Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar sendi eftirfarandi bréf til Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra Vegagerðarinnar, dagsett þann 24. apríl síðastliðinn.

Efni: Brunavarnir í jarðgöngum og bréfaskriftir.

Vísað er til bréfs forstjóra vegagerðarinnar dags 5. júlí 2019 (sent 30. september 2019) og annarra samskipta er varða öryggismál í þeim fjórum jarðgögnum sem í Fjallabyggð eru.

Beðist er velvirðingar á síðbúnum svörum en mikið verk var fyrir undirritaðan að fara í gegn um öll þau gögn er tengjast málinu, gögn sem teygja sig yfir langt árabil. Einnig var töluverð lesning að fara yfir lög, reglugerðir og tilskipanir er varða jarðgöng.

Fyrst er til að taka að undirritaður gerir engar athugasemdir við að erindum sé svarað af framkvæmdastjórum og eða öðrum starfsmönnum vegagerðarinnar enda eru þeir að svara fyrir hönd stofnunarinnar og tala í umboði og á ábyrgð framkvæmdastjóra.

Vegagerðin og Fjallabyggð eru sammála um að Vegagerðin beri ábyrgð á brunavörnum sem og öryggismálum í jarðgöngum í eigu stofnunarinnar en meiningarmunur er uppi um hvað felist í þeirri ábyrgð. Vegagerðin virðist annarsvegar horfa til norskra reglna en túlka svo, þegar það hentar, lágmarkskröfur sem settar eru fram í reglugerð 992/2007 þannig að Vegagerðinni sé ekki skylt að uppfæra göng sem eldri eru. Þessi túlkun Vegagerðarinnar stangast mjög á við þær norsku reglur sem fyrr eru nefndar sem og alla framkvæmd í Noregi. Einnig stangast túlkun Vegagerðarinnar á við framkvæmd og eftirfylgni öryggismála í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við. Sem dæmi má nefna að Norðmenn, byggt á fyrrnefndum reglum, gera kröfu um útvarpssendingar í öllum göngum lengri en 500 metra óháð aldri gangna. Lögð er áhersla á að reglugerð 992/2007 byggir á Evróputilskipun og er framsetning á lágmarkskröfum til öryggis í jarðgöngum. Það er að mati sveitarfélagsins algjörlega óásættanlegt að ekki sé horft til aðstæðna, umferðar og samfélagsþróunar við túlkun reglugerða sem að öryggi í jarðgöngum snúa. Sveitarfélaginu er vel ljóst að um framkvæmd brunavarna gilda lög og reglugerðir, en telur að sú staðreynd að í sveitarfélaginu eru fjögur jarðgöng skiptir hér miklu máli.

Skilningur undirritaðs er m.a. að mikilvægt sé að viðbragð sé beggja megin jarðganga. Þessi skilningur er staðfestur í þeirri tilætlan löggjafans að sveitarfélög sem liggja að jarðgöngum skuli gera með sér sérstakan samning um viðbragð við vá sem í göngum myndast. Það að Vegagerðin skuli hafna því að ræða um þjónustusamning og eða samstarf um fyrirkomulag brunavarna í fyrrnefndum fjórum jarðgöngum er undirrituðum mikil vonbrigði. Öllum má vera ljóst að sveitarfélag sem hefur innan sinnar sveitar fjögur jarðgöng, þar af tvenn milli þéttbýlisstaða í sveitarfélaginu, þarf að hafa annan og meiri viðbúnað en sveitarfélög þar sem sveitarfélagamörk liggja þvert á jarðgöng. Einnig er bent á að í núgildandi brunaáætlun er gert ráð fyrir að gera skuli samning við Vegagerðina um brunavarnir í jarðgöngum. Óskað eftir að málið verði rætt frekar og á lausnamiðaðan hátt.

Ekki verður hér gerður ágreiningur um fjölda skýrslna og úttekta sem talinn er upp í bréfi yðar, þó vekur athygli að ekki skuli hafa verið unnin áhættugreining né viðbragðsáætlun vegna Strákaganga. Undirritaður óskar skýringa á því sem og að teknar verði upp viðræður um uppfærslu áætlana og búnaðar í öllum þeim göngum sem innan Fjallabyggðar eru.

