Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.
Í gær var níundi dagur í útgöngubanni hjá okkur hjónum og leið hann löturhægt.
Nú er vetur hér á Kanaríeyjum og það snjóaði víða í hæstu fjöll. Það er skítkalt hér hjá okkur og hefur rignt mikið, ekki alveg besta veður fyrir hellisbúskap og kettirnir á heimilinu hafa harðneitað að fara út úr eldhúsinu, sem þeir eru nú smám saman að taka yfir.
Við höfum ekki upplifað svona veður áður hér og þrátt fyrir allt er gaman að fylgjast með náttúrunni taka við sér. Það var allt svo skraufþurrt, enda hefur ekki rignt í tvö ár sem heitið getur.
Þar af leiðandi var dagurinn í rólegri kantinum innandyra, enda lopapeysurnar því miður heima á Íslandi.
Sjá fyrri fréttir og myndbönd: HÉR