Um Páskahelgina 15. – 17. apríl verður listahátíðin Leysingar Í Alþýðuhúsinu á Siglufirði í áttunda sinn. Hátíðin hefst ávallt á föstudaginn langa með sýningu í Kompunni og gjörningum í sal en hefur undanfarin ár vaxið fiskur um hrygg og stendur nú yfir í þrjá daga með tónleikum og upplestrum auk sýningar og gjörninga.
Leysingar er ákaflega vel sótt listahátíð sem hefur í gegnum árin fest sig í sessi í bæjarfélaginu sem kærkomin upplifun og hugarflæði með heimamönnum og gestum.
Í ár taka 10 listamenn þátt í Leysingum, hver með sínum hætti.
Þátttakendur eru:
Kristín Ómarsdóttir ljóðskáld og rithöfundur.
Davíð Þór Jónsson tónskáld og píanóleikari.
Silfrún Una Guðlaugsdóttir myndlistamaður.
Tara Njála Ingvarsdóttir myndlistamaður.
Sindri Leifsson myndlistamaður.
Óskar Guðjónsson tónskáld og saxafónleikari.
Skúli Sverrisson bassaleikari.
Samúel Rademaker rithöfundur og háskólanemi.
Þórir Hermann Óskarsson tónskáld og píanóleikari.
Halldór Ásgeirsson myndlistamaður.
Leysingar 15. – 17. apríl
Föstudagur 15. apríl
kl. 14.00 – Kompan, Sindri Leifsson
kl. 15.00 – Gjörningur, Silfrún Una Guðlaugsdóttir, Tara Njála Ingvarsdóttir
kl. 15.45 – Gjörningur, Samúel Rademaker, Þórir Hermann Óskarsson
kl. 16.20 – Gjörningur, Halldór Ásgeirsson, Þórir Hermann Óskarsson
Laugardagur 16. apríl
kl. 14.00 – 17.00 – Kompan, Sindri Leifsson
kl. 21.00 – Tónleikar, Óskar Guðjónsson, Skúli Sverrisson
Sunnudagur 17. apríl
kl. 14.00 – Kompan, Sindri Leifsson
kl. 16.00 – Ljóðalestur, Kristín Ómarsdóttir
kl. 16.45 – Tónleikar, Davíð Þór Jónsson
Um listamenn á Leysingum 2022
Sindri Leifsson sýnir í Kompunni frá 15. apríl – 1. maí 2022.
Bláb.
Á sýningunni Bláb. sýnir Sindri Leifsson nýjar lágmyndir og skúlptúra. Sum verkin er hægt að innbyrða líkamlega en önnur ekki. Lægsti samnefnari er fundinn í ólíkum efnum. Mahóní, stál, fura, bláber og eik. Yfirfærsla upplifana á sér stað á milli snertingar, sjónar, bragðskyns og lyktarskyns.
Sindri Leifsson er fæddur árið 1988 í Reykjavík. Hann lauk MFA-gráðu frá Listaháskólanum í Malmö, Svíþjóð árið 2013 og BA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Táknmyndir og umbreyting efniviðarins eru endurtekin skref í verkum Sindra en umhverfi og samfélag koma gjarnan við sögu. Efnin fá oftar en ekki að standa sjálfstæð og hrá í bland við mikið unna og slípaða fleti. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi síðustu ár og má þar m.a. nefna einkasýninguna Næmi, næmi, næm í Ásmundarsal, Veit andinn af efninu? í Nýlistasafninu, Skúlptúr / Skúlptúr í Gerðarsafni, Munur í Skaftfelli, Hringrás í BERG Contemporary og #KOMASVO í Listasafni ASÍ. Verk Sindra má finna í safneignum Listasafns Íslands, Listasafns ASÍ og Nýlistasafnsins ásamt einkasöfnum.
Tara og Silla flytja gjörninginn Á milla vina/ Between Friends 15. apríl á Leysingum.
