Mánudaginn 12. september og þriðjudaginn 13. september var kynntur fyrir slökkviliðum nýr æfingabúnaður sem ætlaður er til æfinga í jarðgöngum.

Búnaðurinn var keyptur af Vegagerðinni og er fyrir öll slökkvilið, sérstaklega þau sem hafa jarðgöng á sínu svæði. Slökkvilið Akureyrar mun þjónusta og hafa umsýslu með búnaðinum.

Með þessum búnaði er hægt að sviðsetja, með raunverulegum hætti, alvarlega atburði sem reynir á slökkviliðsmenn í mismunandi aðstæðum. En jafnframt gengur mun hraðar að setja upp æfingarnar þannig að t.d. lokun á jarðgöngum vegna æfingar er mun styttri en áður hefur verið.

Sett var upp æfing í Vaðlaheiðargöngum í dag þar sem slökkviliðsmenn frá Slökkviliði Akureyrar tóku þrjú rennsli þar sem sviðsettur var árekstur þriggja bíla og að eldur hafi komið upp.

Unnið er að því að setja upp æfingu í jarðgöngum í Fjallabyggð fyrir áramót.

Myndir/ af facebooksíðu Slökkviliðs Fjallabyggðar