Nokkuð af fólki er komið til Dalvíkur vegna Fiskidagsins mikla, tjaldsvæðin að verða þéttskipuð en gengið hefur vel og fá verkefni komið inn á borð lögreglu.
Í kvöld er ,,fiskisúpukvöldið“ á Dalvík. Þá bjóða margir íbúar gestum og gangandi að kíkja við og gæða sér á fiskisúpu. Tveir logandi kyndlar í garði eru auðkenning þess að þar sé fiskisúpa á boðstólum og að sjálfsögðu eru allir með bestu fiskisúpuna.
Það má reikna með mikilli umferð til Dalvíkur í tengslum við þennan viðburð og því hafa verið gerðar ráðstafanir varðandi umferðarskipulag og umferðarstjórn. Það er gert með öryggi gangandi vegfarenda í huga, til að viðbragðsaðilar komist leiðar sinnar og ekki myndist umferðartappar.
Í dag verður venjubundin leið gegnum Dalvík opin, þ.e. Skíðabraut, Hafnarbraut og Gunnarsbraut. Bifreiðastöður á þessum götum eru hins vegar bannaðar, beggja vegna. Lokað verður fyrir bílaumferð inn í íbúðahverfi Dalvíkur vegna súpukvöldsins, nema fyrir íbúa sem þar búa. Gestum ber að nota bílastæði sem eru merkt svæði nr. 1 (,,sandurinn“) og 2 (við frystihúsið) í Fiskidagsblaðinu eða inn á heimasíðu Fiskidagsins mikla ( https://www.fiskidagurinnmikli.is/…/lokanir-skipulag ).
Á Dalvík eru allar leiðir stuttar þannig að það er ekkert mál að leggja bílnum í þessi stæði og rölta þaðan um bæinn.
Af öryggisástæðum hefur lögreglustjóri ákveðið að banna flug dróna yfir hátíðarsvæði Fiskidagsins frá því kl. 08:00 laugardaginn 12. ágúst til kl. 08:00 sunnudaginn 13. ágúst. Bannsvæðið er vel afmarkað á korti með rauðri þekju í Fiskidagsblaðinu eða inn á heimasíðu Fiskidagsins Mikla (tengill að ofan).
Bannið gildir ekki um dróna lögreglunnar eða aðra dróna þar sem aflað hefur verið sérstaks leyfis lögreglustjóra.
Við vonum að allir skemmti sér vel og að fiskisúpan fari vel í ykkur segir á facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.