Vinnuhópur um framtíðarhúsnæði fyrir félagsmiðstöðina NEON lagði könnun fyrir unglinga í 7. til 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Við val á úrtaki könnunar var horft til þess að umræddur hópur mun nýta aðstöðu og njóta starfs félagsmiðstöðvarinnar á komandi vetri.
Svörun í könnuninni var góð, alls svöruðu 48 unglingar af 55. Í aldurshópnum eru 27 búsettir í Ólafsfirði en 28 á Siglufirði.
Meginniðurstaða könnunarinnar er að mikill meirihluti unglinga sem úrtakið tók til vilja að framtíðar félagsmiðstöð verði staðsett á Siglufirði eða 36 af 48 svarendum, 4 vilja hafa félagsmiðstöðina í Ólafsfirði og 8 taka ekki afstöðu.
Í könnuninni var einnig óskað álits/rökstuðning unglinganna, í svörum voru tveir þættir mjög áberandi. Annarsvegar var bent á að sjoppa væri opin lengur á Siglufirði en í Ólafsfirði, hins vegar var á það bent að unglingar búsettir á Siglufirði þyrftu að sækja skóla með rútu því væri eðlilegt og sanngjarnt að unglingar í Ólafsfirði þyrftu að koma yfir til Siglufjarðar að afloknum skóladegi.
Aðspurðir um óskahúsnæði og aðstöðu félagsmiðstöðvar nefndu unglingarnir helst að horfa þurfi til þess að húsnæðið sé rúmgott með sal og minni rýmum fyrir fjölbreytta starfsemi.
Vinnuhópur vísar niðurstöðum könnunarinnar til umsagnar hjá Fræðslu- og frístundanefnd, Ungmennaráði, Foreldrafélagi Grunnskóla Fjallabyggðar og skólaráði.