Tara Njála Ingvarsdóttir (f. 1996) og Silfrún Una Guðlaugsdóttir (f. 1996) hafa unnið og pússað stígvélin sín saman sem tvíeykið Tara og Silla síðan þær hófu fyrst samstarf árið 2018 í myndlistarnámi við Listaháskóla Íslands. Tvíeykið vinnur aðallega með gjörninga, innsetningar, vídeóverk og skúlptúra. Megin þemu í verkum þeirra eru fögnun, samskipti, leikgleði og vinátta. Tvíeykið hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og haldið tvær einkasýningar síðan að þær útskrifuðust árið 2020, “Ride the Art” í Höggmyndagarð Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík og “Tilfiningamatarboðið vol 1; Tilhlökkun” í Kaktus á Akureyri. Tara og Silla búa og starfa í Reykjavík.
Vefsíða: Taraogsilla.cargo.site
Samúel Lúkas og Þórir Hermann Óskarsson verða með upplestur/tónlist/gjörning 15. apríl á Leysingum.
Samúel Lúkas er höfundur og háskólanemi. Hann mun lesa upp nýja dystópíska smásögu, frumsamda fyrir tilefnið. Þórir Hermann Óskarsson mun flytja frumsamda stemnings tónlist á píanó og með rafhljóðum fyrir verkið. Áætluð lengd flutnings er 30 mín.
Menntun:
2008-2012. Stúdentspróf af málabraut. Menntaskólinn á Akureyri.
2012-2013. Diplóma í leiklist. Nordiska Folk Högskolan, Svíþjóð.
2019-2020. Diplóma í kvikmyndagerð. European Film College, Danmörk.
2020-2022. BA í skapandi greinum.
Háskólinn á Bifröst. Útskrifast haust 2022.
Útgefið efni:
Smásaga: Eyddu Mér. Pastel ritröð Nr. 14. 2018. Gefið út í 100 númerið eintökum.
Útgefandi: Pastel. Kristín Þóra Kjartansdóttir, Flóra, Akureyri.
Stuttmynd: Busi Baba (Leikstjóri: Behare Ruch). 2020. Framleiðandi.
Þórir Hermann Óskarsson (f. 1994)
er klassískur píanóleikari og stundaði tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands. Þórir lærði píanó-, gítar- og klarínettuleik frá unga aldri í Englandi, en seinna fluttist hann til Íslands og útskrifaðist með burtfararpróf í klassískum píanóleik og tónsmíðum frá FÍH og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Þrátt fyrir klassíska menntun Þóris sækir hann innblástur úr ýmsum stefnum, þar á meðal er jazz, prógressívt rokk, popp, elektróník og þjóðlagatónlist. Þórir hefur komið fram á fjölmörgum tónleikum ásamt því að semja og flytja eigin verk fyrir lúðrasveitir, kóra, strengi og píanó auk fjölda útsetninga.
Halldór Ásgeirsson flytur gjörning ásamt Þóri Hermanni Óskarssyni 15. apríl á Leysingum.
Halldór Ásgeirsson er fæddur 1956 í Reykjavík og hefur unnið að myndlist og sýnt víða um heim, nam í París í Frakklandi, bjó og starfaði á Omabili í Kyoto í Japan. Halldór kom fyrst fram í gjörningi um tvítugt með pönksveitinni Halló og heilasletturnar 1978. Frá upphafi hafa leiðarstefin í gjörningum og innsetningum hans verið umbreyting á efni yfir í annað er tengist alkemíu og frumöflunum jörð-eldur-vatn-loft. Sambræðsla hraunsteina úr ýmsum eldfjöllum jarðar leiddi hann áfram út í vatnslitagjörninga í tengslum við nútímatónlist og samstarfi við CAPUT hópinn um árabil m.a. á Heimssýningunni í Japan 2005.
Óskar Guðjónsson og Skúli Sverrisson verða með tónleika laugardagskvöldið 16. apríl á Leysingum.
Óskar Guðjónsson saxafónleikari og Skúli Sverrisson bassaleikari hafa verið í framvarðasveit íslensks tónlistarlífs síðastliðna áratugi. Samstarf þeirra hefur verið gjöfult og leitt af sér tvær hljómplötur sem báðar eiga stórafmæli nú í ár. Eftir þögn, kom út árið 2002 og The Box Tree, árið 2012. Báðar öfluðu þær Óskari og Skúla íslensku tónlistarverðlaunanna sem jazz tónlistarflytjendur ársins 2002 og fyrir jazz hljómplötu ársins 2012.
