Nú er stefnt að því að hámarkshraði í húsagötum í Fjallabyggð verði hærri en víðast annars staðar á landinu. Þetta er gert þrátt fyrir að stefnan í öðrum sveitarfélögum hafi verið að lækka hraða.

Í gær sunnudaginn 17. maí birti Björn Valdimarsson á facebooksíðu sinni bréf sem hann sendi á bæjarráð Fjallabyggðar og alla aðal- og varabæjarfulltrúa vegna málsins. Færslan hefur vakið mikla athygli og eru íbúar uggandi vegna hækkunar umferðarhraða. Bréfið má lesa í heild sinni hér að neðan.

Á meðfylgjandi myndum frá Siglufirði getur hver dæmt fyrir sig hvort þessar götur beri 40 km/klst.

Siglufirði 17. maí 2020

Bæjarráð Fjallabyggðar

Hámarkshraði í húsagötum / íbúðagötum í Fjallabyggð


Miðað við bókanir Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar er stefnt að því að hækka hámarkshraða í húsagötum í 40 km/klst. Skv. lauslegri könnun minni er algengast hjá sveitarfélögum út um allt land, að hámarkshraði í húsagötum sé 30 km/klst. Það á t.d. við um nær allar húsagötur í Reykjavík og í langflestum ef ekki öllum sveitarfélögum annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og svo mætti  áfram telja. 

Stefna Fjallabyggðar er því þvert á það sem tíðkast í flestum sveitarfélögum á landinu þar sem langflestir íbúar í þéttbýli búa við 30 km/klst. hámarkshraða í húsagötum.

Í leiðbeiningum sem Verkfræðistofan Mannvit vann fyrir Umferðarstofu og Vegagerðina um umferðaöryggisáætlanir sveitarfélaga árið 2010 er eftirfarandi “rannsóknir benda til þess að 90% gangandi vegfarenda lifi af árekstur ef hraði ökutækis sem ekur á þá er 30 km/klst… Ef ökutæki er ekið á gangandi vegfaranda á 40 km/klst hraða eru 60‐70% líkur á að óvarði vegfarandinn lifi áreksturinn af.” Hætta á banaslysi er sem sagt margfalt meiri á 40 km/klst en 30 km/klst.

Í leiðbeiningunum segir einnig að “mörg bæjarfélög á landinu hafi unnið markvisst að uppbyggingu 30 km hverfa undanfarin ár og hefur t.d. slysum í Reykjavík þar sem meiðsl verða á fólki fækkað að meðaltali um 27% og alvarlegum slysum um 62% í slíkum hverfum” .

Á fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013 má og lesa eftirfarandi færslu; „í flestum húsagötum er hámarkshraði 30 km/klst og er mikilvægt fyrir ökumenn að gæta sérstaklega að því að virða hann, enda er sá hraði ákveðinn í samræmi við að þar séu gangandi vegfarendur á ferð, sérstaklega börn“.

Með ofangreint í huga óska ég eftir því að bæjarráð svari eftirfarandi, helst skriflega í fundargerð:

  • Að birt verði rök fyrir því að hámarkshraði í húsagötum eigi að vera hærri í Fjallabyggð en víðast annars staðar á landinu.
  • Fór fram eitthvað sérstakt áhættumat fyrir Fjallabyggð í tengslum við þessa tillögu sem sýndi að aðstæður í húsagötum hér leyfi meiri umferðarhraða en almennt tíðkast í húsagötum hér á landi?
  • Ef áhættumatið fór fram óska ég eftir því að það verði birt. Ef það var ekki unnið óska ég eftir því að bæjarstjórnendur fresti afgreiðslu þessa máls þar til áhættumat unnið af hlutlausum fagaðila liggur fyrir.

Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu öryggismál í umferðinni skipta miklu máli. Það hlýtur að teljast eðlileg beiðni að ef bæjarstjórn telur þeim málum betur fyrir komið hér með meiri umferðarhraða í íbúðahverfum en almennt tíðkast, séu fagleg rök færð fyrir því. 

Með ósk um skjót og skýr svör


Björn Valdimarsson
Aðalgötu 8, Siglufirði


Myndir/aðsendar