Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra tilkynnti í vikunni úthlutanir úr sjóðnum fyrir árið 2025. Tilgangur Uppbyggingarsjóðs er að styrkja menningar-, atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á Norðurlandi vestra. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og eru umsóknir metnar út frá þeim markmiðum og áherslum sem koma fram í Sóknaráætlun Norðurlands vestra 2025-2029 og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Alls bárust 130 umsóknir um styrki í sjóðinn í ár að upphæð 239 milljónir króna en til úthlutunar voru 60 milljónir. Aldrei áður hafa borist jafn margar umsóknir í Uppbyggingarsjóð Norðurlands vestra. Eftir skoðun og yfirferð fagráðs menningar annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar hins vegar hlutu 63 umsóknir brautargengi, þar af 20 umsóknir frá Skagafirði að upphæð samtals 13.376.412 krónur.
Eftirfarandi umsóknir frá Skagafirði fengu úthlutað styrk úr sjóðnum:
Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni:
Fagráðið metur allar umsóknir til einkunna og stiga, byggt á mati á því hvort verkefnið sé m.a. talið líklegt til atvinnusköpunar, fjölgunar starfa, að auka fagmennsku og fjölbreytni í störfum, auk mats á gæðum og raunsæi umsóknar út frá markmiðum og fjárhagsáætlun, og leggur til styrkupphæð út frá samkeppnishæfi umsóknarinnar.
Skíðadeild Tindastóls – Markaðssetning fyrir skíðasvæðið í Tindastól (550.000 kr.)
Markmið verkefnisins er að fjölga gestum á skíðasvæði Tindastóls með öflugri markaðssetningu og auka þannig um leið tekjur félagsins. Skíðasvæðið er einnig ferðamannasegull á Norðurlandi vestra og getur stuðlað að auknum ferðamannastraumi, betri nýtingu á gistingu á svæðinu og auknum tekjum fyrir aðra þjónustuaðila á svæðinu. Hugmyndin er kynna gönguskíðasvæði og brettasvæði Tindastóls.
Embla Dóra Björnsdóttir – Local Snafsar (1.851.412 kr.)
Verkefnið miðar að því að þróa og framleiða snafsa sem eru sérmerktir Norðurlandi vestra með notkun á hráefnum úr héraðinu. Við leggjum áherslu á að nýta náttúruleg hráefni af svæðinu sem ræktað er í Hegranesi. Markmiðið er að skapa einstaka snafsa úr hráefnum af bænum Egg og stuðla þannig að aukinni nýtingu á þeim hráefnum sem þar eru í ræktun.
Skotta ehf. – Stafræn Markaðsstofa (1.000.000 kr.)
Markmiðið er að undirbúa stofnun stafrænnar markaðsstofu á Sauðárkróki, með því að gera markaðsgreiningu, rekstaráætlun og kynningaráætlun og hanna vefsvæði, kennimerki og gera kynningarefni.
Bjórsetur Íslands – Bjór landnámsmanna – komdu, sjáðu og prófaðu (875.000 kr.)
Þegar Ísland var numið komu norrænir menn með þekkingu til ölgerðar með sér. Þekkt er að byggð voru upp hituhús til bjórgerðar, t.d. á Hólum í Hjaltadal. Hér á landi hefur þekking og reynsla á fornbjógerð dáið út, en hana má finna í Noregi. Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að byggja upp aðstöðu til þess að brugga fornbjór, líkan þeim sem bruggaður var á Íslandi á landnámsöld (og er enn í dag bruggaður í Noregi). Hins vegar, að kynna slíkan bjór og gerð hans fyrir almenningi.
Menningarverkefni:
Flestar umsóknir berast árlega í flokk verkefnastyrkja á sviði menningar, sem er til marks um blómlegt og fjölbreytt menningarlíf svæðisins. Úr vöndu er að ráða vegna fjölda umsókna miðað við fjármagnið til umráða. Við yfirferð umsókna er m.a. lagt mat á listrænt og menningarlegt gildi verkefnisins fyrir svæðið, hversu vel verkefnið falli að áherslum og markmiðum Sóknaráætlunar Norðurlands vestra, líkur á jákvæðum samfélagslegum áhrifum, gæði umsóknar með tilliti til verkefnalýsingar, rökstuðnings, skýrleika og raunsæis markmiða og fjárhagsáætlunar og hversu líklegt sé að verkefnið muni ná fram að ganga.
