Frá og með 1. júní 2020 verður gerð einföldun og lækkun á innheimtu veggjalds fyrir þá sem keyra í gegnum Vaðlaheiðargöng án þess að skrá ökutækin sín.
Þannig lækkar greiðsla á veggjaldi úr 2.500 krónum í 1.500 krónur hverja ferð fyrir fólksbíla sem keyra beint í gegn án þess að skrá sig. Sem fyrr stofnast krafa sjálfkrafa í heimabanka hjá eiganda eða umráðamanni ökutækis sem hefur tíu daga til að greiða.
Markmið með þessari breytingu er að einfalda kerfið og koma til móts við ábendingar um að tíminn til að greiða væri of naumur og að ekki væru allir sem treystu sér til að skrá og borga í gegnum heimasíðuna veggjald.is eða með appi í snjallsíma.
Markmið með innheimtukerfi Vaðlaheiðarganga er að nýta tækni til eins hagkvæms rekstrar og hægt er auk þess að tryggja öryggi þeirra sem nota þau með frjálsu flæði („free-flow tolling“). Ljóst var við upphaf gjaldtöku í ársbyrjun 2019 að um nýjung var að ræða og ekki bara á Íslandi í þeim skilningi að innheimta er sjálfvirk og engin mönnuð greiðsluskýli við göngin. Það er eðlilegt að það taki viðskiptavini tíma að læra á kerfið sem virkar til framtíðar.
Breytingar við greiðslu í heimabanka hafa engar breytingar í för með sér fyrir þá sem hafa nú þegar skráð ökutæki á veggjald.is eða tunnel.is, hvorki fyrir þá sem greiða fyrir stakar ferðir eða þá sem hafa keypt 10, 40 eða 100 ferðir fyrirfram og njóta þannig afsláttarkjara.