Tilkynningum frá almenningi um veika eða dauða villta fugla hefur fækkað í júní en þó berast enn tilkynningar um dauða fugla af þeim tegundum sem áður hafa greinst með fuglaflensu, sérstaklega ber að nefna súlur. Matvælastofnun álítur því að þeim sérstöku varúðarráðstöfunum sem fyrirskipaðar hafa verið skuli viðhaldið. Búast má við að þær gildi fram eftir hausti.
Skæð fuglaflensa var staðfest í fyrsta sinn á Íslandi í apríl á þessu ári, í haferni sem fannst dauður í október 2021. Smitið var rakið til veira sem geisuðu í Evrópu veturinn 2020 til 2021 og bárust að öllum líkindum til landsins með farfuglum um vorið eða sumarið 2021. Í apríl á þessu ári greindist aftur skæð fuglaflensa og þá í fuglum sem smituðust á þessu ári. Fyrstu greiningar voru í heiðagæs, hrafni og súlu. Það sem af er árinu hefur skæð fuglaflensa greinst í 23 af samtals 109 sýnum sem tekin hafa verið úr villtum fuglum. Flestar greiningar eru í súlum, samtals 8, sem allar fundust á suðvesturhorni landsins. Einnig hafa flestar tilkynningar frá almenningi verið um veikar og dauðar súlur, aðallega á svæðinu frá Reykjanesskaga til Breiðafjarðar. Niðurstöður rannsókna á sýni sem tekið var úr súlu við Grindavík þann 10. júní, staðfesta að enn er virkt smit í súlum. Sýni sem hafa verið tekin úr súlum annarsstaðar á landinu hafa verið neikvæð. Skæð fuglaflensa hefur nú greinst í 11 tegundum villtra fugla, þær eru súla (8), grágæs (2), heiðagæs (2), silfurmáfur (2), skúmur (2), svartbakur (2), haförn (1), helsingi (1), hettumáfur (1), hrafn (1) og sílamáfur (1).
Síðan í byrjun árs, hefur Matvælastofnun borist hátt í 550 tilkynningar frá almenningi um samtals tæplega 1000 veika eða dauða fugla. Meira en þriðjungur, eða hátt í 400 þessara fugla, eru súlur. Ekki er vitað af hverju afföll eru svona mikil í súlum umfram aðrar fuglategundir. Athygli vekur að síðan í maí hefur skæð fuglaflensa einnig greinst í súlum víða erlendis; í Kanada, Noregi, Þýskalandi, Danmörku, Hollandi, Belgíu og Bretlandi. Þetta bendir til þess að súlur séu sérstaklega viðkvæmar fyrir þeim stofnum fuglaflensuveira sem nú eru í umferð í villtum fuglum.
Tilkynningum frá almenningi hefur fækkað í júní, sem gæti gefið til kynna að dregið hafi úr smiti í villtum fuglum. Þrátt fyrir það er smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi frá villtum fuglum enn nokkur og ekki hægt að horfa fram hjá henni. Nú í sumar þegar ungfuglar villtra fugla bætast í hóp móttækilegra fugla, er hætt við að smitið viðhaldist. Í haust má svo reikna með að fuglaflensuveirur geti borist aftur til landsins með komu fargesta frá Grænlandi og Austur-Kanada sem hafa viðkomu á Íslandi áður en þeir halda áfram til vetrarstöðva sunnar í álfunni, og fugla sem koma hingað til lands til vetrardvalar.
Á grundvelli þessa telur Matvælastofnun að áfram sé nauðsynlegt að viðhafa hertar varúðarráðstafanir til að vernda alifugla og aðra fugla í haldi gegn smiti skæðra fuglaflensuveira frá villtum fuglum. Reikna þarf með að varúðarráðstafanirnar verði í gildi fram að vetri. Matvælastofnun mun áfram vakta smit í villtum fuglum og ef í ljós kemur að það hafi fjarað út, verður þetta mat endurskoðað. Þessi langtímaspá hvetur vonandi þau sem halda alifugla í húsagörðum til að skipuleggja dýrahald sitt í sumar og útbúa lokuð gerði með þaki, hafi það ekki þegar verið gert, svo hænurnar sem haldið hefur verið innandyra fái notið sumarsólarinnar.
Matvælastofnun vill enn á ný ítreka beiðni til almennings um að tilkynna stofnuninni um dauða villta fugla sem finnast. Þetta er mikilvægur liður í því að fylgjast með þróun og útbreiðslu hins skæða afbrigðis fuglaflensuveirunnar. Ekki er mögulegt að taka sýni úr öllum fuglum sem tilkynnt er um en þeir eru allir skráðir og sérfræðingar stofnunarinnar meta hvort ástæða sé til að taka úr þeim sýni. Besta leiðin til að tilkynna er að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar en líka er hægt að hringja í síma 5304800 á opnunartíma eða senda tölvupóst á netfangið mast@mast.is. Um veika villta fugla skal tilkynna til viðkomandi sveitarfélags, sem er skylt að sjá til þess að fuglinum sé komið til hjálpar eða hann aflífaður á mannúðlegan hátt, samkvæmt lögum um velferð dýra. Utan opnunartíma sveitarfélaga er hægt að hafa samband við lögreglu.