Sem kunnugt er hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19).
Fjallabyggð hefur gefið út viðbragðsáætlun sem er að finna á heimasíðunni undir útgefið efni.
Þessi viðbragðsáætlun á að þjóna þeim tilgangi að vera stjórnendum sveitarfélagsins til stuðnings um það hvernig takast eigi á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum.
Áætlun þessi gildir fyrir sveitarfélagið og stofnanir þess en helstu stofnanir munu setja sér eigin áætlun og útfæra nánar viðbrögð eftir eðli starfsemi hverju sinni. Ábyrgð á viðbragðsáætlun er á höndum viðkomandi yfirmanns stofnunar, deildarstjórum sem og bæjarstjóra. Áætlunin miðast við að starfsemi sveitarfélagsins verði skert og að hluti starfsfólks verði rúmfastur vegna veikinda eða í sóttkví í ákveðinn tíma. Markmið áætlunarinnar eru að tryggja skipulögð og samræmd viðbrögð allra stofnana sveitarfélagsins sem og starfsmanna þess, ásamt því að stuðla að öryggi starfsmanna og lágmarka áhrif inflúensufaraldsins á rekstur sveitarfélagsins.
Við gerð áætlunarinnar er meðal annars stuðst við lög um almannavarnir nr. 82/2008 og lög um sóttvarnir nr. 19/1997. Notast var við fyrirmynd af viðbragðsáætlun Sambands Íslenskra sveitarfélaga og viðbragðsáætlun Eyjafjarðarsveitar.
Viðbragðsáætlun þessi hefur þegar verið virkjuð og viðbragðsteymi bæjarfélagsins hefur tekið til starfa.