Regnbogi (einnig kallaður friðarbogi) er ljósfræðilegt og veðurfræðilegt fyrirbæri sem orsakast þegar litróf birtist á himninum á meðan sólin skín á vætu í andrúmslofti jarðar. Hann er marglitur með rauðan að utanverðu og fjólubláan að innanverðu. Sjaldnar má sjá daufari regnboga með litina í öfugri röð.

Regnboga sjáum við þegar staðbundið skúraveður og sólskin fara saman og þá oftast þegar við erum sjálf á uppstyttusvæði. Ef skúraveðrið skilar sér ekki getum við gengið að regnboganum vísum í fossúða í sólskini. Á Íslandi sjást regnbogar oft við fossa þegar sólin skín á mistrið sem kemur frá fossinum. Þegar við horfum á regnbogann höfum við sólina í bakið.

Til eru ýmsar tegundir regnboga, s.s. Bifröst, sem í norrænni goðafræði er brú ása af jörðu til himins, er einnig annað nafn á regnboga. Haggall er regnbogastúfur á hafi hrímbogi er regnbogi í éljagangi og lágum lofthita. Jarðbogi er regnbogi sem nær báðum endum til jarðar. Njólubaugur er regnbogi sem sést að nóttu til. Regnband er bútur af regnboga. Úðabogi er regnbogi í þoku eða yfir fossi. Þokubogi (oft nefndur hvítur regnbogi) er hvítur regnbogi sem myndast af litlu endurkasti í örsmáum úðadropum, þannig að litirnir blandast aftur.

 

Mynd/Kristín Sigurjónsdóttir

 

Ljósgeisli sem fer úr einu efni í annað breytir almennt um stefnu, brotnar. Stefnubreytingin stjórnast af efniseiginleika sem er kallaður ljósbrotsstuðull. Hann er breytilegur með öldulengd ljóssins, það er að segja lit. Þetta gefur regnboganum litaskiptinguna.

Sólargeislar sem mynda regnbogann hafa brotnað við að fara inn í regndropa, síðan speglast einu sinni á bakhliðinni og brotnað svo aftur við að fara út úr dropanum. Upphaflegu geislarnir koma allir frá sól og stefna á þann punkt sem er andstæður sólinni á himinkúlunni, séð frá okkur (raunar yfirleitt í stefnu niður í jörðina).

Samkvæmt þjóðsögunni segir að við enda regnbogans bíði manns gull og grænir skógar og að það boði gæfu að komast undir þessa himnesku litadýrð og baða sig í ljósbroti sólargeislanna.

Samkvæmt norrænni goðafræði þá er rauði liturinn í regnboganum eldur sem brennur á Ásbrú, brúnni sem goðin byggðu milli Miðgarðs og Ásgarðs og varnar eldurinn því að hrímþursar og bergþursar gangi upp brúna.

 

Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir

Heimild:
http://tofrarhimins.com/tofrarhimins/regnbogar/