Í dag, þriðjudaginn 24. júní kl. 17 verður útgáfuhóf haldið í Síldarkaffi á Siglufirði í tilefni af útgáfu fyrstu skáldsögu Sæunnar Gísladóttur, Kúnstpása.

Þar sem Siglufjörður er fyrirmynd sögusviðs bókarinnar og höfundurinn heimamanneskja þykir ekki úr vegi að slá til fögnuðar á staðnum. Boðið verður upp á léttar veitingar og talsverðar líkur eru á árituðum eintökum. Öll eru hjartanlega velkomin.

Í Kúnstpásu segir frá Sóleyju, heimsborgara og nýútskrifuðum hljómsveitarstjóra á framabraut í Leipzig, sem ætlaði sér alls ekki að flytja strax aftur til Íslands. Þegar heimsfaraldur geisar og tónleikahúsum Evrópu er lokað samþykkir hún að koma heim og reka bókabúð afa síns sumarlangt í heillandi smábæ á hjara veraldar. Þar verður þessi óvænta kúnstpása upphafið að breytingum í lífi hennar og kynnin af leiðsögumanninum Óskari bætast við þær vendingar.

Á sama stað, um miðja síðustu öld, stígur unga ekkjan Sigríður af skipsfjöl með það fyrir augum að opna verslun í samfélagi þar sem karlaveldi og mótlæti bíða hennar. Hún á þó eftir að komast að því að konur eru konum bestar og að það er alltaf ljós við enda ganganna.

Í sögunni fléttast saman líf og örlög tveggja ungra kvenna á ólíkum tímum. Óvænt tækifæri banka upp á og ástin kveður sér hljóðs þvert á allar fyrirætlanir.

Mynd/Síldarkaffi