Fastur liður í ljóðahátíðinni Haustglæður er ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. – 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar.

Að þessu sinni notuðu þátttakendur listaverk nemenda í Menntaskólanum á Tröllaskaga sem kveikjur að ljóðum. Alls urðu til um 70 ljóð og fimm manna dómnefnd valdi svo úr þeim. Hver aðili í dómnefndinni valdi 5 ljóð sem honum leist best á og þegar val allra var skoðað kom í ljós að fjögur ljóðanna fengu 3 atkvæði eða fleiri.

Verðlaunaafhending fór fram á Ljóðasetrinu miðvikudaginn 15. desember, þar sem flestir nemendur viðkomandi bekkja voru viðstaddir.

Þórarinn Hannesson, forstöðumaður setursins, flutti nokkur ljóð í upphafi athafnarinnar og tilkynnti svo um úrslit. Verðlaunahafarnir eru nefndir í stafrófsröð og heiti ljóða þeirra:
Kolbrún Kara Eyjólfsdóttir – Ég og laufið
Kolfinna Ósk Andradóttir – Regnhlífin
Sylvía Rán Ólafsdóttir – Stelpan bak við grímuna
Víkingur Ólfjörð Daníelsson – Gríma

Í verðlaun voru ljóðabækur og gjafabréf frá veitingastaðnum Torginu á Siglufirði.

Það eru Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra sem styrkja ljóðahátíðina Haustglæður og að henni standa Ungmennafélagið Glói og Ljóðasetur Íslands. Þetta er 15. árið í röð sem hún er haldin.

Forsíðumynd, Þórarinn ásamt verðlaunahöfunum Víkingi, Kolbrúnu og Kolfinnu. Á myndina vantar Sylvíu Rán.



Myndir: Halldóra María Elíasdóttir og Þórarinn Hannesson