Öryrki sem staddur er erlendis um þessar mundir fékk sendan tölvupóst frá Tryggingastofnun ríkisins á dögunum sem olli honum undrun og uppnámi.

Viðkomandi aðili er einstæður og dvelur erlendis hluta úr ári, ekki síst vegna sinnar örorku þar sem loftslagið í dvalarlandinu hentar honum betur yfir vetrartímann.

Ætlunin var að dvelja erlendis fram í apríl eða maí, en óvíst er með heimför vegna ferðatakmarkanna út af Covid-19.

Bréfið sem öryrkinn fékk frá TR var vegna heimilisuppbótar sem hann nýtur og munar mikið um.

Í bréfinu segir að við reglubundið eftirlit hjá TR hafi vaknað grunur um að búseta viðkomandi aðila sé mögulega erlendis.

Hér má sjá bréfið. Hægt er að smella á það til að skoða stærra.

Þar er honum bent á að ef öryrki dvelst lengur en 6 mánuði á almanaksári erlendis, missir hann heimilisuppbót.

Þar sem sú er ekki raunin hjá þessum aðila og einnig að það eru rétt rúmlega þrír mánuðir liðnir af árinu og hann fastur í viðkomandi landi vegna heimsfaraldurs sendi hann svar á TR um hæl.

Þar vildi hann t.d. vita á hvaða rökum TR fengi það út að hann væri búsettur erlendis.

Svar TR barst um hæl og var honum tjáð að fylgst væri með frá hvaða landi hann skráði sig inn á “Mínar síður” hjá TR. Þá er fylgst með IP tölum í tölvum skjólstæðinga Tryggingastofnunar.

Hluti úr svarbréfi TR

Trölli.is hafði samband við Tryggingastofnun vegna þessa á eftirlit@tr.is.

Þar var spurt eftirfarandi spurninga.

  1. Hafið þið lagalega heimild að skoða ip tölur einstaklinga, stenst það persónuverndarlög? 
  2. Af hverju sendið þið út álíka bréf þegar aðeins eru liðnir rúmlega 3 mánuðir af almanaksárinu? Viðkomandi þarf að vera 6 mánuði til að missa heimilisuppbótina. 
  3. Finnst  TR eðlilegt að senda út þetta bréf þegar vitað er að það eru engar samgöngur landa á milli vegna heimsfaraldursins og skjólstæðingar TR sem og aðrir komast ekki heim?

Svar barst frá Davíð Ólafi Ingimarssyni, framkvæmdastjóra – rekstrarsviðs TR.

Við getum ekki svarað fyrirspurnum um einstaka mál en getum svarað almennt.

TR hefur heimild til þess að skoða Ip tölur, sjá niðurstöðu persónuverndar. Á vef TR má sjá upplýsingar um hvernig TR sinnir eftirlitshlutverki sínu.

Heimilisuppbót flokkast til félagslegrar aðstoðar, sjá lög nr. 99/2007 (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2007099.html) og greiðist ekki úr landi ef dvöl fer yfir hámarksdvalartíma samkvæmt lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur (https://www.althingi.is/lagas/nuna/2018080.html).

Samkvæmt stjórnsýslulögum ber Tryggingastofnun að leiðbeina viðskiptavinum sínum og gerir það m.a. með bréfum þegar og ef þörf er talin á.

Við nánari skoðun eru persónuverndarlög þau sem TR styðst við, til að fylgjast með öryrkjum frá árinu 2009.

Tíu árum seinna, árið 2019 kom úrskurður um að þetta væri ólögmætt. Sjá úrskurð. Í báðum tilvikum var um úrskurð í máli gegn Vinnumálastofnun að ræða.

Eftir stendur að Tryggingastofnun sendir öryrkja póst í miðjum heimsfaraldri, þar sem búið er að rekja staðsetningu hans eftir IP tölu, ekki liðnir nema rúmlega þrír mánuðir af almanaksárinu og hann er látinn færa rök fyrir staðsetningu sinni.


Mynd: pixabay