Stýrihópur um Síldarævintýri veitti verðlaun fyrir bestu skreytingarnar á “Síldarævintýrinu”. Þrátt fyrir að ekki væri formlegt Síldarævintýri í ár voru íbúar hvattir til að skreyta hús sín í hverfislitunum, líkt og gert var í fyrsta sinn í fyrra, og brugðust margir vel við því.
Segja þeir á facebooksíðu sinni að gaman hafi verið að sjá hversu margir lögðu metnað í að skreyta hús sín og garða og ekki skemmdi það gleðina að sjá kynslóðirnar vinna saman að skreytingum og skemmta sér vel í leiðinni.
Sérstök dómnefnd var skipuð til að velja metnaðarfyllstu og frumlegustu skreytingarnar. Átti hún erfitt með að gera upp á milli þeirra fjölmörgu skemmtilegu skreytinga sem bar fyrir augu. Ekki hjálpaði til að á föstudeginum gerði rigningu og rok svo ýmsar skreytingar gengu nokkuð úr lagi eða misstu mesta sjarmann. Sem betur fer var dómnefndin þá langt komin með mat sitt en veðrið gerði það að verkum að ekki náðist að mynda herlegheitin þannig að þau nytu sín.
En hér eru úrslitin og myndir af verðlaunahöfunum:
1. verðlaun: Sigurlaug Ragna Guðnadóttir, Ingvar Erlingsson og börn.
2. verðlaun: Guðrún Ósk Gestsdóttir og Gunnar Örn Óskarsson.
3. verðlaun: Guðfinna Skarphéðinsdóttir og Þröstur Ingólfsson.
Skemmtilegasta skreytingin: Ólöf Kristín Daníelsdóttir, Hrólfur Baldursson og dætur.
Myndir í frétt/Síldarævintýrið
Forsíðumynd af vinningshúsinu/ Ingvar Erlingsson