Áætlað er að um 4000 manns hafi sótt Siglufjörð heim um verslunarmannahelgina. Hátíðin gekk einstaklega vel og segja forsvarsmenn hátíðarinnar að vel hafi tekist til að leggja góðan grunn að Síldarævintýrinu til framtíðar.
Rúmlega 50 viðburðir voru haldnir víða um bæinn, þátttaka bæjarbúa var einnig mjög góð og húsin skreytt í hverfalitunum svo um munaði.
Flest skemmtiatriði og afþreying sem í boði var á Síldarævintýrinu voru í höndum heimamanna sem eru svo sannarlega einstaklega hæfileikaríkir.
Forsvarsmenn hátíðarinnar vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komu til Siglufjarðar, bæjarbúum fyrir frábærar undirtektir við þær nýjungar að skipta bænum upp í litahverfi og að taka þátt í götugrilli þar sem íbúarnir komu saman og áttu ánægjulega stund í upphafi hátíðarinnar.
Einnig vilja þeir þakka hinum fjölmörgu styrktaraðilum, þjónustuaðilum í bænum, söfnum og setrum. Með þeirra hjálp tókst að bjóða upp á glæsilega dagskrá.
Síðast en ekki síst skal geta hinna frábæru ungmenna úr ungliðadeild björgunarsveitarinnar Stráka, Smástráka, sem stóðu vaktina við hoppukastalana, buðu upp á kassaklifur og sig í klifurturninum og klifurveggnum og skreyttu börnin með andlitsmálningu. Þau fengu mikið hrós frá gestum hátíðarinnar fyrir einstaklega gott viðmót.
Hér að neðan eru svipmyndir sem fréttamenn Trölla tóku víðsvegar um bæinn á Síldarævintýrinu.
Sjá fleiri fréttir frá Síldarævintýri: HÉR

Gaman að vera ungur og leika sér

Strandsblaksmót

Fjör í Vídeóval

Börnin skemmtu sér vel

Haldið var golfmótið Siglo Golf Open sem tókst mjög vel, voru um 60 þátttakendur í því

Ánægð með vel heppnað golfmót

FM Trölli var um allan bæ með beinar útsendingar frá viðburðum

Þórarinn Hannesson að leggja af stað með gönguhóp um söguslóðir Ófærðar

Hér er hópurinn að virða fyrir sér eitt af þeim húsum sem notuð voru í þáttaröðinni

Um 4000 manns sóttu Siglufjörð heim um verslunarmannahelgina

Prjónakaffi var alla morgna í Hjarta bæjarins, tókst það einstaklega vel og verður því haldið áfram í vetur

Síldarævintýris gestur kom inn í Hjarta bæjarins með lopapeysu sem var götótt, hagleiks konurnar í prjónakaffi munaði ekki um að staga í gatið í réttum lit og fór þessi kona alsæl heim með peysuna sína

FM Trölli kom við í Saga Fotografica og ræddi við Baldvin Einarsson

Síðan var haldið í Segul 67 og rætt við Martein Haraldsson

Raffó bauð börnunum í reiðtúr á malarvellinum

Lítill kútur alsæll á hestbaki

Björgvin Árnason að taka púlsinn á mannlífinu

Gunnar Smári að ræða við Kristján Jóhannsson um sýningu hans í Söluturninum

Lifandi tónlist var fyrir gesti og gangandi

Flottasti Spiderman sem Tröllahjónin hafa séð, ræddi hann galvaskur við þau

Ýmis varningur var í boði

Mark Duffield sagði FM Trölla frá því að það hefði verið mjög rólegt hjá lögreglunni og hátíðin öll til sóma

Andlitsmálun og rann allur ágóði af henni til Smástráka

Grillað var fyrir utan Rauðku og var mjög góð sala í kjúklingaspjótum og grilluðum bönunum. Getur fréttamaður vottað að hafa aldrei fengið betri banana sem var með súkkulaði og rjóma, algjört lostæti. Bjarni og Frosti stóðu vaktina við grillið

Siggi og Ólöf með litla ömmu og afastelpu

Allskonar uppákomur voru við Síldarminjasafnið

Hér er verið að bjóða upp á allskonar síldarsmakk með rúgbrauði frá Aðalbakaríi

Síðan var skroppið til Frímúrara sem voru með opið hús og gestum boðið upp á veitingar. Hér er Steini Sveins að vaska upp, klæddur kjólfötum. Sjaldan sjást jafn prúðbúnir uppvaskarar

Þorgeir Bjarnason tók á móti gestum á efri hæðinni í Frímúrarahúsinu

Fornbílasýning, bjórleikar, grill og markaður var í Segli 67

Líkbíllin er til sölu ef einhvern vantar eðalkerru

Fallegt handverk var í boði á markaðnum

F-103 og F-16, fallegir bílar seim eiga langa sögu

Gestirnir dreifðust um allan bæ enda af nógu að taka

Hér sitja gestir úti í góða veðrinu

Það var ansi líflegt í Aðalbakarí yfir helgina

Daníel Pétur að syngja og spila fyrir gesti Síldarævintýris