Valgeir Kárason f.h. Sönghóps félags eldri borgara í Skagafirði (250.000 kr.)
Markmiðið er rekstur kórs til að efla menningarstarf landshlutans, ferðast innan og utan landshlutans og vera félagsskapur eldri borgara í Skagafirði, sem kemur saman á söngæfingum til að æfa söngdagskrá fyrir tónleika og til eigin dægrastyttingar.
Alfreð Guðmundsson – Dýrin á Fróni – Vísnasögur um algeng íslensk dýr (300.000 kr.)
Markmið vekefnis er útsetja og gefa út 14 ný verk eftir Stefan Sand við vísur eftir Alfreð Guðmundsson, sem voru gefnar út í bókinni „Dýrin á Fróni – Myndskreyttar vísur um algeng íslensk dýr”
Elín Jónsdóttir f.h. Kvennakórsins Sóldísar – Dísir og Dívur (600.000 kr.)
Að æfa blandaða dagskrá sönglaga með “Dívum”, útsett fyrir kvennakór, rytmíska hljómsveit og strengjakvartett undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Lög sem t.d. Annie Lennox, Björk, Eyvör, Ellý, Tina Turner og Carmen sungu og gerðu fræg. Að viðhalda og efla faglegt kórastarf, auka samvinnu, kynna klassísk og nútímaverk í íslensku tónlistarlandslagi og styrkja menningarlega upplifun á svæðinu. Að halda tónleika á Norðurlandi vestra. Vera með einsöngvara úr kórnum ásamt Helgu Rós Indriðadóttur.
Gunnar Sigurðsson f.h. Skagfirska Kammerkórsins – Út um græna grundu (300.000 kr.)
Skagfirski Kammerkórinn hefur undanfarin ár verið með fasta dagskrárliði yfir starfsárið. Markmið verkefna Skagfirska Kammerkórsins er að bjóða samborgurum sínum upp á fjölbreytta menningardagskrá og afþreyingu í formi söngs og framsögu því tengt, á völdum tímum ársins.
Vinir Tindastóls ehf. – Tindastuð (1.000.000 kr.)
Markmið verkefnisins er að búa til skemmtun og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna í skíðabrekku Tindastóls. Þannig stuðlar hátíðin að framgangi skíðaíþróttarinnar, skíðasvæðis Tindastóls og kynnir Norðurland vestra sem áfangastað yfir vetrartímann, en þess má geta að Tindastóll er eina skíðasvæðið í landshlutanum.
Karlakórinn Heimir – Tónleikahald starfsárið 2024-2025 (300.000 kr.)
Verkefnið felst í tónleikahaldi Karlakórsins Heimis á starfsárinu 2024-2025. Í því felst undirbúningur og æfingar fyrir skipulagða tónleika kórsins á Norðurlandi vestra og einnig annað tilfallandi tónleikahald. Markmið verkefnisins er að bjóða íbúum á Norðurlandi vestra upp á flutning á fjölbreyttri tónlist, skemmtun og menningu til ánægju og gleði, og að bera hróður menningarstarfs á Norðurlandi vestra sem víðast um landið.
Menningarfélag Hofsóss – Bæjarhátíðin Hofsós heim (500.000 kr.)
Hofsós heim er bæjarhátíð á landsbyggðinni sniðin fyrir unga sem aldna, hún stendur frá föstudegi til sunnudags í lok júní. Dagskráin er sambland af heimatilbúnum og aðkeyptum skemmtiatriðum þar sem allir munu finna eitthvað við sitt hæfi.
Menningarfélag Gránu – Blönduð menningardagskrá í Gránu (500.000 kr.)
