Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 30. maí að heimila T.ark arkitektum f.h. Samkaupa hf. og KSK eigna ehf. að vinna breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Siglufjarðar með það að markmiði að útbúa nýja lóð fyrir verslunarkjarna sem mun m.a. hýsa nýja verslun Samkaupa hf. ásamt öðrum verslunum og/eða þjónustu.

Tillagan var samþykkt til auglýsingar á fundi bæjarstjórnar 29. október og kynnt á opnum íbúafundi þann 6. nóv. sl. Athugasemdafrestur er frá og með 13. nóvember 2024 til og með 2. janúar 2025.

Alls bárust skipulagsgátt 32 umsagnir vegna fyrirhugaðrar Samkaupsbyggingar og mun Trölli.is birta allar innsendar umsagnir næstu vikurnar.

Sjá fyrri umsagnir: HÉR

Þrettánda umsögn birt 14.12.2024.

Örlygur Kristfinnsson

Samkaup áforma nú að reisa nýjan verslunarkjarna á Siglufirði. Það er afar gleðilegt að fyrirtækið vilji fjárfesta hér og veita, væntanlega, okkur viðskiptavinum, betri og aukna þjónustu í nýju og rúmgóðu húsi. Og fyrstu teikningar sýna jafnvel ekki ósnotrar byggingar. Með einu meginverslunarrými – og “í framhaldi koma minni smávöruverslanir”. En allt með mjög nútímalegu sniði sem fellur ekki að gamalli bæjarmynd Siglufjarðar – sem fyrirtæki, félög og einstaklingar hafa á undanförnum áratugum lagt mikla áherslu á (og fjármuni í) að varðveita og
skerpa.

Löngum höfum við verið hreykin af því að í bænum okkar sé skýr miðja, miðbæjarkjarni, með torgi þar sem verslanir og þjónustustofnanir raðast í kring. Sennilega hafa stórframkvæmdir á ofanverðri Aðalgötu s.l sumar mótast af því því viðhorfi. Gatan endurgerð á skynsamlegan og flottan hátt.

Við tilflutning matvöruverslunarinnar er vert að velta fyrir sér núverandi bæjarmiðju og Aðalgötunni sjálfri. Þar hefur gamalgróin starfsemi lagst af á síðari árum og húsrými standa auð og ónotuð: Nýja Bíó, Pósthúsið og boðuð er lokun Efnalaugarinnar Lindar.

Gamla Aðalgötumyndin og miðbæjarskipulagið hefur þótt mjög aðlaðandi og vakið aðdáun fjölmargra þeirra hundruð þúsunda gesta sem hafa heimsótt Siglufjörð á síðustu áratugum. Augljós merki um mikla sögu og reisn. En nú gæti þetta verið að breytast mjög og afturför Aðalgötunnar ætti að minnsta kosti að vera okkur mikið áhyggjuefni. Verði af áformum Samkaupa að byggja nýjan og “modern” verslanakjarna þá færist miðja
verslunar og þjónustu frá Aðalgötunni og Torginu og hættan sú að gamli miðbærinn verði hrörnun og niðurlægingu að bráð. Og margir telja að við missum samtímis afar mikilvægt opið svæði sem veitir sýn frá þessari gamalgrónu miðju bæjarins yfir smábátahöfnina og til tignarlegra suðurfjalla.

Hvað er til ráða? Þó seint sé er ástæða til að benda á nýja möguleika og lausnir.

Það vakti athygli nýlega að Arnhildur Pálmadóttir arkitekt fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024. Meginhugmyndir hennar og aðferðir eru að endurnýta gamalt byggingarefni í stað þess að byggja nýtt, það minnki kolefnislosun og verði umhverfinu til góðs að mörgu leyti. En hvað kemur þessi hugmyndafræði okkur við? Jú, hún gæti einmitt verið lausn á vanda Aðalgötunnar og «miðbæjarstemningar» Siglufjarðar. Gömlu mannvirki Bíósins yrðu nýtt og gengju í endurnýjun lífdaga. Hin virðulega framhlið Bíósins, Aðalgötumegin, yrði óbreytt (en lagfærð) með aðalinngangi verslunarinnar og þar innaf yrði allt endurskapað samkvæmt nútímalegum þörfum og kröfum og byggja mætti við ef nálægt hús yrði fjarlægt. Og svo: bílastæði viðskiptavina á Blöndalslóð handan Lækjargötu.

Þannig mætti bjarga gamla miðbænum okkar í samræmi við þá myndarlegu andlitsupplyftingu sem Aðalgatan ofanverð fékk í sumar og bæjarstjórnendur stóðu að. Og myndi það samrýmast mjög þeirri stefnu sem ríkir víða í stórborgum úti í heimi að nýta það gamla og virðulega í þágu nútímalegrar starfsemi, t.d í verslun og þjónustu. Ekkert væri eðlilegra en Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefði skýra sýn (að ekki sé talað um stefnu) í skipulagi gamalla bæjarhverfa sveitarfélagsins – eins og miðbæjar Siglufjarðar kringum Torgið/Aðalgötuna. Og í samræmi við það væri ekkert eðlilegra en bæjaryfirvöld ræddu við eigendur Samkaupa um fyrrnefnd áform um uppbyggingu og bætta þjónustu – og hvað kæmi bænum og íbúum hans best. En skyldi svo vera

Þetta er skrifað í góðri trú á lýðræðislega og opna umræðu um mikilvæg samfélagsmál.

Siglufirði í nóv. 2024 – Örlygur Kristfinnsson

Forsíðumynd/úr myndasafni Trölla.is