Úrhelli hefur verið á Siglufirði og hafa viðbragðsaðilar verið kallaðir út til að dæla upp vatni sem safnast hefur saman við hús Brynju Baldursdóttur að Grundagötu 3.

Aðspurð segir Brynja að hún sé komin með tjörn í bakgarðinn þar sem þar er lægsti punktur og allt affall af húsum í nágrenninu safnist þar saman.

Brynja hefur alloft fengið vatn í kjallarann hjá sér en hefur að undanförnu unnið að miklum endurbótum á húsinu.

Mikið hefur rignt á Siglufirði síðustu sólarhringa segir á vefsíðu Veðurstofunnar, uppsafnað 71 mm síðustu 24 klst og 99 mm á 48 klst. Vegna mikillar úrkomu hefur hækkað í ám og lækjum. Auknar líkur á skriðum og grjóthruni þegar jarðvegur er orðin vatnsmettaður.

Myndir/aðsendar