Markmið verkefnisins er að halda áfram því viðburðahaldi sem byggt hefur verið upp í Gránu undanfarin ár. Þetta starf hefur haft það að markmiði að auðga menningarlíf á Norðurlandi vestra með áherslu á fjölbreytta viðburði fyrir alla aldurshópa. Lögð verður áhersla á miðlun á þjóðlegum fróðleik, fjölbreytta tónlist og fræðslu um fjölbreytta hluti. Viðburðunum er ætlað að vera vettvangur fyrir fjölskyldufólk á öllum aldri til að hittast, viðburðir þar sem kynslóðirnar geta sameinast.
Fluga ehf. – Sveitasæla 2025 (500.000 kr.)
Markmið Sveitasælu er að efla og viðhalda gamalli landbúnaðarmenningu í Skagafirði með því að skapa vettvang fyrir búgreinafélög Skagafjarðar til að kynna íslenskan landbúnað og tengja framleiðendur landbúnaðarafurða við neytendur. Sveitasæla býður bændum og öðrum í landbúnaði, tækifæri til að sýna framleiðsluvörur sínar og uppskeru og fyrirtæki fá vettvang til að kynna nýjar vörur og tækni í landbúnaði. Með Sveitasælu er markmiðið að styrkja samfélagið og skapa skemmtilegan menningarviðburð.
Leikfélag Sauðárkróks – Með táning í tölvunni (600.000 kr.)
Markmið verkefnisins er að setja upp gamanfarsa í Sæluviku Skagfirðinga í apríl 2025. Leikfélag Sauðárkróks vill uppfylla sterkar væntingar samfélagsins um að taka þátt í menningarlífi Skagfirðinga sem og að gefa fólki kost á að taka þátt í verkefninu hvort sem er sem þátttakandur eða áhorfendur.
Nemendafélag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra – Leikrit NFNV 2025 (250.000 kr.)
Markmiðið með leikriti NFNV er að gefa ungu fólki tækifæri til að spreyta sig á leiklist, söng, undirleik og öðru sem tengist því að setja upp menningarviðburð. Einnig að tengja skólastarfið og menningarlífið í skólanum við nærsamfélagið og aðra sem áhuga hafa. Auk þess auðga leiksýningarnar menningarflóruna á svæðinu og komin nokkuð löng hefð fyrir þeim.
Leikfélag Hofsóss – Rauða klemman (400.000 kr.)
Markmiðið er að efla menningarstarfsemi á landsbyggðinni. Að gefa meðlimum leikfélagsins kost á að takast á við krefjandi en jafnframt gefandi verkefni sem felst í uppsetningu á leikriti í fullri lengd. Að gefa þátttakendum verkefnsins kost á leiðsögn fagmenntaðs leiðbeinanda.
Stofn og rekstrarstyrkir:
Stofn- og rekstrarstyrkir eru veittir til safna, setra og listamiðstöðva á sviði menningarmála, séu stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga ekki leiðandi aðilar í rekstrinum. Meðal skilyrða sem söfn og setur þurfa að uppfylla til að þau komi til greina við úthlutun er að þau séu rekin með þeim hætti að opið sé fyrir ferðamenn a.m.k. júní, júlí og ágúst ár hvert, lágmark 4 klst. á dag, sex daga vikunnar. Listamiðstöðvar skulu taka á móti íslenskum og erlendum listamönnum til lengri eða skemmri dvalar árið um kring. Styrkur er ákvarðaður út frá þeirri upphæð sem óskað var eftir og með það í huga hvert listrænt og menningarlegt gildi viðkomandi reksturs er fyrir svæðið.
Samgönguminjasafnið í Stóragerði – 900.000 kr.
Búminjasafnið Lindabæ – 800.000 kr.
Sögu- og listasýningar í Kakalaskála – 1.000.000 kr.
Sýndarveruleiki ehf. – 1238 Baráttan um Ísland – 900.000 kr.
Styrkir þessir koma sér án efa mjög vel og geta verið forsenda þess að af verkefnunum verður. Við hvetjum því alla Skagfirðinga sem luma á hugmyndum og verkefnum til þess að sækja um í sjóðinn fyrir næsta ár. Hægt er að leita aðstoðar hjá starfsfólki SSNV og verkefnastjóra atvinnu-, menningar- og kynningarmála hjá Skagafirði.
Hér má sjá heildarlista yfir úthlutun Uppbyggingarsjóðs Norðurlands vestra 2025.