Það er ávallt nóg um að vera í Hrísey og gerir Ásrún Ýr Gestsdóttir því góð skil með vikulegum pistlum á Hrísey.is.
Gaf hún Trölla.is góðfúslegt leyfi til þess að birta fréttir frá Hrísey
.

Heil og sæl lesendur þennan fallega föstudag!

Eins og kom fram í föstudagsfréttum 23.febrúar var frí hjá okkur síðasta föstudag og því tveggja vikna virði af lestri framundan. Reyndar var fréttaritari í fríi og því mjög ómeðvituð um hvað var að gerast að mestu leyti en sem betur fer er tíðin frekar róleg hérna hjá okkur í Hrísey þessar vikurnar. 

Veðrið hefur sýnt sínar bestu hliðar undanfarið með sól og rauðum hitatölum á veðurkortum. Mörg hver hafa haft orð á því að vor sé í lofti. Enda ekki hægt að hugsa annað þegar sólin yljar, morgnarnir verða bjartari og fuglarnir syngja vorsönginn við gluggann. Við erum svo lánsöm hérna í Hrísey að við höfum marga áhugaljósmyndara sem eru dugleg að deila verkum sínum á samfélagsmiðlum og þá sérstaklega í hópnum Hrísey myndir og fréttir. Þar hefur fólk líka verið duglegt að setja inn eldri myndir sem hafa verið skannaðar úr gömlum albúmum, sem er svo skemmtilegt að skoða. Sagan okkar hérna í Hrísey er löng og það er frábært að fá að upplifa Hríseyjarlífið fyrr á tímum í gegnum myndir og sögur. 

Með hækkandi sól koma farfuglar, fleygir sem fótgangandi, og með þeim aukið líf á göturnar og um eyjuna. Hrísey hefur fengið fína umfjöllum í ýmsum miðlum síðasta árið og því viðbúið að því fleiri sem heyri um okkur því fleiri fáum við í heimsókn. Það var eitt sinn sagt að erlent ferðafólk lærði að segja góðan daginn eftir að hafa rölt um Hrísey, því hér bjóða allir öllum góðan dag úti á götu. Það er skemmtilegur siður sem vert er að halda í. Svo erum við líka bara svo skemmtileg og kurteis upp til hópa hérna, er það ekki?

Það er núna, svona í lok febrúar og byrjun mars, rólegt og lítið um stærri viðburði hérna hjá okkur. Rétt eins og var milli jóla og þorrablóts. Það er auðvitað allt út hugsað því við erum að undirbúa okkur fyrir frábæra Hríseyjar-páska núna um næstu mánaðarmót! Viðburðir eru að byrja að detta inn á viðburðardagatalið hérna á síðunni og núna, sem endranær, borgar sig að fylgjast vel með svo ekki missi maður af neinu! Það er alveg magnað hvernig ekki stærra samfélag en við erum hér, getum búið okkur til margt skemmtilegt að gera. Það væri ekki hægt nema með öflugu fólki, heimamanna og annarra húseigenda, sem skipuleggja, taka þátt og mæta. Takk fyrir ykkur!

Það verður lítið skrifað um síðustu viku þar sem ritarinn var ekkert heima við. En vikan sem er að líða núna var ekki alveg laus við dagskrárleysi. Slökkvilið Hríseyjar var á sinni annarri æfingu á árinu síðastliðinn miðvikudag. Var slökkvibíllinn hreyfður með akstri um þorpið og síðan mátti sjá vaska menn æfa sig með flotdæluna og fleira. Það er gott að okkar vaska fólk sé vel undirbúið ef á þarf að halda, en vissulega vonum við að það verði aldrei.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, kom í heimsókn ásamt Huldu Hermannsdóttur aðstoðarkonu sinni. Var Hríseyjarskóli heimsóttur, rætt við hverfisráð, spjallað við hluta af atvinnulífinu, ferðamálafélagið og fleiri. Var hún svo með opna skrifstofu í Hlein þar sem eyjaskeggjum bauðst að koma í spjall og var ánægjulegt hversu mörg nýttu tækifærið til þess að eiga orð við bæjarstjóra. Frétt um heimsóknina má finna á heimasíðu Akureyrarbæjar og þar má líka sjá nokkrar myndir frá Hrísey. Fólk var ánægt með heimsóknina og hvöttu Ásthildi til þess að koma aftur og oftar! Við munum taka vel á móti í hvert sinn.

Helgin í Hrísey býður upp á sæmilegt veður. Hiti yfir daginn getur farið upp í allt að fimm gráður (samkvæmt bestu spá) og sólin ætlar að halda áfram að heiðra okkur með nærveru sinni að einhverju leyti. Vindur verður um 5 m/s svo það viðrar vel til þvotta, útiveru og sunds. Verbúðin 66 er lokuð um helgina þar sem vertarnir þurfa nú að fá stöku frí, en Hríseyjarbúðin er á sínum stað og hinar sívinsælu pizzur verða bakaðar í kvöld svo um að gera að panta!