Feykir.is greinir svo frá að þann 1. september kl. 14 hafi tíu félagar Veðurklúbbsins á Dalbæ komið saman til fundar og farið yfir síðasta spágildi.

Samkvæmt skeyti frá Dalvík voru þeir allir mjög sáttir með hvernig veðrið gekk eftir. Í skeyti Dalbæinga kviknaði ríkjandi tungl þann 19. ágúst sl. en nýtt tungl kviknar þann 17. september kl 11 í suðaustri.

Telja veðurspámenn september verða mildan en vætusaman. 

„Það er ekki ólíklegt að aðeins gráni í toppa. Áttir verða breytilegar. Gangnamenn og konur þurfa að hafa með sér regnföt til vonar og vara í göngurnar,“ segja klúbbfélagar sem óska öllum góðs gengis við smölun. Fundi lauk kl 14:20.

Með gangnakveðjum spámanna fylgir veðurvísa:
Í ágúst slá menn engið
og börnin tína ber
Í september fer söngfugl
og sumardýrðin þver.