Einnig má spyrja sig hverju umræddar skýrslur, úttektir og áætlanir hafa skilað, mat ýmissa er að hafa komið er að eftirtekjan sé frekar rýr og mikið vanti upp á að umrædd göng séu öll í ásættanlegu ástandi m.v. núverandi umferðarþunga, breytta samfélagsgerð og kröfur. Það hlýtur að vera á ábyrgð veghaldara, Vegagerðarinnar, að uppfæra mannvirki svo sem jarðgöng þannig að þau uppfylli eftir því sem kostur er kröfur nútímans. Við það verkefni má að mati sveitarfélagsins ekki binda sig við þrengstu túlkun reglugerðar sem setur einungis lágmarksviðmið um öryggi.

Margnefnd æfing í Múlagöngum sem fram fór 24. febrúar 2019 leiddi í ljós ýmsa vankanta á öryggismálum, ferlum og samskiptum. Breytt vindátt á meðan á æfingu stóð leiddi einn þeirra í ljós, svar yðar að viðbragðsáætlun geri ráð fyrir því að viðbragðsaðilar skuli fara inn í göng undan vindi vekur nokkra furðu hjá undirrituðum. Hin málefnalega nálgun hlýtur að vera hvort blásarar í göngunum ráði við skyndilega breytingu vindáttar og ef ekki til hvaða ráða skuli þá grípa. Í þessu sambandi má benda á að í Strákagöngum er mjög langt í viðbragðsaðila að vestanverðu, framsett álit í bréfi yðar hlýtur því að vekja upp spurningar um viðbragð við vá í þeim göngum ef vindur stendur á vestari gangnamunna.

Hvað varðar útvarpssendingar í göngum í Fjallabyggð þá er það skilningur undirritaðs að í Héðinsfjarðargöngunum sé svo kallaður lekastrengur sem nýttur er til að senda út GSM og TETRA merki, samkvæmt sama skilningi þá er ekkert tæknilega því til fyrirstöðu að senda út FM merki með þessum streng. Einungis þurfi að tengja strenginn við útsendingu útvarps. Samkvæmt heimildum þá má gera ráð fyrir því að uppsettur lekastrengur kosti nálægt 5.000 kr. á lengdarmetri, ljóst er að kostnaður við að setja streng upp í Múla- og Strákagöngum er ákaflega lítill í samhengi við þá miklu öryggisbót sem með því fengist. Í þessu samhengi þarf að taka fram að útvarpssending í jarðgöngum getur, ef skilningur undirritaðs er réttur, gefið færi á beinu sambandi frá viðbragðsaðilum og eða stjórnstöð Vegagerðar við þá sem eru á ferð í göngum. Ekki þarf að hugsa lengi til að átta sig á að þessháttar samband þó einhliða sé getur gert mikið gagn bæði þegar vá ber að sem og t.d. þegar óveður og ófærð er uppi. Undanfarinn vetur er til vitnis um hve veður geta gerst válynd og hve mikilvægt er að geta komið skilaboðum til fólks í jarðgöngum. Þekkt dæmi er t.d. frá Færeyjum þar sem útvarpskerfið var nýtt til að stöðva bíla inn í jarðgöngum og þeir látnir bíða af sér snjóstorm sem var utan þeirra, sem að öðrum kosti hefði þýtt að viðkomandi bílar hefðu setið fastir í snjó og stormi stutt frá göngunum. Rétt er að halda því til haga að Norðmenn krefjast útvarpssendinga í öllum göngum lengri en 500m, óháð umferð og aldri mannvirkis.

Að lokum vill undirritaður ítreka óskir um lausnamiðað samtal við stofnunina vegna þeirra mála sem hér og í fjölmörgum bréfum af sama toga hafa verið reifuð frá ýmsum hliðum. Lagt er til að fundinn verði tími hið fyrsta til þess að funda vegna málsins.

Virðingarfyllst.
Elías Pétursson bæjarstjóri.


Bréf þetta er sent með tölvupósti á Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra Vegagerðarinnar á netfangið bergthora.thorkelsdottir@vegagerdin.is og netfang Vegagerðarinnar vegagerdin@vegagerdin.is.