Ferilsskrá þeirra beggja er afar myndarleg en þeir hafa til samans leikið inn á vel á þriðja hundrað hljómplötur í gegnum tíðina. Skúli er ekki síst þekktur fyrir Seríuplötur sínar auk samstarfs hans við listamenn á borð við Laure Anderson, Lou Reed, Blonde Redhead, Wanda Leo Smith, Ryuichi Sakamoto og að sjálfsögðu Ólöfu Arnalds, Hildi Guðnadóttur og Jóhann Jóhannsson.
Óskar er meðlimur í hljómsveitinni ADHD og í eina tíð meðlimur Mezzoforte. Hann hefur auk þess starfað með listamönnum á borð við Jim Black, Sören Dahl Jeppesen, Trygve Seim og nánast allri íslensku tónlistarsenunni.
Tónlist Óskars og Skúla er í senn hugljúf og leitandi, áþreifanleg og ósýnileg. Hún umlykur hlustandann, faðmar hann og hjúkrar.
Kristín Ómarsdóttir les upp eigin ljóð og sögur 17. apríl á Páskadag, á Leysingum.
Fyrsta verk Kristínar Ómarsdóttur leikritið Draumar á hvolfi var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1987. Kristín er fædd í Reykjavík 1962 og býr þar. Hún skrifar jöfnum höndum leikrit, fyrir leiksvið og útvarp, skáldsögur, smásögur og ljóð. Yngstu verk hennar eru skáldsagan Svanafólkið (2019) og smásagnasafnið Borg bróður míns (2021). Heildarsafn fyrstu átta ljóðabóka kom út 2020. Ljóðabókin kóngulær í sýningargluggum (2017) og skáldsagan Elskan mín ég dey (1997) voru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Kristín hefur sýnt teikningar (vatnslitur, blek, blýantur) og tekið þátt í nokkrum myndlistarsýningum. Bækurnar koma út á nokkrum öðrum tungumálum.
Davíð Þór Jónsson verður með tónleika 17. apríl á Páskadag, á Leysingum.
“Hvar finnur maður hina frjálsu tónlist? Eða finnur tónlistin mann sjálf ? Þetta er kannski eftir allt ekki undir neinum einum komið….það er einungis hægt að vaða af stað inní veðrið og láta svo öflin taka yfir , grípa ferðina og hugmyndir eins og þær koma….er kannski best að framkvæma allt þetta í svefni með undirmeðvitundina í stafni ?” DÞJ.
Davíð Þór stundaði nám í Tónlistarskóla FÍH og fór í skiptinám til Þrándheims á vegum skólans og útskrifaðist vorið 2001. Árið eftir gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Rask. Hann hefur gert tónlist og hljóðmyndir fyrir fjölda leiksýninga, Tengdó, Hrærivélina, söngleikinn Leg, Baðstofuna, Héra Hérason, Manntafl, Mýs og menn, Dagbók djasssöngvarans og síðast Húsið sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Hann hefur einnig tónsett útvarpsleikrit og sjónvarpsverk af ýmsu tagi auk þess að semja tónlist fyrir dansverk.
Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með flestum þekktari tónlistarmönnum landsins. Hann hefur einnig unnið náið með sviðslistafólki og myndlistarmönnum og mætti þar helst nefna Ragnar Kjartansson, en saman sköpuðu þeir tónlistar- og myndbandsverkin „The End“, framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009 og „Guð“. Davíð samdi og útsetti tónlistina og flutti ásamt Ragnari og hljómsveit.
Davíð Þór hefur hlotið margvísleg verðlaun, til dæmis Íslensku tónlistarverðlaunin og Grímuverðlaunin, auk þess sem tónlist hans úr kvikmyndinni Hross í oss hefur verið verðlaunuð á kvikmyndahátíðum í Evrópu.
Aðsent