Foreldrar barna á Leikskálum á Siglufirði hafa um árabil staðið fyrir fjölbreyttum fjáröflunum í nafni Foreldrafélags Leikskála, í þeim tilgangi að geta lagt sitthvað af mörkum til að gleðja börnin og auðga daglegt starf á leikskólanum.

Á dögunum færði Foreldrafélagið Leikskálum afar veglega leikfangagjöf, að andvirði rúmlega 300.000 kr. – en sérstaklega var horft til þess að velja leikföng sem nýtast börnum á öllum aldri.

Ýmiskonar hljóðfæri voru keypt, sem einfalt er fyrir börnin að nota í leik og starfi; bongótrommur, sjávartrommur, hristur, hringlur og bjöllur ýmiskonar. Töluvert af leikföngum og búnaði til íþróttaiðkunar barnanna; allskyns boltar, jafnvægisslá og tvö jafnvægisbretti sem og stórir
svampkubbar fyrir yngstu börnin að klifra á og auka hreyfiþroska sinn. Þar að auki var keyptur stór kassi af segulkubbum sem byggja má úr allt milli himins og jarðar.

.

Allir nemendur Leikskála, ásamt starfsfólki, veittu gjöfinni viðtöku – og þökkuðu fyrir með kröftugum söng.

Þess má jafnframt geta að elstu tveir árgangarnir á leikskólanum hafa verið í danskennslu undanfarnar vikur, sem kostuð er af foreldrafélaginu. Árlega býður félagið börnunum í sveitaferð að vori og greiðir fyrir leiksýningar á hverju starfsári. Foreldrafélagið veitir jólasveininum þar að auki verðmætan stuðning við kaup á jólagjöfum til barnanna fyrir hver jól.

.

 

Frétt: aðsend
Myndir: aðsendar