Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm. landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.

Nú er liðinn mánuður síðan stjórnvöld settu útgöngubann á hér á Gran Canaria.

Ríkisstjórn Spánar er byrjuð að undirbúa framlengingu á neyðarlögunum, sem myndi veita henni vald til að framlengja þær skerðingar á mannréttindum sem útgöngubannið er. Nú er stefnt að framlengingu til 10. Maí.

Sánchez forsætisráðherra Spánar, hefur samþykkt að skoða tillögur sem honum hafa borist frá stjórnvöldum á Kanaríeyjunum. Þessar tillögur fjalla um og útfæra með hvaða hætti eyjarnar gætu byrjað að milda og síðan afnema útgöngubannið í áföngum, sem hæfust eftir að núverandi neyðarlög renna út, 26. Apríl.

Hjá okkur hellishjónum eru allir dagar hver öðrum líkir, annars er mikil tilhlökkun að snæða vænt Íslenskt lambalæri með Ora baunum í páskamatinn.

Ljóst er að hellisbóndinn verður að skreppa til byggða á þriðjudaginn til að bera björg í bú, að páskalambinu undanskildu er að verða ansi þunnur þrettándinn í eldhússkápum hellisfrúarinnar.

Sjá fleiri myndbönd: Hér