Aðalfundur Karlakórsins í Fjallabyggð var haldinn nú um helgina í húsnæði Hannes Boy (bláa húsið) á Siglufirði þar sem kosin var ný stjórn.

Ægir Bergsson formaður kórsins setti fundinn og bar upp þá tillögu að Stefán Friðriksson yrði fundarstjóri og Stefán G. Aðalsteinsson fundarritari. Tillagan var samþykkt.

Ægir Bergsson formaður kórsins til 20 ára og Elías Þorvaldsson kórstjóri munu ekki gefa kost á sér til áframhaldandi starfa. Ægir og Elías fluttu báðir góður og skemmtilegar ræður þar sem farið var yfir sögu kórsins, enda af miklu að taka þar sem kórinn hefur tekið að sér fjölmörg skemmtileg verkefni í gegnum tíðina.

Þorgeir gjaldkeri fór yfir ársreikninga félagsins sem voru samþykktir samhljóða.

Kosin var ný stjórn sem er skipuð eftirtöldum kórfélögum:

Smári Valtýr Sæbjörnsson, formaður
Þorgeir Bjarnason, gjaldkeri
Stefán G. Aðalsteinsson, ritari

Meðstjórnendur eru:
Friðfinnur Hauksson
Vilmundur Ægir Eðvarðsson

Rætt var um framtíð kórsins, en kórstarfið hefur legið niðri frá því að Covid-19 faraldurinn hófst.  Um 25 kórfélagar eru nú þegar búnir að staðfesta þátttöku sína og er það nú í höndum nýrrar stjórnar að ráða nýjan kórstjóra og kynna og efla kórstarfið enn frekar, en starfsemin mun hefjast formlega á nýju ári.

Lögð var fram tillaga stjórnar um félagsgjöld fyrir starfsárið 2023 og var sú tillagan samþykkt samhljóða.

Ægir sleit því næst fundinum.  Kórfélagar risu úr sætum og gáfu fráfarandi formanni og kórstjóra dúndrandi lófaklapp og þökkuðu með því vel unnin störf þeirra í þágu Karlakórsins.

Á fundinum var boðið upp á glæsilegan þriggja rétta matseðil sem Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður reiddi fram af algjörri snilld:

Forréttir:
Reyktur og grafinn lax, graflaxsósa og grafin gæs með piparrótarsósu.  Nýbakað brauð og smjör.

Aðalréttur:
Purusteik, rauðkál, hvítkál og beikon, brúnaðar karföflur og villisveppasósa.

Eftirréttur:
Súkkulaðikaka með ís.

Fylgist með á facebook síðu karlakórsins hér:
https://www.facebook.com/karlakorinnifjallabyggd

Myndir/ Karlakórinn í Fjallabyggð