Lögreglan varar við því að á undanförnum dögum hefur borið á því að fólk fengi símtöl erlendis frá þar sem viðkomandi kynnir sig sem starfsmann Microsoft og að gera þurfi við öryggisgalla í Windows-stýrikerfinu.

Þeir ætlast til þess að fólk fari í tölvu sína og geri þar ákveðna hluti samkvæmt fyrirmælum þeirra. Þarna eru svik í tafli þar sem markmiðið er að utanaðkomandi nái stjórn á tölvunni, oft í glæpsamlegum tilgangi.

Þeir sem lenda í þessu eru beðnir um að leggja sem fyrst á og hlýða engu af því sem lagt er fyrir þá að gera.

Það skal áréttað Microsoft-fyrirtækið notar aldrei þá aðferð að hringja í fólk til að tilkynna og gera við öryggisgalla.