, ekki myndútsendingu. Útsending og vinna kringjum hana er sveitarfélaginu að kostnaðarlausu.
- Hljóðupptökur/skrár verða í eigu Fjallabyggðar og vistaðar hjá sveitarfélaginu.
- Hljóðsmárinn ehf. gerir ráð fyrir að endurflytja fundinn að kvöldi fundardags en er ekki leyfilegt að nota efni úr hljóðupptökum að öðru leyti.
- Samkomulagið tekur gildi 1. apríl 2019 og gildir til 31. desember 2019. Samkomulagið skal endurskoðað að þeim tíma loknum.
Fjallabyggð 25. janúar 2019