FM Trölli og Trölli.is verða á hátíðinni “Eldur í Húnaþingi” sem hefst miðvikudaginn 25. júlí og stendur alla helgina. Við munum senda út beint frá ýmsum viðburðum hátíðarinnar, og fréttirnar á Trölli.is munu litast verulega af hátíðinni.

Eldur í Húnaþingi 2016 ( úr drónamyndskeiði )

 

Fyrir þá sem ekki vita, var “Eldurinn” fyrst tendraður 2003, svo þetta er í 16. skiptið sem hátíðin er haldin. Tilgangur hátíðarinnar er m.a. að efla menningu á staðnum og drífa unga fólkið af stað til að gera eitthvað skemmtilegt yfir sumarið. Á Hvammstanga hefur alltaf verið mikil gróska í menningu, sérstaklega tónlist og myndlist.

Loftmynd frá Eldinum 2016 ( úr drónamyndskeiði )

 

Hjólreiðamenn léku listir sínar og leystu þrautir ( Eldurinn 2016, úr drónamyndskeiði )

 

Fjöldi tónleika, námskeið, sýningar o.fl. verður á hátíðinni, sjá má veglega dagskrá hér

Meðal viðburða eru tónleikar í hinu forna Borgarvirki í Vesturhópi.

Frá Borgarvirki á hátíðinni Eldur í Húnaþingi

 

Að heimsækja Eld í Húnaþingi er löngu orðið fastur punktur hjá heimamönnum, mörgum burtfluttum Hvammstangabúum og öðrum úr Húnaþingi Vestra.

Listrænn stjórnandi Elds 2018 er Greta Clough, en hún segir meðal annars um hátíðina:

“Eldur er meira en bæjarhátíð. Eldur er stundin þar sem við segjum frá því hver við erum og það er síbreytilegt – á Eldi fögnum við fortíð okkar og fjárfestum í framtíð okkar í Húnaþingi vestra. Þetta er stund þar sem við komum saman og einfaldlega fögnum því að vera til á sama tíma. Stund þar sem við njótum samvista við fjölskylduna, hittum gamla og nýja vini, hlustum á góða tónlist, fáum innblástur og njótum sumarsólarinnar. Eldur hefur verið haldin árlega frá því 2003 og er tilhlökkunarefni meðal bæði íbúa og gesta.”

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: af vef og úr drónamyndskeiði sem finna má hér.